15.12.1978
Efri deild: 31. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1597 í B-deild Alþingistíðinda. (1141)

131. mál, flugvallagjald

Menntmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Það var aðeins til þess að bera á móti þeirri þjóðsögu sem hv. þm. Eyjólfur Konráð hefur verið að bera út um kjördæmi okkar beggja nú um nokkurra ára skeið og er nú að flytja hér inn á Alþ., að ég hafi haldið uppi málþófi á Alþ. á sínum tíma. Við skulum bara kíkja í Alþt. og vita hvað við erum að tala um. Ef menn kíkja í þau, þá sjá þeir þar, að ég hélt mjög hóflega langar ræður um þetta mál og síður en svo að ég héldi uppi neinu málþófi.

En ég benti á það á sínum tíma, að happdrættislán í þágu Vegasjóðs væri heldur óhyggilegt fyrirkomulag, það væri eðlilegra og sjálfsagðara að ríkissjóður tæki lán með hagstæðari kjörum en fælust í þessum lánum. Ég þarf ekki að minna þá hv. þm. á það, sem voru viðstaddir þessa umr., að ég var ekki einn um þessa skoðun, heldur voru ýmsir aðrir dm. á sama máli. Ég var hins vegar þeirrar skoðunar, að varanlegt slitlag ætti að leggja á veginn norður til Akureyrar og reyndar hringveginn allan og það beri að gera það hið fyrsta, og hef aldrei skorast undan því að taka þátt í fjáröflun til þess. Skoðun mín á því máli er óbreytt, og ég er sannarlega reiðubúinn til þess að þiggja stuðning þessa ágæta samþingsmanns míns úr Norðurl. v. Ef hann vill aðstoða mig við að gera Vegasjóð digrari en hann er nú, þá stendur ekki á mér. En hitt er annað mál, að vel getur verið að okkur greini nú sem fyrr á um fyrirkomulag tekjuöflunar, og má kannske líta á það meira sem tæknilega hlið málsins sem við auðvitað hljótum og verðum að koma okkur saman um, því hitt er aðatatriðið að meira fé fáist til vegagerðar.

En varðandi hitt atriðið, að ég hafi verið að hrósa happi yfir því, að sú breyting sé gerð á flugvallagjaldi, sem hér er til umr., þá vil ég staðfesta að það er rétt. Ég tel að þessi breyting sé mjög til hins betra og hún eigi eftir að verða íslenskum flugmálum til mikillar gæfu.