15.12.1978
Neðri deild: 34. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1612 í B-deild Alþingistíðinda. (1166)

137. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, fjallar um tvennt. Í fyrsta lagi um framlengingu verðjöfnunargjaldsins af raforku til eins árs, og er það í samræmi við venjubundna afgreiðslu á frv. um verðjöfnunargjald af raforku á undanförnum árum, en það hefur verið framlengt til eins árs í senn. Í öðru lagi fjallar frv. um hækkun verðjöfnunargjaldsins úr 13% í 19%. Segja má að þetta sé efnisbreyting, en þó er það fyrst og fremst stigsmunur á því hversu hátt þetta gjald skuli vera.

Deila má um það, hvort hér sé um heppilega leið að ræða í þá átt að draga úr misjöfnu orkuverði hér á landi. Áður en út í það er farið að meta þann þátt málsins er rétt að rifja upp, að í byrjun þessa árs hafði stjórnskipuð nefnd, sem í áttu sæti þáv. formaður stjórnar RARIK, Helgi Bergs, lagt fram tillögur til ríkisstj. um ráð til þess að mæta fjárhagsvanda Rafmagnsveitna ríkisins. Meðal þeirra till., sem þessi stjórnskipaða nefnd gerði, var hækkun verðjöfnunargjalds af raforku úr 13% í 20%. Sumir þættir úr þeim till. voru afgreiddir, en hækkun verðjöfnunargjaldsins náði ekki fram að ganga.

Sú stjórn Rafmagnsveitna ríkisins, sem nú situr, hefur ekki tekið upp till. um hækkun verðjöfnunargjaldsins. Ástæðan til þess er sú, að stjórn RARIK er ljóst að á þeirri leið eru ýmsir annmarkar, og við í stjórn RARIK höfum talið aðrar leiðir betri. Þessir annmarkar eru fyrst og fremst þeir, að verðjöfnunargjaldið í óbreyttu formi, eins og það birtist í þessu frv., leggst þyngst á þá notendur raforku sem erfiðastan hlut eiga fyrir, þ.e. þá sem þurfa að kaupa raforkuna hæstu verði. Enn fremur hefur verið ljóst, og hefur þegar orðið ljóst í byrjun þessarar umr., að pólitísk og hagsmunaleg togstreita á milli landssvæða kann að verða mikil um þessa leið. Ef sýnt er fram á á hvaða hátt verðjöfnunargjaldið sem slíkt kemur niður á notendum raforku hjá Rafmagnsveitum ríkisins, þá sést að t.d. raforka, sem seld er til heimilisnota, er skattlögð á svæði Rafmagnsveitna ríkisins með verðjöfnunargjaldi um 3.64 kr. á kwst. og með söluskatti um 5.60 kr. á kwst. eða samtals um 9.24 kr. Sambærileg skattlagning til ríkisins af heimilistaxta hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur er með jöfnunargjaldi 1.94 kr. og með söluskatti 2.98 kr., eða samtals 4.92 kr. á móti 9.24 kr. á RARIK-svæðum. (Gripið fram í.) Á sama taxta. Þessar tölur eru miðaðar við verðjöfnunargjaldið eins og það gildir í dag, eða 13%. Þetta sýnir að gjaldheimta til ríkisins með verðjöfnunargjaldi og söluskatti er mun meiri á RARIK-svæðum en t.d. hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur á sambærilegum taxta. Hv. 1. þm. Reykv. getur talað úr ræðustól, en ekki rætt við mig utan úr sal.

Ef veruleg hækkun, eins og hér er gert ráð fyrir, verður á verðjöfnunargjaldinu, þá vex þessi mismunur enn á gjaldtöku ríkisins af raforksölu á RARIK-svæðum annars vegar og hjá ýmsum sveitarfélagarafveitum hins vegar, þ. á m. hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur. Þetta er rétt að benda á að er einn stærsti ókostur þessarar leiðar í þá átt að jafna verð raforku í landinu, því að þrátt fyrir þennan mismun, sem kemur á gjaldheimtu til ríkisins, er þetta þó leið til þess að draga nokkuð úr því misrétti sem gildir í raforkumálum í landinu.

