15.12.1978
Neðri deild: 34. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1609 í B-deild Alþingistíðinda. (1165)

137. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Mér er ljóst, að starfstími Alþ. er nú óðum að styttast fram að jólaleyfi, ef það verður þá nokkurt jólaleyfi gefið, en það virðist leika nokkur vafi á því eins og sakir standa. Ég hef ekki heldur lagt það í vana minn að halda hér langar ræður og allra síst nú í seinni tíð, reynt að stytta mál mitt eftir föngum. En ég kemst ekki hjá því að gera grein fyrir þeirri afstöðu minni til þess frv. til l. um verðjöfnunargjald af raforku sem hér er til umr., að ég get ekki verið því samþykkur.

Ég skal ekki hafa um þetta langt mál, af þeim ástæðum sem ég áðan nefndi. En ég tel að enda þótt það sé virðingarverð og áreiðanlega rétt stefna að vinna að því að tryggja landsmönnum öllum sem jafnast raforkuverð og næga raforku, þá sé ekki réttlætanlegt að leggja svo hátt verðjöfnunargjald á þá sem á þessu svæði búa þar sem við nú erum stödd, og fyrir það svæði tel ég mig fulltrúa öðrum landshlutum fremur — ekki kannske endilega öðrum mönnum fremur. Ég viðurkenni að hafa látið kyrrt liggja að þetta verðjöfnunargjald væri lagt á undanfarin 5 ár, en þegar á að halda áfram að höggva í þennan sama knérunn og það svo myndarlega að hækka gjaldið úr 13% í 19%, þá tel ég að of langt sé gengið og að við getum ekki staðið að því, sem erum fulltrúar þess landshluta sem ég er nú að ræða sérstaklega um.

Mér hefur verið tjáð að borgarráð Reykjavíkur hafi í dag einróma samþykkt að andmæla þessu gjaldi. Mér hefur nú borist afrit af bréfi, sem ég leyfi mér að lesa, með leyfi hæstv. forseta, en það er bréf til hæstv. iðnrh., Hjörleifs Guttormssonar, og þar segir svo:

„Eftirfarandi ályktun var samþ. með shlj. atkv. á fundi borgarráðs í dag:

Borgarráð Reykjavíkur mótmælir þeim fyrirætlunum, sem felast í frv. er nú hefur verið lagt fram á Alþ., að hækka verðjöfnunargjald af raforku úr 13% í 19%. Í því sambandi bendir borgarráð á að Rafmagnsveita Reykjavíkur á við fjárhagsvanda að stríða, þar sem stjórnvöld hafa undanfarin ár ekki leyft umbeðnar hækkanir á rafmagnsverði í Reykjavík. Af þeim sökum hefur Rafmagnsveita Reykjavíkur neyðst til að taka erlend lán sem íþyngja nú rekstri fyrirtækisins. Sú fyrirætlan að leggja nú á aukið verðjöfnunargjald mundi þýða 300 millj. kr. aukagjald á notendur Rafmagnsveitu Reykjavíkur. Borgarráð óskar því eindregið eftir því, að mál þetta verði tekið til endurskoðunar og athugunar að nýju.“

Undirskriftin er Egill Skúli Ingibergsson, sem eins og allir hv. þm. vita er borgarstjóri hér í Reykjavík.

Það er auðvitað alveg laukrétt hjá hæstv. iðnrh., að það er mikill munur á aðstöðu manna eftir því hvar þeir búa að því er rafmagnsverði viðkemur, síst skal ég bera á móti því, og það er fyllsta ástæða til þess að ráða bót á þeim mismun. En ég tel að það sé ekki sanngjarnt, að rafmagnsnotendur hér séu sífellt og í auknum mæli látnir bera uppi einir að mestu leyti þá verðjöfnun, sem á rafmagni er látin fara fram og eins og ég áðan sagði á talsverðan rétt á sér. Það er ævinlega þannig, að gæðum er misskipt. Ég vil segja að Reykjavíkurborg hafi sýnt lofsverða framtakssemi með því að virkja vatnsföll hér í grennd á þeim tíma sem það var gert til hagsbóta fyrir íbúa borgarfélagsins og með fjármunum þeirra. Þessa eiga reykvískir íbúar að njóta. Þau raforkuvirki, sem Reykjavíkurborg hafði reist á sínum tíma, voru lögð fram sem hlutur Reykjavíkurborgar í fyrirtækinu Landsvirkjun þegar það var stofnað. Þannig hefur Reykjavíkurborg alla tíð verið helmingseigandi að Landsvirkjun. Ég tel að þeir, sem hér búa, eins og ég áðan sagði, eigi að njóta þeirrar framsýni sem sýnd var, þeir hljóti að eiga rétt á því að nýta þau orkufyrirtæki, sem hér um teflir, fyrst og fremst til eigin þarfa.

