15.12.1978
Neðri deild: 34. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1616 í B-deild Alþingistíðinda. (1167)

137. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Hér hefur verið lagt fram frv. til l. um verðjöfnunargjald af raforku, og felur frv. í sér að framlengja það verðjöfnunargjald sem verið hefur nú um nokkurra ára skeið, en jafnframt felur það í sér verulega hækkun á þessu sama gjaldi. Ég held að það fari ekki á milli mála, að allir fallist á að vandi Rafmagnsveitna ríkisins er mikill og ljóst er að einhvern veginn þarf að bregðast við þeim vanda. Stjórn Rafmagnsveitna ríkisins hefur lagt fram till. um vissar úrbætur. Það er athyglisvert, að í þeim till. er ekki gert ráð fyrir því að verðjöfnunargjaldið sé hækkað, eins og þetta frv. gerir ráð fyrir.

Með þessu frv. er áfram haldið þeirri stefnu, sem tekin var upp fyrir nokkrum árum, að jafna út mismun á rafmagnsverði í hinum ýmsu landshlutum og leysa vanda Rafmagnsveitna ríkisins með styrkjum og verðjöfnun. Það er skoðun mín að þetta sé röng stefna. Hún felur það í sér að leggja skatt á þá sem búa við hagkvæm raforkufyrirtæki, á þá sem hafa byggt upp arðsöm og hagkvæm fyrirtæki um langan tíma, og gerir jafnframt ráð fyrir því að leggja skatt hlutfallslega á þá sem njóta orkunnar. Vegna þessarar hlutfallsreglu leggst þessi skattur þyngst á þá sem eru bestu viðskiptavinir viðkomandi fyrirtækja. M.ö.o.: það er verið að refsa þeim annars vegar, sem hafa byggt upp hagkvæm fyrirtæki, og svo hins vegar þeim, sem mestu viðskiptin hafa við raforkufyrirtækin.

Ég er þeirrar skoðunar, að það eigi að leita annarra ráða til þess að leysa þann vanda sem blasir við núna. Ég held að það sé hægt að bæta rekstur Rafmagnsveitna ríkisins mjög verulega frá því sem nú er.

Það þarf að breyta þeim gjaldskrárákvæðum, sem nú eru í gildi og eru mjög röng að mínu mati.

Það þarf í þriðja lagi að breyta þeirri grundvallarstefnu sem ríkt hefur í raforkumálum. Og ef um það er að ræða að ríkisvaldið og fjárveitingavaldið þurfi að hlaupa undir bagga og leiðrétta einhvern mismun sem stafar af óviðráðanlegum ástæðum, þá tel ég réttast að það sé gert með beinum styrkjum úr ríkissjóði sem skoðast aðstoð vegna félagslegra aðstæðna.

Þau lög, sem hér er stuðst við, verðjöfnunarlögin, voru tekin í gildi árið 1965. Frá þeim tíma hefur gjaldið verið hækkað allverulega nokkrum sinnum og 1974 voru lögð 13% á smásöluverð. Nú er lagt til að þetta gjald verði hækkað upp í 19% og það á að gefa samkv. grg. frv. 700 millj. Þessi lög byggjast á þeirri stefnu að efla skuli rafhitun húsa, og gjaldskráin, sem stuðst er við, felur þessa stefnu í sér með þeim hætti að rafhitun húsa er langt undir kostnaðarverði og er nánast mjög niðurgreidd. Þessi lög og þessar gjaldskrár þurfa að mínu mati rækilegrar endurskoðunar við.

Þegar talað er um mikið misrétti á þessum vettvangi og, eins og síðasti ræðumaður talaði um, að það misrétti sé gersamlega óþolandi, þá er hægt að fallast á það út af fyrir sig, að það er ekki við það unandi um langan tíma að sumir landsmenn þurfi að greiða margfalt raforkuverð á við aðra eftir því hvar þeir búa á landinu. Á þetta get ég fyrir mitt leyti fallist. Ég held líka að þeir, sem mæla gegn þessu frv., hafi skilning á þessu vandamáli og túlki ekki sín sjónarmið einvörðungu vegna þess að þeir njóti þess að búa á því svæði á landinu þar sem raforkan er seld með hagkvæmum kjörum. Ég held að þau sjónarmið stafi af þeirri meginskoðun, að þeir, sem hafa byggt upp fyrirtæki sín um langan tíma og njóta ákveðinna skilyrða, skuli ekki gjalda fyrir það með ákveðnum refsisköttum. Ég held að það sjónarmið sé líka ríkjandi, að vanda Rafmagnsveitna ríkisins verði að leysa frá hinum endanum — í stað þess að leggja sífellt skatta á þá sem lægsta gjaldið greiða, þá þurfi að reyna að reka Rafmagnsveiturnar betur og breyta gjaldskrá þeirra þannig að verðið lækki hjá neytendum sem búa nú við hærra raforkuverð.