Hinn þátt þessa máls, hinn pólitíska eða svæðisbundna þátt, ætla ég ekki að ræða hér.

Rafmagnsveitur ríkisins eiga mikilvægu hlutverki að gegna. Þetta hlutverk er þó að ýmsu leyti býsna erfitt. Rafmagnsveitum ríkisins hefur verið falið það hlutverk að annast öflun raforku og raforkusölu á þeim svæðum landsins þar sem einstakar afmarkaðar rafveitur sveitarfélaga starfa ekki. Afmarkaðar rafveitur sveitarfélaga eru fyrst og fremst í aðalþéttbýli landsins og á nokkrum þéttbýlisstöðum öðrum, þar sem á undangengnum árum og áratugum hefur hvað auðveldast verið að afla orku. Þessar rafveitur hafa reynst hagkvæmar í rekstri yfirleitt, enda búa þær margar þannig, að þær eiga yfir að ráða mjög afskrifuðum orkuverum.

Nýbreytni varð á þessu sviðið í byrjun þessa árs þegar Orkubú Vestfjarða tók til starfa. Þá gerðist það einnig, sem hér hefur verið lýst, að ríkissjóður yfirtók um 75% af þeim fjármagnsbyrðum sem á rafveitukerfi Vestfjarða hvíldi. Þetta var gert til þess að ætla mætti að þetta orkufyrirtæki, Orkubú Vestfjarða, fengi staðist það að selja raforku á sinu svæði með nokkurn veginn sambærilegu verði og gerist og gengur annars staðar á landinu.

Augljóst er að miklar fjarlægðir í þessu landi, strjálbýli og fámenni á svæðum Rafmagnsveitna ríkisins valda því að leggja þarf í kostnaðarsamar framkvæmdir til þess að unnt sé að halda þjónustu gangandi, því að eins og ég hef raunar þegar komið að, þá er svæði Rafmagnsveitna ríkisins fyrst og fremst nálega allar sveitir í landinu og margir þeir þéttbýlisstaðir, sem eru í strjálbýli, þeir staðir sem gjarnan liggja verst við orkuöflun og eru afskekktir. Þarf því engum að koma á óvart, að hlutverk Rafmagnsveitna ríkisins er erfitt ef þær ætla sér að halda uppi eðlilegri þjónustu á þessum svæðum öllum. Þetta hlutverk hafa Rafmagnsveitur ríkisins leitast við að rækja m.a. með tvennum hætti. Í fyrsta lagi með því að reyna að halda innan þeirra fjármagnsmarka, sem stofnuninni eru búin hverju sinni, bæði því er snertir framkvæmdir og rekstur. Þetta hefur ekki alltaf tekist að fullu, enda hefur á stundum orðið umtalsverður halli á rekstri fyrirtækisins og eru horfur svo nú, að halli fyrirtækisins fari vaxandi. Í annan stað hafa Rafmagnsveitur ríkisins leitast við að láta viðskiptamenn fyrirtækisins njóta jafnréttis, þannig að þeir hafi sem jafnastan rétt til þess að fá raforku keypta frá fyrirtækinu. Þetta teljum við, sem erum forráðamenn þessa fyrirtækisins, eðlilegt og nauðsynlega forsendu í störfum þessa fyrirtækis, sem er þjónustustofnun á vegum ríkisins, en það er skoðun mín að sem flestir eða allir, innan að vísu skynsamlegra marka, eigi að hafa jafnan rétt til að njóta þjónustu frá þeim stofnunum sem ríkið rekur.