Ég er samþykkur því, eins og ég áðan sagði, að áfram verði unnið að jöfnun á raforkuverði, en það má gera með ýmsum öðrum hætti en þeim að leggja gjald á þá raforkuneytendur sem á þessu svæði búa. Og ég vil, með leyfi hæstv. forseta, fá að vitna í samþykkt stjórnar raforkufyrirtækja sem birtist í Morgunblaðinu í dag og er gerð af tilefni þessa máls. Með leyfi hæstv. forseta er hún á þessa leið:

„Samband ísl. rafveitna hefur í bréfi til orkumálaráðh. mótmælt þeim hugmyndum sem fram hafa komið um framlengingu laga um verðjöfnunargjald og hækkun þess úr 13% í 19%, en frv. þessa efnis var lagt fram á Alþ. í gær. Í bréfinu er bent á að gjald af þessu tagi gangi beint inn í raforkuverð í landinu og leiði til hækkunar framfærsluvísitölu og rekstrarkostnaðar atvinnufyrirtækja.

Rafmagnsveitur ríkisins eiga við mikinn fjárhagsvanda að stríða, og mun stjórn fyrirtækisins hafa lagt til að ríkissjóður yfirtæki hluta af skuldunum og veiti einnig óafturkræf framlög til hins félagslega þáttar framkvæmda. Í tillögum RARIK er ekki gert ráð fyrir hækkun verðjöfnunargjaldsins.

Í bréfi Sambands rafveitnanna segir að ef þessar tvær leiðir væru valdar og þeirri þriðju bætt við, þ.e. að stöðva aukningu á sölu RARIK til rafhitunar á of lágu verði og marktaxtar væru leiðréttir, mætti koma fjárhagsstöðu fyrirtækisins á réttan kjöl, en jafnframt að fella hið óréttláta verðjöfnunargjald niður.

Á næsta ári mun áætlað að verðjöfnunargjald mundi nema nálægt 1500 millj. kr. með óbreyttu orkuverði. Af því kæmu um 1200 millj. í hlut Rafmagnsveitna ríkisins, en 300 millj. í hlut Orkubús Vestfjarða. Hækkun úr 13% í 19% mundi auka gjaldið úr 1500 millj. í tæpar 2200 millj. kr., eða um 700 millj. Af þeirri upphæð kæmu um 560 millj. í hlut Rafmagnsveitna ríkisins.

Í bréfi Sambands ísl. rafveitna er bent á að sala á orku samkv. heimilistaxta hefur aðeins vaxið um 26% á s.l. 10 árum og vélataxta um 136%, en sala samkv. marktaxta jókst um 962% og hitunartaxta um 1023% á sama tímabili. Til rökstuðnings fyrir hækkun verðjöfnunargjalds RARIK var einmitt bent á heimilistaxta og vélataxta og bent á að þeir væru 80–90% hærri hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur en RARIK. Þessar tölur væru réttar segir í bréfi rafveitnanna, en gæfu ranga mynd og staðfestu of lágt verð á orkusölu samkv. marktaxta og hitunartaxta sem ætti sinn þátt í sívaxandi erfiðleikum fyrirtækisins á s.l. árum.“

Hér lýkur þeirri tilvitnun í Morgunblaðið. í dag, sem ég las upp með leyfi hæstv. forseta og sýnir m.a. að hæstv. iðnrh. hefur fengið nokkru fleiri bréf en hann las upp áðan og annars efnis.

Um Orkubú Vestfjarða mætti endurtaka margt af því sem ég hef áður sagt úr þessum ræðustól, en ég held að það sé einhver alvitlausasta framkvæmd sem ráðist hafi verið í hér á Íslandi, og er þá mikið sagt því að margar hafa þær mislánast eins og kunnugt er. Ég hef áður varpað fram þeirri spurningu, og skal ekki eyða að því mörgum orðum, hvernig menn ímynda sér að fyrirkomulag á rafmagnssölu yrði hér ef öll kjördæmi landsins væru búin að koma sér upp slíku orkubúi, er öll fyrirtæki landsins væru búin að fá að flytja skuldir sínar til Rafmagnsveitna ríkisins af viðkomandi landshluta, ef öll rafmagnsfyrirtæki væru búin að fá hluta af verðjöfnunargjaldi, 20% getur það nú ekki orðið, það gengur ekki upp. Svo er nú fyrir nokkrum dögum á hv. Alþ. farið fram á að Vestfirðingar fái sérstakar skaðabætur fyrir það að byggingu á línu þar seinkar um eitt ár. Ef allir gerðu viðlíka kröfur er hætt við að verðjöfnunargjaldið yrði orðið býsna hátt sem Reykvíkingum og öðrum íbúum Suðvesturlands væri gert að greiða.

Ég lýsi enn og aftur yfir algerri andstöðu við þessa stefnu. Ég er yfir höfuð á móti því að metast um það, hvar hlutirnir séu framleiddir. Raforkuna á að framleiða þar sem það er hagkvæmast og flytja hana þangað sem á að nota hana. Þetta á við um fjölmörg önnur svið þjóðlífsins, sem ég hirði ekki um að nefna hér.

En ég lofaði því, herra forseti, að verða ekki langorður í þetta sinn, og ég skal standa við það. Þess vegna mun ég nú slá botn í þessu fáu orð með því að endurtaka þá yfirlýsingu, sem ég gaf hér í upphafi, að ég get ekki staðið að samþykkt þessa frv. Ég brýt þó engan trúnað við hæstv. ríkisstj., því að ég hef aldrei fallist á að greiða því atkv.