15.12.1978
Efri deild: 30. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1573 í B-deild Alþingistíðinda. (1093)

108. mál, aukin gæði fiskafla

Flm. (Ágúst Einarsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram á þskj. 119 svohljóðandi þáltill. um aukin gæði fiskafla:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj, að beita sér fyrir í samstarfi við hagsmunaaðila sjávarútvegsins að gæði fiskafla verði bætt til muna og þá sérstaklega með ísun í kassa eða samsvarandi geymsluaðferðum.“

Það ætti öllum að vera ljóst, að samhliða veiðitakmörkunum, eins og nú eiga sér stað í verulegum mæli, ber einnig að leggja ríka áherslu á að sá afli, er berst að landi, sé nýttur eins vel og kostur er á. Nú er það svo, að meiri gæðakröfur eru gerðar til hráefnis, sem fara skal í frystingu, heldur en ef um söltun eða herslu er að ræða. Með tilliti til þess óvissuástands, sem nú ríkir á mörkuðum Íslendinga fyrir hertan fisk, svo og vegna þeirrar sölutregðu á saltfiski, sem átt hefur sér stað í Portúgal, ber að mati mínu að leggja aukna áherslu á frystingu sjávarafla. Nú er það einnig svo, að fiskur, er fer til herslu til Nígeríu, er af lægri gæðaflokkum heldur en sú skreið sem fer t.a.m. til Ítalíu. Sama gildir um saltfiskmarkað okkar í Portúgal, en hann er einkum ætlaður fyrir lægri gæðaflokka saltfisks. Ber því að leggja ríka áherslu á að gæði fiskafla séu slík, allt frá því að fiskurinn er veiddur til þess að hann er tekinn í vinnslu og í vinnslunni sjálfri, að hann fullnægi þeim kröfum sem gerðar eru til góðs saltfisks eða góðrar skreiðar en þó sérstaklega til frystingar.

Að mínu mati er árangursríkasta aðferðin til að ná þessu markmiði að kassa fisk um borð í veiðiskipi, en sú vinnslu- og geymsluaðferð hefur rutt sér til rúms í fiskvinnslunni hérlendis. Nú eru það einungis tiltölulega fá skip sem eru sérstaklega hönnuð með kössun á fiski í huga. Er þar einkum um að ræða hina minni skuttogara. Einungis lítill hluti bátaflotans er þannig útbúinn að koma megi við kössun með góðu móti. Einnig má nefna að hinir stóru skuttogarar svonefndu voru fæstir miðaðir við notkun kassa er þeir voru byggðir. Þó eru til undantekningar frá því, og fjölmörgum þeirra hefur verið breytt í þá átt, að þeir geti einnig kassað fiskinn um borð. Það er ekkert vafaatriði, að kassavæðing skipaflotans muni skila sér mjög fljótt aftur í auknum gjaldeyristekjum. Má nefna fjölmarga kosti varðandi þetta atriði og vil ég nefna hér nokkra.

Við kössun á fiski á hafi úti reynist gæðamat fisksins vera mun betra en ef um lausan fisk er að ræða. Nefna má að einungis eru greiddar svokallaðar kassauppbætur þegar fiskurinn er metinn í 1. flokk. Jafnframt má ekki setja meira í fiskkassa en ákveðið hámarksmagn. Einnig má nefna það, að fyrir vinnsluna skiptir miklu máli að fá fiskinn án þess að greiða fyrir ís í afla, en tekin er meðalvigt úr tíunda hverjum kassa til þess að fá út aflamagn. Þegar um lausan fisk er að ræða reynist oft, sérstaklega hjá bátaflotanum, vera töluvert ísmagn í afla. Einnig skilar kassafiskur mun betri árangri í flökun og er það stórt atriði í nýtingu hráefnis. Jafnframt hefur kassafiskur meira geymsluþol en laus fiskur sé hann rétt meðhöndlaður í frystihúsi. Sömuleiðis má geta þess, að hlutfall neytendapakkninga í vinnslu eykst til muna sé unnið úr kassafiski, en þessar neytendapakkningar skila að öðru jöfnu betri útborgunarverði en blokk. Einnig má benda á að við löndun úr skipi, ef aflinn er í kössum, skapast margs konar hagræði sem vert er að drepa á. Bæði er um að ræða einfaldari og erfiðisminni vinnu við löndunina sjálfa svo og við flutninga frá bryggju til vinnsluhúss. Þessir flutningar eru mun auðveldari og fara mun betur með fiskinn heldur en ef um lausan fisk er að ræða. Vinnslurásin með lausan fisk er sú, eins og hv. alþm. þekkja vafalaust, að honum er landað í málum, sturtað á vörubíl, 8–9 tonn á hvern vörubíl, keyrt upp í hús, sturtað þar á gólfið og ísað yfir og síðan pikkaður upp á færibönd til flökunar og frekari vinnslu. Þarf ekki að hafa mörg orð um það, að slík meðferð á hráefni bætir það ekki þegar kemur að úrvinnslu fisksins.