Nú er það svo að þessi meginmarkmið í störfum stofnunarinnar hafa ekki alltaf legið saman, og því miður er það svo, að eftir því sem raforkunotkun vex í landinu og framkvæmdir verða dýrari breikkar bilið á milli fjárhagslegrar hagkvæmni annars vegar og þar með e.t.v. þeirra fjármagnsmarka, sem stofnuninni eru áskilin, og þjónustuhlutverks stofnunarinnar hins vegar, og sýnilegt er að ekki einasta á þessu ári, heldur einnig á komandi árum, breikkar bilið á milli þessara markmiða. Þetta veldur því, að þurft hefur að grípa til ráðstafana til þess að mæta fjárhagsvanda Rafmagnsveitna ríkisins, bæði nú og stundum áður. Þetta hefur aðallega verið gert með því að leggja á svokallað verðjöfnunargjald sem hér er til umr. að hækka.

Á öndverðu þessu ári, eða um það leyti sem meiri hl. fyrrv. stjórnar Rafmagnsveitna ríkisins sagði af sér, hófu forráðamenn þessarar stofnunar ásamt starfsmönnum hennar að móta nýjar till. og nýja stefnu til þess að mæta þessum vanda. Þessi stefna er í því fólgin að berjast fyrir því að þjóðarheildin, ríkið, taki á sig að mæta verulegum hluta af þeim vanda, sem á herðum þessa fyrirtækis hvílir vegna svokallaðra félagslegra framkvæmda — vegna framkvæmda sem stofnunin er nauðbeygð til þess að ráðast í ef hún ætlar að sinna þeim þætti í hlutverki sínu sem er að halda uppi eðlilegri þjónustu. Iðulega hefur stofnunin þurft að ráðast í framkvæmdir sem skila mjög litlum tekjum og langt í frá að skili arði í gegnum orkusölu. Enn fremur skal í framtíðinni greint á milli í framkvæmdaáætlun Rafmagnsveitna ríkisins á þann hátt, að með lánsfé verði fjármagnaðar framkvæmdir, sem sýnast vera arðbærar, en ríki, helst ríkissjóður beint, leggi fram fjármagn að meira eða minna leyti til þess að standa undir framkvæmdum sem eru félagslegs eðlis og ekki skila arði.

Stofnunin hefur mótað till. um þetta efni og ráðist hefur verið í mikla útreikninga til þess að styðja þær till. eðlilegum rökum. Í till. Rafmagnsveitna ríkisins til iðnrn. á þessu ári hefur stofnunin lagt til að ríkissjóður taki fjármagnsbyrðar á sínar herðar sem nema á næsta ári 800 millj. kr. og að ríkið taki einnig á sig að fjármagna framkvæmdir á næsta ári sem verður nokkuð misjafnt eftir einstökum þáttum framkvæmda, en í heild tekið um 700 millj. kr. Við hjá Rafmagnsveitum ríkisins teljum að þetta sé heppilegasta leiðin sem unnt er að koma auga á til þess að mæta eðlilegum þörfum þessarar stofnunar í fjármagnsuppbyggingu hennar til þess að hægt verði að draga úr því misrétti sem viðskiptamenn stofnunarinnar verða að sæta í raforkuverði miðað við önnur orkusölufyrirtæki í landinu.

Hæstv. iðnrh. hefur tekið vel undir þessa stefnu. Hann hefur skýrt frá því hér, að í lánsfjáráætlun fyrir næsta ár, sem við í minni hl. fjvn. höfum ekki séð stafkrók úr þótt ekki sé vika til jóla, muni verða lagt til að í þessu skyni verði varið eigi minna en 600 millj. kr. Ég tel að þó að ekki sé um meira fjármagn að tefla en þarna er frá greint, þá sé það mjög mikilsvert spor í þá átt að ná fram eðlilegu jafnræði í þessu skyni. Það er mikilsvert spor, sem dugar að vísu skammt nú fyrsta kastið, en er þó byrjun á því að ná fram nokkru réttlæti.

