15.12.1978
Neðri deild: 34. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1601 í B-deild Alþingistíðinda. (1153)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég ætla ekki að svara fyrir hæstv. utanrrh., formann Alþfl., hann er ekki viðstaddur, en ég stend upp aftur vegna þess að mér láðist að víkja að atriði sem hv. fyrirspyrjandi vék að í frumræðu sinni, sem sé þeim efnahagstillögum sem samþ. voru á fundi hjá flokksstjórn Alþfl. s.l. nótt og sagt hefur verið frá í fréttum. Spurning hans var eitthvað á þá lund, hvort þær mundu hafa einhver áhrif á fyrirhugaða afgreiðslu mála í þingi.

Ég vil af þessu tilefni upplýsa það, að ráðh. Alþfl. lögðu fram á fundi ríkisstj. nú í morgun þær till. sem hér er um að tefla, sem eru í frv.-formi, ásamt ályktun sem þessi fundur gerði um þessi mál. Þeir kynntu þar þet~a mál fyrir samráðh. sínum í ríkisstj. Að sjálfsögðu gafst öðrum ráðh. ekki tóm til þess á ríkisstjórnarfundi í morgun að lesá þetta frv. nægilega gaumgæfilega til þess að þeir gætu tekið afstöðu til þess. Þess vegna tóku þeir það til skoðunar og um það verður nánar fjallað í ríkisstj. þegar ráðh. hafa kynnt sér það. Þetta frv. er samið af vinnuhóp sem Alþfl. hefur sett. Í fljótu bragði virðist það — að sumu leyti a.m.k. — vera úrvinnsla á þeim stefnuatriðum sem sett voru fram í grg. með lagafrv. um viðnámsaðgerðir gegn verðbólgu og samþ. voru og afgreidd hér á Alþ. um s.l. mánaðamót. Það hefur verið ætlun ríkisstj., að þau stefnumál, sem þar er vikið að og gerð er grein fyrir í grg. með frv. sem ég minntist á, verði tekin til rækilegrar meðferðar og úrvinnslu strax upp úr áramótum. Það er ekki nokkur vafi á því, að hvernig sem þetta frv., sem Alþfl. hefur lagt fram til sýnis í ríkisstj., verður afgreitt, þá verður sú vinna, sem í það hefur verið lögð, til mikils gagns við úrvinnslu málsins eftir áramótin og kemur að notum þó að verði ekki talið við eiga að afgreiða það frv. óbreytt, enda kunna að vera í því ákvæði sem allir samstarfsflokkarnir geta ekki fallist á. Auðvitað verður í þessu efni eins og öðru að byggja á málamiðlun þegar þrír flokkar vinna saman. En það frumkvæði, sem Alþfl. hefur átt í þessu máli, getur vissulega komið að góðu gagni, þó að það séu ekki venjuleg vinnubrögð að samstarfsflokkar hagi sér á þessa lund. En allt getur snúist til hins betri vegar, ef rétt er á haldið. Þess vegna vil ég aðeins endurtaka að þetta mál, sem lagt hefur verið fram af hálfu Alþfl. í ríkisstj., mun fá fulla skoðun og meðferð þar. En ég tel algerlega vonlaust að ætla að fresta afgreiðslu fjárl. með tilliti til þess máls, vegna þess að það er engin von til þess, að við getum afgreitt það, fjárlög og þau tekjuöflunarfrv. sem þarf að afgreiða, allt í senn.

Það má vissulega segja að það standi öðrum nær en mér að ræða um og gera grein fyrir þessum tillögum sem Alþfl. hefur lagt fram, en ég vildi aðeins, vegna þess að utanrrh. er ekki viðstaddur, láta koma skýrt fram hér á þinginu, að hann lagði þetta fram og gerði grein fyrir því, þannig að það fari ekki á milli mála að þetta mál er til athugunar hjá ríkisstj.

Það er auðvitað alltaf álitamál, hvað er góð verkstjórn og hvað ekki. Auðvitað verður ríkisstj. að láta sér lynda það, að henni sé sagt til syndanna og verkstjórnin sé heldur slæm. En þegar meta á hvort verkstjórnin er góð eða slæm, þá þarf að líta á allar aðstæður og meta verkstjórnina út frá því.

Hv. síðasti ræðumaður sagði að þessi ríkisstj. bæri feigðarmerkin utan á sér. Ég skal ekki segja um það. Þeir lifa stundum lengst sem með orðum eru vegnir.