Mig langar til að víkja nokkuð að aðstöðu um borð í skipum með tilliti til kössunar. Ég nefndi fyrr að litlir skuttogarar væru yfirleitt þannig útbúnir að kassa megi afla að verulegu leyti. En iðulega er talið að ekki megi koma með kassafisk að landi sé veiðiferð lengri en 10–11 daga. Því er það algengt á skuttogurunum, sem eru lengri tíma úti, að afli fyrstu tveggja daganna er hafður laus og eftir fyrstu tvo, þrjá dagana er kassað. Þetta gefur betri árangur en að kassa frá upphafi veiðiferðar. Hins vegar má nefna það, að víðs vegar um landið eru minni skuttogarar einungis viku til tíu daga á veiðum og þá kemur ekki upp það vandamál er ég drap á áðan. Hins vegar er um vandamál að ræða í sambandi við bátaflotann sem þarf að bæta úr. Það þarf að gera margvíslegar breytingar á bátum til að þeir geti kassað aflann með góðu móti. En vert er að geta þess, að miðað við kössun nýtist rúm í skipum mun verr en ella. Má þar til nefna um síldveiðarnar, sem hafa stóraukist undanfarin ár, að ekki hefur tekist að fá menn til að kassa síldina, þótt ekkert vafaatriði sé að slíkt mundi bæta verulega hráefnið, þ.e. síldina. Geta má þess í þessu sambandi, að við verðlagningu síldar eru ekki greiddar kassauppbætur, en gert ráð fyrir að síldin sé í kössum, en slíkt þekkist varla, þannig að þar er um að ræða misbrest í verðlagningu.

Einnig má nefna sem kost varðandi kassavæðingu að koma má upp kældum geymslum, jafnvel við bryggjur, sem gætu nýst húsunum sameiginlega, en stórt atriði í kassavæðingunni, er að ekki einungis er nóg að koma kössum um borð í skip, heldur verður að útbúa aðstöðuna í landi þannig að sem best nýting fáist, og höfuðatriðið í því sambandi er að komið verði upp sem víðast kældum hráefnisgeymslum. Það eru dýrar framkvæmdir, og eins og staðan er núna hjá fiskvinnslufyrirtækjum er mjög erfitt að koma kældum hráefnisgeymslum upp.

Einnig má nefna það, að húsrými í frystihúsum hérlendis er oft takmarkað. Í tengslum við kælingu og geymslu á kassafiski í húsum þarf að koma upp þvottavél fyrir kassana svo og geymslu fyrir tóma kassa. En kassar taka mjög mikið pláss í frystihúsum og víða horfir til mikilla vandræða með húsrýmið. Er því sérstök ástæða til að vekja athygli á þeirri hugmynd að sameinast verði í einstökum byggðarlögum um a.m.k. geymslur fyrir tóma kassa við bryggju þess byggðarlags. Hitt málið, að koma upp sameiginlegri kældri geymslu fyrir stærri byggðarlög, það er stærra mál og erfiðara í framkvæmd en geymsla fyrir tóma kassa, þó að vissulega beri að stefna að því að menn geti nýtt sameiginlega stærri einingar. Jafnframt má benda á það, að með kassanotkun er hægt að auka sjálfvirkni að miklum mun, bæði við löndun, eins og fyrr var á drepið, svo og í húsunum sjálfum. Á ég hér við sérstök færibönd sem losa kassana sjálfkrafa, þeir renna sjálfkrafa inn í þvottavél þegar búið er að tæma þá og fiskurinn gengur áfram í vinnslurásina. Mér er kunnugt um að hugvitsmenn í Vestmannaeyjum hjá vélsmiðjunni Völundi eru að hanna slíkt kerfi um þessar mundir, og ber að lofa framtak þeirra í þessum málum hér á hinu háa Alþingi. En eins og mönnum er kunnugt um stóðu bræðurnir Halldór og Gunnlaugur Axelssynir fyrir þróun og smíði hinna svokölluðu fiskflokkunarvéla sem reynst hafa vel í mörgum frystihúsum hérlendis og eru orðnar útflutningsvara frá Íslandi.

