15.12.1978
Neðri deild: 34. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1600 í B-deild Alþingistíðinda. (1152)

Umræður utan dagskrár

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Ég vildi þakka hæstv. forsrh. svör hans við fsp. minni. Það er rökrétt og eðlilegt, að í framhaldi af svörum hæstv. forsrh. sé þeirri fsp. beint til formanns Alþfl., hæstv. utanrrh., eða formanns þingflokks Alþfl., hv. þm. Sighvats Björgvinssonar, 4. þm. Vestf., hvort þeir fallist á þá málsmeðferð sem hér hefur verið lýst af hálfu hæstv. forsrh. Ég sé að hæstv. utanrrh. er ekki í þingsalnum, svo að ég beini orðum mínum til hv. þm. Sighvats Björgvinssonar að gefnu þessu tilefni.

Ég vil þó segja þegar að gefnu tilefni hæstv. forsrh., að bersýnilega kemur fram að verkstjórn af hálfu hæstv. ríkisstj. er léleg, svo að ekki sé meira sagt, að svo miklu leyti sem verkstjórnar er af ríkisstj. krafist varðandi störf þings. Slíkri kröfu hlýtur að vera beint að ríkisstj. hvað snertir flutning og undirbúning þeirra mála sem ríkisstj. og ráðh. er skylt að búa í hendur Alþingis. Ég hygg að stjórnarandstaðan hafi á þessu þingi sýnt málum ríkisstj. fyllstu tillitssemi og fyrirgreiðslu og stuðlað að því, að málin fengju afgreiðslu með málefnalegum hætti. Stjórnarandstaðan verður ekki sökuð um að hafa tafið afgreiðslu mála, þótt hún hafi að sjálfsögðu flutt efnislega gagnrýni og eigin stefnumótun til úrlausnar þeirra vandamála sem við hefur verið að glíma.

Eins og kom fram hjá hæstv. forsrh. eru nú, þegar vika er til jóla, ekki komin fram fjáröflunarfrv. sem fylgja eiga fjárlagaafgreiðslu — skattheimtufrv. sem hljóða væntanlega upp á milljarða kr. aukna skattheimtu á allan almenning í landinu — og horfið er frá þeim skynsamlegu og sjálfsögðu vinnubrögðum, að lánsfjáráætlunin og framkvæmdaáætlunin liggi fyrir við afgreiðslu fjárl. Í hvoru tveggja þessu hefur hæstv. ríkisstj. algerlega brugðist. Það er raunar til allmikils ætlast ef afgreiða á slík skattheimtufrv. á svo skömmum tíma sem raun ber vitni — a.m.k. frv. sem þm. stjórnarandstöðunnar hafa ekki séð. Því meiri furðu vekur þessi framkoma hæstv. ríkisstj. þegar þess er gætt, að aðstandendur hennar, þeir þrír stuðningsflokkar sem mynduðu hana, hafa haft fyrst 8 vikur í stjórnarmyndunarviðræðum á s.l. sumri til þess að koma sér saman um hvernig halda skyldi á málum og síðan starfað saman í ríkisstj. í 31/2 mánuð, en engin tillaga um lausn hefur fundist af hálfu aðildarflokka ríkisstj., heldur hefur verið stiklað af einum steini til annars í smáum skrefum og raunar á þann veg að vandinn, sem upphaflega var til úrlausnar, hefur verið stóraukinn með aðgerðunum fyrst í sept. og síðan nú í des., svo að nú er vandinn, sem við blasir, miklum mun meiri og alvarlegri en nokkru sinni var þegar þessi ríkisstj. var mynduð. Það fer ekki fram hjá neinum, að það er brotalöm í þessu samstarfi. Þessi hæstv. ríkisstj. ber feigðarmerkin utan á sér.