23.10.1978
Efri deild: 7. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 95 í B-deild Alþingistíðinda. (105)

8. mál, niðurfærsla vöruverðs

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég skil vel að hæstv. forsrh. sé viðkvæmur fyrir því þegar ég tala um verknað, eins og ég orðaði það, sem stundum hefur verið kallaður „fölsun vísitölunnar“. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem talað hefur verið um fölsun vísitölunnar. Ég hygg að menn hafi um langan aldur talað um fölsun vísitölunnar. Þeir hafa orðað þannig þann leik sem vitað er að hefur verið leikinn margoft og hvað ofan í annað með vísitöluna til þess að hagræða henni eftir því sem við hefur þótt þurfa á hverjum tíma. Ég hygg að gagnrýni á þetta hafi komið fram hjá öllum stjórnmálaflokkum og sé ein veigamesta ástæðan fyrir því, að allir stjórnmálaflokkar, a.m.k. í orði kveðnu, og þá á ég við suma núv. stjórnarflokka, en ekki við minn flokk, eru fylgjandi því að endurskoða vísitöluna, m.a. til þess að koma í veg fyrir að það eigi sér stað verknaður, eins og ég orðaði það, sem stundum hefur verið kallaður fölsun vísitölunnar.

Ástæðan til þess, að ég vék að þessu nú, liggur í augum uppi. Það er vegna þess að þó að það sé ekki í því frv. sem hér liggur fyrir, þá er það í brbl. um kjaramál frá 8. sept., að gerðar eru sérstakar ráðstafanir til þess að hagræða kaupgjaldsvísitölunni með því annars vegar að lækka verð á vörum, sem vega þungt í vísitölugrundvellinum, og hins vegar með því að sýna tilburði til þess að hækka gjöld og innheimtu í ríkissjóð á þeim liðum sem ekki koma við vísitöluna. Það var einungis af þessu sem ég vék að þeim verknaði sem stundum hefur verið kallaður fölsun vísitölunnar. Eins og ég sagði í upphafi, skil ég að hæstv. forsrh. sé viðkvæmur fyrir þessu tali, en þetta, sem ég hef sagt, á fullan rétt á sér og ég mun ekki biðjast afsökunar á því.