Mig langar að víkja nokkrum orðum að kostnaði varðandi kassavæðingu. Fiskkassar eru dýrir, kosta u.þ.b. 400–500 kr. kassinn. Engin kassaverksmiðja er hérlendis sem getur smíðað þessa kassa og eru kassarnir yfirleitt keyptir frá Noregi, en þó eitthvað frá Frakklandi. Ekki er ólíklegt að gera ráð fyrir að bátur, sem bera ætti 30–40 tonn, yrði að fjárfesta sem svaraði 5–6 millj. kr. í kössum, einungis í kössunum einum. Fyrir togara, sem verið væri að kassavæða, þyrfti að kaupa kassa fyrir u.þ.b. 25 millj. kr. Gera verður ráð fyrir að fjöldi kassanna sé slíkur, að eitt og hálft til tvöfalt gengi sé til af þeim.

Vert er að geta þess í sambandi við kassa, að það er grátlegt, ef þessi geymsluaðferð á að vera til frambúðar, að við höfum ekki manndóm í okkur til að koma upp verksmiðju sem geti framleitt slíka kassa hérlendis. En það er mitt mat, og fer ég þar reyndar örlítið út fyrir það efni sem ég er að ræða um, að við þyrftum að auka iðnað í tengslum við sjávarútveg, því að það er iðngrein sem við kunnum.

Varðandi breytingar á lestum og aðstöðu um borð í skipum er stórt verkefni fram undan og mjög kostnaðarsamt.

Þess má líka geta í sambandi við kassa, sem ég hef nú gert að miklu umræðuefni, að eitt bretti fyrir kassa, sem ber um 8 kassa, kostar 40–50 þús. og það þarf hundruð af þeim. Menn geta því reiknað út að verulegar upphæðir eru bundnar við þessa þróun. Nú hefur sú venja komist á við kassakaup á undanförnum árum, að skipið fjármagni helming og vinnslustöðin helming, enda er um að ræða kosti fyrir báða aðila. Fiskveiðasjóður lánar út á kassakaup, en að mínu mati er ekki nóg gert til að stuðla að þessari þróun sem ég tel vera mjög jákvæða. Að mínu mati er nauðsynlegt að veitt verði hagstæð lán til kaupa á kössum og til breytinga á skipum svo og til að koma upp kæligeymslum í einstökum vinnsluhúsum.

Það er mitt mat, að gera beri sérstaka áætlun með því markmiði að kassavæða togara — og bátaflotann en eins og áður er vikið að mun slík fjárfesting skila sér mjög fljótlega aftur.

Varðandi vertíðarafla báta má taka fram, að vertíðir eru ekki lengur þar sem þær voru. Er full ástæða til að taka mið af því í þessu samhengi, að þeir toppar, sem áður fyrr voru á vertíð, eru ekki lengur fyrir hendi. Þau vinnubrögð að koma með óslægðan netafisk, tveggja nátta eða svo, eru varhugaverð og ekki nauðsynleg. Það er vitað mál, að netafiskur er ekki í sama gæðaflokki og annar fiskur, og ef hann er orðinn eldri en góðu hófi gegnir kemur það einungis niður á verði til sjómanna í gegnum gæðamatið svo og í erfiðari vinnslu, þannig að fiskurinn fer í lægri gæðaflokka í saltfiski og skreið.