Svo virðist sem hæstv. ríkisstj. hafi talið heppilegra að fara í átt að því marki, sem hér hefur verið um rætt, að jafna aðstöðu þess fólks, sem kaupir raforku í landinu, með tvenns konar hætti: annars vegar með sérstöku framlagi samkv. lánsfjáráætlun og hins vegar með því að hækka verðjöfnunargjald. Ég hef lýst því, að ég tel verðjöfnunargjaldið óheppilegri leið, en ég get jafnframt lýst því yfir, að ég snýst ekki á móti þeirri leið að þeim hluta sem hún er hér lögð til. Og ef þau mál eru skoðuð í samhengi og jafnframt verður lagt til framlag samkv. lánsfjáráætlun, þá mun ég styðja að því, að hvort tveggja nái fram að ganga.

Ég þyrfti kannske ekki að lengja mál mitt fram yfir það sem hér hefur verið sagt. En ég vil taka það fram alveg skýrt og skorinort að það misrétti, sem þjóðin á við að búa í raforkumálum, er óþolandi. Það er misrétti, að þeir, sem eru viðskiptamenn Rafmagnsveitna ríkisins, þurfi að greiða 80–90% hærra verð fyrir raforku en sumir aðrir landsmenn sem versla við ýmis önnur orkusölufyrirtæki sem hafa að ýmsu leyti betri aðstöðu, hafa búið að framsýni manna með hagkvæmar virkjanir, en búa þá jafnframt að því að eiga raforkufyrirtæki sem eru meira og minna afskrifuð og eru rekin í þéttbýli, þar sem dreifing raforkunnar er miklu auðveldari og ódýrari en er í hinum strjálu byggðum landsins. Þetta misrétti, sem hér hefur verið lýst, er gersamlega óþolandi, og það ástand, sem orðið hefur í þessum málum á yfirstandandi ári, verður að líta á sem bráðabirgðaástand.

Við í stjórn RARIK höfum lítið á þetta sem bráðabirgðaástand meðan við værum að móta og koma fram hinum nýju till., þeirri nýju stefnu um fjármögnun til þessara verkefna sem ég hef hér lýst. Það bráðabirgðaástand getur ekki varað áfram. Ef ekki væri aðhafst í þessum málum, ef ekki væri að unnið til þess að tryggja nýtt fjármagn til Rafmagnsveitna ríkisins, bæði til rekstrar, vegna fjármagnsbyrða af félagslegum framkvæmdum og hins vegar til fjárfestingar í þeim þáttum, þá er ekki nema tvennt til: annað tveggja yrði stofnunin að hverfa frá því markmiði sínu að láta viðskiptamenn njóta jafnréttis eða þá áfram héldi að vaxa sá mikli munur sem er á orkuverðinu til notenda rafmagns frá Rafmagnsveitum ríkisins annars vegar og öðrum orkusölufyrirtækjum hins vegar. Þessi leið er að mínum dómi ófær og óviðunandi — algerlega ófær. Því hefur verið lýst hér, að svo stór þáttur í lífsháttum fólks, í stöðu fyrirtækja, atvinnuvega, lifi þjóðarinnar sem raforkumálin eru, þá mundi slíkur verðmunur á raforku hafa í för með sér ómældar afleiðingar í byggðasögu þjóðarinnar, það er alveg ljóst, bæði að því er snertir einstaklinga og fyrirtæki.

