15.12.1978
Efri deild: 31. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1595 í B-deild Alþingistíðinda. (1139)

131. mál, flugvallagjald

Menntmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Flugvallagjald hefur verið innheimt nú um nokkurra ára skeið, bæði í utanlandsflugi og innanlandsflugi. Frá því að þetta gjald var fyrst lagt á hefur mér fundist og mörgum öðrum hv. þm., að eðlilegt og sjálfsagt væri að flugvallagjald rynni til uppbyggingar flugvalla á Íslandi og til að bæta og auka öryggi í flugmálum og aðstöðu fyrir farþega. Við höfum oft gagnrýnt að gjaldið skuli látið renna til almennra nota. Nú hefur verið ákveðið að framlengja þetta gjald og jafnframt hækka það nokkuð.

Í fjárlagafrv., sem lagt var fram í haust, var gert ráð fyrir tekjum fyrir ríkissjóð af flugvallagjaldi sem næmu 470 millj. kr. Nú er með brtt. frá meiri hl. fjh.- og viðskn., sem er í fullu samræmi við það samkomulag sem ríkisstjórnarflokkarnir þrír hafa gert með sér, lagt til að flugvallagjaldið verði enn hækkað og nemi 5 500 kr. fyrir hvern farþega sem ferðast frá Íslandi til annarra landa, en 2 750 fyrir farþega á aldrinum 2–12 ára. Þessi hækkun mun auka tekjur ríkissjóðs af þessu gjaldi um 350 millj. kr. En jafnframt er ákveðið í 1. málsgr. 1. gr., og á því vil ég vekja sérstaka athygli því ég tel að hún sé mjög mikilvæg, að frá og með 1. janúar 1980 skuli tekjum af gjaldi þessu varið til eflingar flugmála. Ég tel að með þessu sé mikilvægum áfanga náð. Flugmál á Íslandi hafa þar með eignast fastan tekjustofn sem nemur á árinu 1979 820 millj. og mun að sjálfsögðu nema talsvert hærri fjárhæð árið 1980 ef að líkum lætur.

Nú er það svo, að fjárveitingar til flugmála á árinu 1979 munu nema 800 millj. Það er álíka upphæð og ríkissjóður fær inn af flugvallagjaldi á því ári. Ég skil þetta samkomulag svo, að áfram verði lagt fé til flugmála úr ríkissjóði ellegar veittar heimildir til vörukaupalána í þágu flugmála, eins og nú nýlega hefur verið áformað og mun væntanlega verða lagt til í sambandi við afgreiðslu lánsfjáráætlunar, áfram verði veittar slíkar heimildir til lántöku. Með það í huga efast ég ekki um að sú breyting, sem hér er gerð á ákvæðum um flugvallagjald, eigi eftir að verða til þess að stórauka framlög til flugmála í landinu og þar með stórbæta aðstöðu farþega á hinum ýmsum flugvöllum landsins.

Fyrir fáum árum var gerð áætlun um framkvæmdir í flugmálum hér á landi og komust menn að þeirri niðurstöðu, að nauðsynlegt væri að verja u.þ.b. 1800 millj. kr. á verðlagi þessa árs til flugmála í landinu, en fjárveitingar á næsta ári verða væntanlega samanlagt u.þ.b. 800 millj. kr. Af þessu sjá menn að mikið vantar á að fjárveitingar til flugmála séu enn orðnar nægar.

Ég vil sem sagt leyfa mér að vænta þess, að því samkomulagi, sem gert var í ríkisstj. um þessi mál, og þeirri hreytingu, sem nú er lagt til að gera á lögum um flugvallagjald, muni fylgja stórauknar framkvæmdir og framfarir í íslenskum flugmálum.