15.12.1978
Efri deild: 31. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1590 í B-deild Alþingistíðinda. (1120)

134. mál, sparnaður í fjármálakerfinu

Flm. (Eyjólfur K. Jónsson):

Herra forseti. Mál þetta skýrir sig að mestu sjálft. Ég held að allir viti hvað fyrir flm. vakir, þ.e.a.s. að reyna að koma á samræmingu í fjármálakerfinu og draga úr miklum kostnaði og tvíverknaði, sem allir vita að er í fjármálakerfinu eins og það hefur hér hrannast upp um langt skeið, og að tilraun verði gerð af Alþingis hálfu til þess að taka í taumana.

Till. er flutt af öllum fjh.- og viðskn.-mönnum þessarar hv. d. og þess vegna sé ég ekki ástæðu til að gera till. um að vísa henni til n., því það liggur fyrir afstaða allra nm., heldur að till. verði beinlínis afgreidd hér og nú á þessum fundi, því að ég á von á að allir hv. dm. séu henni sammála.

Ég tel skylt að geta þess, að till. svipaðs eðlis var flutt á síðasta þingi og meðflm. þá var Pétur Sigurðsson, sem þá sat á þingi. Ég held að það sé rétt og skylt að það komi fram, og ég leyfi mér raunar að lesa upp till, og grg. eins og hún var þá — hún er lítillega breytt — svo hún sé hér með í umr., verði prentuð, en till. hljóðaði svo í fyrra, með leyfi forseta:

Alþ. ályktar að fela ríkisstj. að beita sér fyrir sparnaði í fjármálakerfinu. Skal stjórnin, að loknu jólaleyfi alþm., leggja fram tillögur um fækkun starfsmanna ríkisbanka, Framkvæmdastofnunar ríkisins og opinberra sjóða um allt að tíunda hluta og samræmdar aðgerðir til sparnaðar og hagkvæmari rekstrar, þ. á m. um sameiningu lánastofnana, skorður við óhóflegum byggingum og fækkun afgreiðslustöðva.“

Og greinargerð:

„Alþjóð er ljóst, að nú er þörf aðhaldsaðgerða í fjármálum. Sú kaldhæðnislega staðreynd blasir þó við, að fjármálastofnanir hafa þanist einna mest út allra ríkisfyrirtækja á sama tíma sem sparifjármyndun minnkar. Leiðir hér sem oftar óstjórn af ofstjórn. Við þetta verður ekki unað.

Tillögumönnum er ljóst, að meðal stjórnenda bankamála eru ýmsir hæfileikamestu menn þessarar þjóðar. Flutningur þessa máls er ekki aðför að þeim, heldur liðveisla við þá, enda engum ljósara en þeim, hvar skórinn kreppir. Þó bendir flest til þess, að aðgerðir á borð við þær, sem hér er lagt til að ríkisstj. hafi forustu um, séu nauðsynlegar, ef úr úlfakreppunni á að brjótast.

Eftirspurn lánsfjár er ótakmörkuð við ríkjandi lánskjör. Bankar hafa einn og sama verðmæli, óraunhæfan verðmæli. Samkeppni þeirra verður því um það eitt að ná til sín stærri hlutdeild sparifjárins. Herkostnaðurinn í stríðinu við að afla auranna vex, verðmætaaukning er engin, en kostnaðaraukning mikil. Hagur viðskiptamanna versnar við þá andhverfu heilbrigðrar samkeppni sem hér er á ferðinni, og aðstaða skömmtunarstjóra nútímans er ekki aðlaðandi.

Sjóðakerfið og hagstjórnarbáknið í heild þarf líka að taka til gagngerðrar endurskoðunar, enda enginn efi á því, að þann frumskóg má grisja, engum til meins, en öllum til góðs. Þessi aðgerð þyrfti að spanna allt sviðið frá Þjóðhagsstofnun til minnsta sjóðsins.

Játað skal að hægara er hér um að tala en í að komast. Tilraunina ber þó að gera. Kannske ber hún takmarkaðan árangur — þá er að taka því. En enginn héraðsbrestur yrði þó markmiðunum, sem till. miðar að, yrði að fullu náð.“

Það er auðvitað alveg ljóst, að á fleiri sviðum í þjóðlífi okkar þyrfti slíkra aðgerða við, tilrauna til þess að draga úr ofvexti, og má nefna þar til margar ríkisstofnanir, einkum þær sem alls ekki fá skoðun í fjvn., sem þó reynir að beita aðhaldi gagnvart ýmsum greinum ríkisfjármála, en þessar stofnanir, eins og kunnugt er, ganga margar hverjar nokkurn veginn sjálfala. En einhvers staðar verður að byrja og ég held að kannske sé ástandið einna verst í fjármálakerfinu, og þess vegna er það vissulega ánægjulegt ef stjórn og stjórnarandstaða geta tekið höndum saman um að reyna að bæta hér um og starfa saman, — hvaða ríkisstj. sem er, þá reyni alþm. allir sameiginlega að starfa að slíku þjóðþrifamáli. Þess vegna á ég von á því, að till. geti orðið samþ. einróma.