24.10.1978
Sameinað þing: 7. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 104 í B-deild Alþingistíðinda. (112)

17. mál, lögfræðiþjónusta fyrir efnalítið fólk

Fyrirspyrjandi (Svava Jakobsdóttir):

Herra forseti. Ég hef á þskj. 17 leyft mér að bera fram fsp., til hæstv. dómsmrh. sem hljóðar á þessa leið, með leyfi forseta:

„Hvað hefur verið gert til að koma á fót lögfræðiþjónustu fyrir efnalítið fólk í samræmi við þáltill. sem vísað var til ríkisstj. með jákvæðri umsögn hinn 16. maí 1975.“

Lögfræðiþjónusta fyrir efnalítið fólk hefur verið til umræðu á þó nokkrum þingum að undanförnu. Ég flutti það mál upphaflega sem brtt. við frv. til l. um málflytjendur, en síðan sem sjálfstæða tillögu, og það er sú tillaga sem ég vísa til í fsp. minni. Hún var á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela dómsmrh. að sjá til þess, að komið verði á fót lögfræðiþjónusta fyrir efnalítið fólk, óháðri gjaldskrá Lögmannafélags Íslands.“

Þessa tillögu afgreiddi allshn. Sþ. með jákvæðri umsögn svo hljóðandi, með leyfi forseta:

„Nefndarmenn eru hlynntir tillögunni, en þar sem framvinda málsins fer mjög eftir framkvæmd og fyrirkomulagi á þjónustu þessari leggur nefndin til að tillögunni verði vísað til ríkisstjórnarinnar, sem stefni að því að leggja fram frv. um lögfræðiþjónustu fyrir efnalítið fólk á næsta þingi.“

Það er augljóst að dráttur hefur orðið á að framkvæma vilja Alþingis. Ekki veit ég hvað því veldur. Fsp., sem ég bar fram á síðasta þingi um þetta mál, komst aldrei á dagskrá. Hins vegar hefur nú verið staðfest í stjórnarsáttmála þessarar ríkisstj. að þessu máli skuli komið í höfn. Það er gleðiefni. En þá er líka ástæða til að leggja áherslu á að nauðsynlegt er að láta til skarar skríða tafarlaust og þess vegna hef ég lagt þessa fsp. fyrir hæstv. dómsmrh.

Um efni málsins ætla ég ekki að fjölyrða hér í fyrirspurnatíma. Ég minni aðeins á að eigi að hafa í heiðri þá grundvallarreglu íslensks réttarfars, að allir séu jafnir fyrir lögum, þá verðum við að búa svo um hnútana að allir geti leitað réttar síns án tillits til efnahags. Ég hef áður lagt á það áherslu, að réttaraðstoð af þessu tagi er jafnframt varnaðarstarf. Meiri líkindi eru til að mál mundu leysast farsællega á frumstigi, þ.e.a.s. án þess að til málshöfðunar þyrfti að koma, ef fólk fengi fullnægjandi lögfræðilega aðstoð sér að kostnaðarlitlu eða kostnaðarlausu í tæka tíð. Þá eru mörg mál þess eðlis, að fólk þarf fyrst og fremst að fá lögfræðilegar leiðbeiningar, upplýsingar um rétt sinn og aðstoð við löggerninga. Ég fjölyrði ekki á þessu stigi um þetta mál, en vænti þess, að hæstv. dómsmrh. hafi jákvæð svör við fsp. minni.