14.12.1978
Efri deild: 28. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1555 í B-deild Alþingistíðinda. (1056)

97. mál, ríkisábyrgð á launum við gjaldþrot

Flm. (Ólafur Ragnar Grímsson):

Herra forseti. Árið 1974 voru sett lög um ríkisábyrgð á launakröfum á hendur vinnuveitenda sem úrskurðaðir hafa verið gjaldþrota. Að fenginni reynslu hafa komið fram margvíslegir annmarkar bæði á formlegum búningi þessara laga og eins á framkvæmd þeirra. Reynslan hefur sýnt að þau almennu réttindi, sem grundvallarhugsun þessara laga byggist á, eru takmarkaðri en eðlilegt má teljast.

Á þskj. 108 hef ég flutt frv. til laga sem felur í sér að leiðrétta einn þeirra þátta sem er ábótavant í frv. Það er sá þáttur, að við gjaldþrot glatast þær innstæður sem makar eða börn eiga hjá viðkomandi atvinnurekanda vegna dauðsfalls fyrirvinnu heimilisins eða einstaklingar eiga vegna bóta sem skylt hefur verið að greiða vegna örorku. Það eru ýmis tilvik sem sýna að túlkun gildandi laga felur það í sér, að þótt ríkið ábyrgist greiðslu á almennum vinnulaunum við gjaldþrot þá glatast örorkubætur hafi viðkomandi rekstraraðila verið dæmt að greiða þær, eða bætur vegna dauðsfalls. Ég held að slíkur búningur laganna sé fyllilega óeðlilegur, miðað við þá almennu velferðar- og réttindahugsun sem að baki þessum lögum var á sínum tíma. Ég hef þess vegna leyft mér að flytja frv. til laga sem felur einfaldlega í sér að þessi þáttur laganna verði leiðréttur.

Eftir að þetta frv. var flutt hafa hins vegar í viðræðum samtaka launafólks og ríkisstj. komið fram óskir af hálfu samtaka launafólks um víðtækari leiðréttingu á lögunum um ríkisábyrgð á launum við gjaldþrot en þetta frv. gerir ráð fyrir. Ég tel því sjálfsagt að skoðun á þessum breytingum, sem ég hér legg til, verði í tengslum við umfjöllun um þær hugmyndir eða það frv. sem samtök launafólks hafa kynnt fyrir stjórnvöldum og ég held að sé nú til meðferðar — eða vona a.m.k. að sé nú til meðferðar á vettvangi ríkisstj.

Í raun og veru held ég að ekki sé þörf á því að fara mörgum orðum um þetta frv. Hér er að mínum dómi um tiltölulega einfalda og ekki mjög kostnaðarsama breytingu að ræða, — breytingu sem er hins vegar nauðsynleg ef við ætlum að láta þá almennu réttinda- og velferðarhyggju, sem mótaði hin upphaflegu lög, einnig ná til bóta sem eru sprottnar vegna slysa, sem valdið hafa örorku, eða slysa, sem valdið hafa dauðsfalli. Með vaxandi tíðni vinnuslysa og þeirri óvissu, sem einkennir rekstrargrundvöll fjölmargra fyrirtækja, eru líkur á því, að sá galli núgildandi laga, sem ég hef gert hér að umræðuefni, kunni e.t.v. að verka enn frekar í þá veru að fjölskyldur, makar og börn, glati verulegum fjármunum eða réttindum við gjaldþrot fyrirtækja, sem þau eiga þó samkv. öllum almennum skilningi að eiga jafnan rétt til og þeir sem vinna hjá fyrirtækinu og eiga þar inni laun ógreidd þegar til gjaldþrots kemur. Ég tel, eins og ég hef sagt, að ekki sé nokkur ástæða til þess að gera greinarmun á almennum launagreiðslum og þeim örorku- og dánarbótum sem vinnuveitanda hefur áður verið gert skylt að greiða, en kunna að nokkru leyti að vera ógreiddar þegar til gjaldþrotsins kemur. Það er þess vegna von mín að þetta mál fái jákvæðar undirtektir.

Mér er kunnugt um að þessi breyting og reyndar aðrar, eins og ég vék að áðan, eiga víðtæfan stuðning hjá samtökum launafólks. Ég vil þess vegna mælast til þess, að að lokinni 1. umr. verði þessu máli vísað til félmn. væntanlega, þótt það kunni önnur n. að koma til greina, — ég tel að það mál þurfi aðeins skoðunar við, en ég vil á þessu stigi gera till. um félmn, — og verði síðan skoðað í samhengi við þær breytingar sem ríkisstj. vonandi gerir á þessum lögum að öðru leyti.