15.12.1978
Neðri deild: 34. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1603 í B-deild Alþingistíðinda. (1155)

Umræður utan dagskrár

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Svör hæstv. forsrh. hafa valdið mér talsverðum vonbrigðum, vegna þess að ekkert ákveðið svar fólst í orðum hans. Það er stefnt að hinu og það er stefnt að þessu, en stuttur tími er til að vinna það verk sem liggur fyrir að vinna þarf fyrir jól eða fyrir áramót. Það eina, sem fram hefur komið, er það, að ríkisstj. hefur með samþykki ráðh. Alþfl. lagt fram frv. sem öll stefna í þá skattpíningarátt sem er stefnan á Alþ. og í borgarstjórn Reykjavíkur og heldur áfram. Alþfl. virðist þó hafa tekið fjörkipp og vitkast eitthvað og vill milda þessa skattpíningaröldu sem nú gengur yfir. Sem sagt, ríkisstj. leggur fram frv. með samþykki ráðh. Alþfl., og Alþfl. með þm. í broddi fylkingar leggur fram annað frv.

Þetta er að sjálfsögðu alvarlegt mál. Ég vil taka undir þau orð, sem hæstv. landbrh. lét frá sér fara fyrir nokkrum dögum, að að ríkisstj. standi 16 flokkar, þ.e. 14 Alþfl. og tveir til viðbótar. Það er hörmulegt til þess að vita að stjórnin í landinu skuli vera í slíkri upplausn. En ég vil segja það, að þjóðin þarf að fylgjast vel með störfum ríkisstj., og það er rétt, sem kom fram hjá hæstv. forsrh., það þarf að meta aðstæður til verkstjórnar, það þarf að meta aðstæðurnar til samstarfs innan ríkisstj. og það þarf að gera sér grein fyrir því — og hér á ég við að þjóðin þarf að gera sér grein fyrir því — að það er ekki grundvöllur fyrir vinstri sambræðslu til að stjórna Íslandi. Það er ekki nokkur grundvöllur fyrir vinstra samstarfi til að stjórna landinu, jafnvel — ég undirstrika það — þótt hæfur maður leiði hópinn.

Svar hæstv. forsrh. staðfestir einungis þá óvissu og þá óeiningu sem ríkir í stjórnarherbúðunum.