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þetta mikið. Í umr. um þessi mál hefur það stundum borið við, að bornar væru birgður á að nokkurt misrétti ríkti í þessum efnum. Það var gert á hv. Alþ. á s.l. vetri og það hefur aðeins bryddað á því nú þegar við þessa umr. Röksemdir af því tagi eru fundnar út með því að leggja í einn pott alla orkusölu RARIK annars vegar og orkusölu annarra rafveitna hins vegar og fá út meðalverð. Þá kemur í ljós að meðalverð á allri seldri orku frá RARIK er lægra en t.d. frá Rafmagnsveitu Reykjavíkur. Þetta á sér sínar eðlilegu orsakir, sem þeir, sem halda á þessum tölum, virðast stundum ekki vilja skilja. Hjá Rafmagnsveitum ríkisins er verð á raforku til hitunar 7.64 kr., en hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur 4.44 kr. Í þessum taxta eins og öðrum er um mikinn mismun að ræða Rafmagnsveitu Reykjavíkur í vil. En Rafmagnsveita Reykjavíkur selur lítið á þessum taxta, vegna þess að sú er gæfa Reykvíkinga að hér er jarðhiti skammt undan. Híbýli manna og atvinnuhúsnæði er hitað að mestum hluta upp með jarðvarma. Á RARIK-svæðum í strjálbýli, sem ég hef lýst, njóta menn ekki þessara gæða alls staðar, hvergi nærri alls staðar. Þess vegna er mikill hluti af raforkusölu RARIK til hitunar, bæði eftir venjulegum hitunartaxta og eftir svokölluðum marktaxta, sem mér heyrðist hv. 1. þm. Reykv. nefna hér áðan. Það veldur því, að í heildardæminu vega hitunartaxtar RARIK þungt, en t.d. hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur vega þeir lítið, og þó að hitunartaxti RARIK sé 72% hærri en hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur, þá verður hann til þess að draga niður verðið, sé það sett allt saman í eitt, vegna þess að hitunartaxtar hjá RARIK eru yfir helmingur orkusölunnar, 50–55%. Þannig er hægt að fá það út, að í heild sé orkusala frá RARIK ódýrari en hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur og ýmsum öðrum orkusölufyrirtækjum. (AG: Er það ekki afgangsorka, sem er seld á fullu verði?) Þetta er ekki afgangsorka. Þetta er forgangsorka.

Ég skal svo ekki lengja þetta mikið. En það hefur verið gagnrýnt, að of mikið hafi verið selt af raforku til hitunar í landinu. Vel má vera að það sé rétt. Við hefðum e.t.v. átt að banna alfarið sölu á raforku til hitunar. En ég minnist þess nú, að ýmsir ráðamenn þjóðarinnar í orkumálum hafa tekið það á stefnuskrá sína að selja raforku til hitunar. Ég tel að við eigum ekki að una því, að við getum ekki nýtt þá orkugjafa, sem finnast í landinu sjálfu, okkur sjálfum til hagsbóta, því að hætt er við að ekki liði langur tími þangað til olíuverð hækkar svo mikið í heiminum að það verði frágangssök að nota það til upphitunar húsa. Þess vegna tel ég þetta ekki vera frambærilega röksemd.

Hv. þm. Einar Ágústsson lýsti yfir andstöðu við þetta frv. Hann sagði að Reykvíkingar og þeir, sem búa hér á þéttbýlissvæðinu, bæru einir verðjöfnunargjald. Þetta er auðvitað mikill misskilningur, eins og ég hef þegar sýnt fram á.

Hv. þm. vitnaði til þess, að Samband ísl. rafveitna hefði gert ályktun um þetta mál. Þar er vitnað í till. Rafmagnsveitna ríkisins sem ég hef hér lýst. Ég endurtek það að lokum, að sú leið, sem þar er bent á, er að mínum dómi sú eðlilegasta og hyggilegasta og um þá leið mundi verða mestur friður. Ég hlýt að lýsa því, að ég er ekki fyllilega ánægður með að sú leið skyldi ekki alfarið verða ofan á hjá hæstv. ríkisstj. Ég hlýt að lýsa nokkurri óánægju minni með það, vegna þess að ég tel að hún sé miklu heppilegri. Þrátt fyrir það mun ég ekki snúast gegn þessu frv. Með frv. er stigið spor í þá átt að leysa hluta af fjárhagsvanda Rafmagnsveitna ríkisins, og sé það spor í samhengi við þá yfirlýsingu hæstv. ráðh., að fram verði þó lagðar eigi minna en 600 millj. kr. beint til þessa fyrirtækis úr ríkissjóði, þá vil ég lýsa stuðningi við það.