Mér þykir vert að geta þess hér, að einn bátur frá Hafnarfirði, Pétur Jónsson, var á síðustu vertíð á netaveiðum. Þetta er stór bátur og er við loðnuveiðar. Þegar hann fór á net á vertíðinni í vetur slægðu þeir fiskinn um borð, kössuðu hann og tóku netin upp í hvert skipti sem báturinn fór í land. Þessi tilraun, — ef má kalla það svo, þetta hefur sjálfsagt verið gert oft áður, — kom mjög vel út og ég held að það verði mun almennara, að þetta verði gert á næstu árum. (Gripið fram í.)

Kassavæðing bátaflotans þýðir að bátar geta ekki komið með jafnmikið magn að landi og áður var. Það álít ég ekki sérstaklega stórvægileg rök gegn kassavæðingu, þar sem orðið er býsna sjaldgæft að bátar komi með fullfermi að landi þó að á vertíð sé.

Varðandi þá hugmynd, sem ég drap á fyrr, að komið verði upp sameiginlegri kassamóttöku eða kassageymslu fyrir frystihús, má geta þess, að vísir átti að vera kominn að því hér í Reykjavík, þar sem ég þekki vel til fiskvinnslu, en líklegt er að það mál strandi á peningaleysi. Ég álít reyndar að það sé ekkert höfuðatriði, hvort fiskurinn sé geymdur í húsunum sjálfum, ef pláss er fyrir hann, eða í sameiginlegri móttöku. Það er svo með flesta, sem eru að vinna úr fiski í frystihúsum, að þeir vilja gjarnan hafa fiskinn hjá sér, vilja e.t.v. ekki sækja hann jafnóðum eftir hendinni. Hins vegar er óhætt að vekja athygli á því, að með tilkomu kassa verða skipti á fiski, sem eru bráðnauðsynleg til að jafna hráefnisöflun, auðveldari en nú er. Þróun þessa skiptimarkaðar er komin lengst hér á Stór-Reykjavíkursvæðinu, þar sem er einstaklega góð samvinna meðal allra frystihúsanna í Reykjavík og Hafnarfirði um skiptingu á hráefni. Það er sama hvaða skip er inni, menn ganga í það, borga aftur í fiski þegar annað skip kemur, og væri ástæða til að fleiri landshlutar tækju sér það samstarf til fyrirmyndar.

Þó að mér hafi orðið tíðrætt um kassa, þá er það ekki svo, að það sé eini hluturinn í heiminum til þess að geta bætt gæði hráefnis. Það eru til aðrar aðferðir, og má nefna fisktanka í frystihúsunum sjálfum, en við þekkjum dæmi slíks hér á landi á Húsavík. Þar er laus fiskur settur í tank sem er fylltur með vatni. Það er stöðugt rennsli á vatninu, og þetta eykur geymsluþol fisksins verulega. Hafa verið gerðar miklar tilraunir á þessu sviði í Noregi og þetta er orðið algengt þar. Einnig má nefna þá þróun, að tankar séu hafðir um borð í skipum. Við þekkjum reyndar lítið af því hérlendis, en það er í sambandi við bræðslufisk, loðnu eða kolmunna. Varðandi tankskip hér man ég ekki eftir nema einu dæmi. Hins vegar er þetta mjög útbreitt í Noregi og talið mjög jákvætt í þeirra bræðslufisksútgerð. Það er ekki að efa að fiskur, sem geymdur er í rennandi vatni eða sjó, geymist mun betur ísaður fiskur, hvort sem hann er laus eða í kössum. Hins vegar eru vandamál í sambandi við losun á fiski úr tönkum sem eru um borð í skipum, og þá er ég að tala um bolfisk. Það eru vitanlega engin vandræði að losa bræðslufisk úr tönkum þar sem dælt er. Það eru til og verið að þróa nánar í Noregi sérstakar dælur fyrir bolfisk. Þetta hefur reyndar verið reynt í Kanada líka og að ég best veit notað þar verulega.

Varðandi tanka held ég að það sé þróun sem stefni rétt, en ekki sé tímabært að ganga út frá þeim í þau skip sem við eigum núna og ég hef lagt aðaláherslu á í þessu máli varðandi kössun. Við erum að ljúka núna norsku byltingunni. Hátindurinn er nýi Júlíus Geirmundsson, sem er mjög reyndar svipaður og allir Vestfjarðatogararnir voru. Það eru skip sem er kynslóð út af fyrir sig. Næst þegar við kaupum togara, en það verður innan tveggja, þriggja ára, verður þetta tekið strax upp við byggingu skipanna. Hins vegar er mjög erfitt varðandi bátaflotann að breyta skipum þannig að tankar komist í þau. Ég álít að það sé dýrara en að setja kassa um borð.

