14.12.1978
Efri deild: 27. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1550 í B-deild Alþingistíðinda. (1032)

7. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Í þessari umr. hefur verið fjallað að mínu mati einum of mikið um Suðurnesin í sambandi við þá könnun sem gert er ráð fyrir í þessu frv. Það er markmið þessarar könnunar að byrja á Suðurnesjunum, en síðan verður allt landið í heild tekið. Það verður ekki fyrr en því starfi er lokið að endanleg úthlutun fer fram á þessu fé. Þannig er ekki búið að eyrnamerkja þessar 1200 millj. allar Suðurnesjamönnum. Það kom fram í máli hv. frsm. meirihlutanál., að í þessari skýrslu eða till. n. er gert ráð fyrir að lánaðar yrðu til fyrirtækja á Suðurnesjum, til að mig minnir 8 frystihúsa, hagræðingarlán upp á 230 millj. og síðan veitt fjárhagsleg aðstoð upp á 70 millj. Þetta eru einungis till. n. sem stjórn Fiskveiðasjóðs tekur síðan endanlega afstöðu til.

Eins og hér hefur verið drepið á eru fleiri staðir í erfiðleikum en Suðurnesin og alveg óþarfi að gera lítið úr erfiðleikum þeim sem við er að etja í Vestmannaeyjum, þar sem helmingur af bátaflotanum hefur verið auglýstur til sölu í blöðunum. Ég vil nefna þá erfiðleika, sem þorpin á Suðurlandi eiga við að glíma, Eyrarbakki og Stokkseyri, sem hafa mjög lítið hráefni. Hvort þorpið um sig á 1/3 í einum togara og bátaútgerð er mjög lítil þaðan. Þar er líka atvinnuleysi. Það er ekki einungis á Suðurnesjum. Það eru aðrir staðir sem eiga í erfiðleikum á þessu svæði, það má nefna Reykjavík, það má nefna Akranes og Snæfellsnes, enda tel ég rangt að það sé verið að tala um sérstakan vanda Suðurnesja. Það er sérstakur vandi Suðvesturlands sem er réttara að tala um.

Aðalorsökin fyrir þessum mikla vanda er að mínu mati ekki hraðfrystihúsaáætlunin, heldur einfaldlega sú, að afli hefur farið stórminnkandi hér undanfarin ár og vertíðir eru ekki þær sem þær voru áður fyrr. Það er bátaaflinn sem hefur dregist saman. Það má sjálfsagt ræða það í allan dag af hverju þessi bátaafli hafi dregist saman, en það er þetta sem er meginorsökin, að aflinn er minni á þessum hefðbundnu veiðislóðum bátaútgerðar á Suðvesturlandi. Svo koma í viðbót við þetta áhrif saltfisksverkunar. Hún hefur verið mjög blómleg. Hv. þm. Stefán Jónsson nefndi hér t.d. heimilisiðnað sem er og var í miklum blóma á Suðurnesjum. Þetta var aðallega saltfiskverkun. Það var í þá tíð að hagstætt var að verka saltfisk og hengja upp fisk. Nú bendir margt til þess, að sá tími sé liðinn. Það hafa verið mjög miklir erfiðleikar einmitt varðandi saltfisk og skreið, það er ekki að batna aftur og það má síst af öllu vanmeta þau áhrif. Það er einnig réttileg ábending frá hv. þm. Stefáni Jónssyni um áhrif herliðsins þarna suður frá á atvinnulíf. Hersetan hefur mikil áhrif á atvinnulífið.

Það var nefnt hér áðan af hv. þm. Guðmundi Karlssyni að samkv. upplýsingum, sem hann hafði úr samtölum við forráðamenn frystihúsa á Suðurnesjum, þá dygði þetta, sem þeir vissu um að ætti að úthluta, þeim í ein vikulaun. Þarna er að mínu mati verið að skjóta yfir markið. Það eru, eins og sést á þessum tölum, um 300 millj. til 10 fyrirtækja. Þá er um að ræða meira en ein vikulaun, enda er ekki markmiðið — ég vil koma að því að lokum með þessu frv. og með þessari sjóðamyndun að þessir peningar fari upp í skuldagreiðslur. Þetta var það sem við lögðum aðaláherslu á í fjh.- og viðskn., að þessir peningar færu í það sem kallað er hagræðing og þetta nýttist fyrirtækjunum sem best, en ekki að bankarnir, Framkvæmdastofnun eða Fiskveiðasjóður tækju féð upp í gömul vanskil. Það vill n. ekki. Ég held að menn geti verið sammála um það líka, að þeir aðilar á Suðurnesjum, sem koma til með að fá þessi lán, vilja sjálfsagt fá þessa peninga þannig að þeir geti nýst þeim, ekkert sérstaklega í vinnulaun. Það er allt annað mál, hvernig á að borga vinnulaun. Það er tengt rekstrargrundvellinum. Við erum ekki að ræða um hann hér. Við getum haft aðra umr. um það.