14.12.1978
Neðri deild: 32. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1572 í B-deild Alþingistíðinda. (1085)

39. mál, kjaramál

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Með brtt. frá fjh.- og viðskn. er vissulega stigið skrefi nær því sem réttlátt er varðandi álagningu eignarskattsauka samkv. frv. um kjaramál á þskj. 42. En hún nær of skammt hvað varðar láglaunafólk. Þarna er að einhverju leyti komið til móts við ellilífeyris- og örorkulífeyrisþega, en óháð því, sem mestri gagnrýni hefur sætt, að þetta getur lagst þungt á þá sem hafa kannske ekki úr öðru að spila en almannatryggingabótum og litlum öðrum tekjum, en eiga þó einhverjar eignir. Ég vil benda á að samkv. brtt. hv. fjh.og viðskn. lækkar eignarskattsaukinn um 16. þús. hjá einstaklingum og 24 þús. hjá hjónum óháð tekjum. En samkv. upplýsingum frá fjmrn. eru í hópi ellilífeyrisþega hálaunamenn, og eru það á annað hundrað manns sem hafa yfir 5 millj. í tekjur á árinu 1977, þar af 30 yfir 6 millj. og 30 yfir 7 millj. Til þeirra hálaunamanna mundi þessi afsláttur á eignarskattsaukanum ná einnig samkv. till. fjh.- og viðskn., meðan eignarskattsaukinn kemur af fullum þunga á láglaunafólk undir 67 ára.

Ég hef lagt fram brtt. við kaflann um eignarskattsaukann sem miðar að því, að niðurfelling og lækkun tekjuskattsauka fari eftir tekjuhæð. Ef sú till. yrði samþ. mundi skattalækkun einnig ná til mjög fjölmenns hóps undir 67 ára sem hefur litlar aðrar tekjur en almannatryggingabætur, og mundu þeir sleppa við eignarskatt samtals að upphæð 24–25 millj. kr. Til þessa hóps nær brtt. fjh.- og viðskn. ekki, þótt þetta sé mjög tekjulítill hópur og einnig sá hópur sem gagnrýnt hefur verið að fengi viðbót á eignarskatt, fyrir utan ellilífeyrisþega. Aftur á móti nær till. fjh.- og viðskn. m.a. til þess hóps manna sem ég nefndi áðan og er yfir 67 ára, en hefur engu að síður mjög háar tekjur, eins og kom fram fyrr í máli mínu. Ég held að það geti engum blandast hugur um að frá réttlætissjónarmiði séð hljóti þeir frekar að eiga skilið að fá lækkun eða undanþágu sem tekjulágir eru en tekjuháir. Lækkunin mun tvímælalaust ná til tekjulágra samkv. till. minni. en margra tekjuhárra samkv. till. fjh.- og viðskn.

Ég vil geta þess, að þetta mundi ná til um 1700–1800 manns samkv. till. minni og mundi tekjutap ríkissjóðs verða um 41 millj. kr.

Ég vil að lokum undirstrika það, að till. mín nær til þeirra sem mjög nauðsynlega þurfa á þessari lækkun eða niðurfellingu að halda vegna mjög lítilla tekna, þar sem aftur till. fjh.- og viðskn. nær ekki til allra þeirra, en tekur aftur á móti til mjög tekjuhárra manna. Þess vegna vona ég að till. mín fái stuðning þm. Það hlýtur að vera gagnrýnisvert að samþykkja hér ívilnanir til hátekjumanna meðan eignarskattsaukinn kemur af fullum þunga á lágtekjufólk.