Einnig langar mig til að geta um hugmynd sem hefur verið prófuð í tilraunaskyni. Það er að setja fisk í gáma um borð í fiskiskipum. Það eru gámar sem rúma eitt tonn, tvö tonn og upp í tuttugu tonn. Þá er fiskurinn einfaldlega settur í gám sem er fylltur af sjó þannig að ekkert loftrúm myndast. Samkvæmt upplýsingum, sem ég hef frá Birni Dagbjartssyni sem hefur mikinn áhuga á þessu máli, hefur þetta reynst mjög vel og ég veit að hann hefur persónulega mjög mikla trú á þessu máli. Þá er það hugsað þannig við löndunina, að gámarnir eru einfaldlega teknir úr skipunum, eins og þegar verið er að losa flutningaskip, og fluttir á bílum upp í vinnslustöð, þar sem gámarnir eru síðan geymdir þar til fiskinum hefur verið dælt úr þeim eða runnið úr þeim. Þetta er athyglisverð þróun og ég er nokkuð hrifinn af þessu. Þetta leysir mörg vandamál, t.a.m. við losun og geymslu í frystihúsum, að geta staflað fiski upp í gámum. Við verðum að fylgjast vel með þessum atriðum. Þessi gámamál eru hins vegar líka atriði sem koma í næstu kynslóð skipa okkar, og við höfum hingað til fylgst með öllu því sem er að gerast á markaðnum varðandi nýjar aðferðir við fiskveiðar. Hins vegar getur verið að þessi gámageymsla henti mun betur fyrir heitari lönd, svo að kostur við þetta væri e.t.v. takmarkaðri hér en þar. Samt sem áður er rétt að fylgjast mjög vel með þessum málum.

Ég nefni í grg. eitt atriði sem ég tel vera mjög stórt í sambandi við þetta, og það er að sjómenn njóti verulega aukinna gæða aflans. Eru fordæmi fyrir því í kassaprósentunni, sem er núna 12% fyrir 1. flokks fisk í kassa. Þessi kassauppbót ætti að mínu mati að vera hærri og það á að vera miklu meiri munur á 1. og 2. flokki og ég tala nú ekki um 3. flokks fisk, sem sést nú orðið sjaldan til allrar hamingju. Þessi munur ætti að vera meiri því að fiskurinn er takmarkaður í sjónum og það er aðalatriðið hjá okkur að fá sem mest út úr honum. Það er ótrúlegt fé sem liggur í 1% af fiski.

Mig langar til að nefna líka varðandi kössunina, — ég hef gert smávegis tilraunir með það, — að sennilega er einn aðalkosturinn við kassa sá, að fiskurinn rýrnar sáralítið í þeim. Hins vegar laus fiskur, sem liggur á gólfi móttöku, það er ótrúlega mikið sem sígur úr honum á nokkrum dögum. Það er svo hjá flestum húsum, að þau verða að taka inn afla til nokkurra daga, og þá er oft á síðasta degi orðið lítið eftir af fiskinum nema í blokkarvinnslu.

Að lokum langar mig að geta þess, að það er von mín að þetta mál fái framgang. Ég tel að ég hafi fært ýmisleg rök að því, að hægt sé að bæta sjávarafla, og bent á ýmsar leiðir í því sambandi, og ég legg þar höfuðáherslu á fjármagnshliðina. Ég held að þeir, sem eru við sjávarútveg, geri sér grein fyrir, bæði sjómenn og aðrir, að þetta er stórt atriði og skilar sér mjög fljótt. En þar verður að koma til, að það verður að vera tryggt að menn geti gert þetta fjárhagslega séð.

Ég lít á þetta mál sem einn lið, kannske lítinn þátt í þeirri viðleitni að gera þá stóriðju okkar Íslendinga, sem sjávarútvegurinn er, enn fullkomnari og betri til að kljást við erlendar þjóðir á heimsmörkuðum. Og ég vil að lokum, herra forseti, leggja til að þessari till. verði vísað að lokinni þessari umr. til hv. sjútvn.