15.12.1978
Efri deild: 31. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1594 í B-deild Alþingistíðinda. (1137)

131. mál, flugvallagjald

Frsm. meiri hl. (Jón Helgason):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. hefur fjallað um frv. til l. um breyt. á 1. um flugvallagjald. Frv. gerir ráð fyrir framlengingu á því bráðabirgðaákvæði sem gilt hefur á þessu ári, að flugvallagjald skuli innheimt á næsta ári með 100% álagi, þ.e.a.s. vera 3000 kr.

N. varð ekki sammála um afgreiðslu þessa máls, þar sem meiri hl. lagði til að frv. yrði breytt og flytur um það brtt. á sérstöku þskj. Í þessari brtt. felst breyting á 1. gr. núgildandi laga, þar sem kveðið er á um að greiða skuli sérstakt flugvallagjald sem renni til ríkissjóðs Íslands, og breytingin er á þá leið, að frá og með 1. jan. 1980 skuli tekjum af þessu gjaldi varið til eflingar flugmála. Er það þá sambærilegt við það sem nú gildir í vegamálum, þar sem ákveðin gjöld af umferð á landi renna í vegasjóð. Síðan koma tvær nýjar greinar sem kveða á um það, að í stað þess að gjaldið verði 3000 kr. á næsta ári í utanlandsflugi, þá verði það 5500 kr. fyrir hvern farþega, en helmingi lægra fyrir farþega á aldrinum 2–12 ára.

Eins og fram kemur í aths. við lagafrv. var flugvallagjaldið fyrst lagt á í utanlandsferðum árið 1975. Þá var það 2510 kr., síðan var það lækkað í 1500 kr., en svo hækkað aftur á þessu ári. Gjaldið 5500 kr. mun því ekki verða hærra miðað við verðlag en það var þegar það var fyrst ákveðið, og má því segja að það sé í samræmi við aðrar verðhækkanir í þjóðfélagi okkar. Um innanlandsflug gildir hins vegar, að það verði 400 kr. á hvern farþega og nái það einnig til farþega sem fljúga til Grænlands og Færeyja.

Meiri hl. n. leggur til að frv. verði samþ. með þessum breytingum. Geir Gunnarsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.