Í þessu sambandi er sífellt talað um heimilistaxta. Með þessu frv, er birt skrá sem er dæmi um raforkuverð vegna heimilisnotkunar annars vegar og vélanotkunar hins vegar. Þessi skrá er þó mjög villandi.

Í gildi eru fjórir mismunandi taxtar. Þar er um að ræða heimilistaxta, vélataxta, svokallaðan marktaxta og í fjórða lagi er um að ræða svokallaðan hitunartaxta. Sannleikurinn er sá, að tveir þeir síðastnefndu, þ.e.a.s. marktaxtar og hitunartaxtar, eru þeir taxtar sem Rafmagnsveitur ríkisins styðjast fyrst og fremst við og selja samkv. þeim taxta rúmlega 60% orku sinnar. Og það kemur fram í upplýsingum frá Sambandi ísl. rafveitna, sem þm. flestum hverjum munu hafa borist, að á síðustu 10 árum hefur sala samkv. heimilistaxta aðeins vaxið um 26% og vélataxta um 136%, en sala samkv. marktaxta jókst um 962% og hitunartaxta um 1023% á þessu sama tímabili. Marktaxtarnir, sem eru þeir taxtar sem Rafmagnsveitur ríkisins nota að mjög verulegu leyti, fela í sér raforku til sveitabýla og þeir fela líka í sér notkun vegna súgþurrkunar og annarrar rafhitunar. Þessir taxtar eru þess vegna í raun og veru miklu frekar til viðmiðunar þegar talað er um heimilisnotkun bæði hér í Reykjavík og annars staðar. Ef allir þessir taxtar eru teknir saman og meðaltal þeirra fundið út, þá kemur í ljós að raforkuverð t.d. hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur er 12.32 kr. á hverja kwst. á meðan taxtar t.d. á Reykjanesi eru 8.76 kr. á kwst., á Hellissandi 11.44 kr., á Grundarfirði 10.38 kr., á Vestfjörðum 10.40 kr. á Norðurlandi vestra 10.96 kr., og svona mætti áfram telja. M.ö.o.: ef gerður er hér sanngjarn samanburður og teknir þeir taxtar allir, sem í notkun eru hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur, Rafmagnsveitum ríkisins og rafmagnsveitum yfirleitt, þá er þessi samanburður ekki eins óhagkvæmur og gefið er í skyn, bæði af ræðumönnum, sem hér hafa tekið til máls og mælt með þessu frv., sem og í grg.

Í Reykjavík einni er fyrst og fremst stuðst við heimilistaxtana og vélataxtana. Ef þeir tveir eru teknir út úr sérstaklega, þá er um nokkurn mun að ræða. En eins og fyrr segir er þetta ekki réttur samanburður vegna þess að Rafmagnsveitur ríkisins styðjast við hinn svonefnda marktaxta. Hann er sá taxti sem tekur langsamlega stærstan hluta af heildarsölu Rafmagnsveitna ríkisins.

Samkv. þessu frv. er gert ráð fyrir að verðjöfnunargjaldið sé hlutfallslega lagt á raforkuverð sem neytendur greiða. Þetta skapar að sjálfsögðu mikið ranglæti auk þess að hafa þær afleiðingar, eins og hér hefur reyndar verið bent á í umr., að það gjald er reiknað inn í vísitölu og hefur veruleg áhrif á framfærslukostnað. Sú stefna hefur verið rekin af Rafmagnsveitum ríkisins, vitaskuld samkv. fyrirmælum og ákvörðunum ríkisstj., að greiða niður rafhitun. Fyrir vikið er töxtum til rafhitunar húsa haldið niðri. Sannleikurinn er sá, að bæði marktaxtar og hitunartaxtar eru langt undir því sem skynsamlegt er. Ég held að þess vegna eigi ein lausnin í þessu máli tvímælalaust að vera sú að endurskoða þessar gjaldskrár og hækka þessa taxta, marktaxtann og hitunartaxtann.

Þetta frv. leysir að sjálfsögðu engan vanda. Þarna er verið að færa til fé í þjóðfélaginu, ein millifærslan enn, og áfram stendur það misræmi sem í gjaldskránni felst eins og hún er núna — a.m.k. í augnablikinu. Allar líkur eru á því, að ef þessari stefnu yrði haldið áfram mundi vandinn aukast og sífellt þurfa að hækka þetta verðjöfnunargjald ár frá ári öllum til óhagræðis. Og það hefur annað verra í för með sér, að það dregur úr allri viðleitni hjá Rafmagnsveitum ríkisins og hjá hinum ýmsu rafveitum til þess að haga rekstri sínum skynsamlega og með hagkvæmum hætti. Ef ekkert er lítið til kostnaðar af rekstri þessara fyrirtækja og ekki leitað hagkvæmari leiða til að byggja þau upp, þá líta menn einfaldlega til þess, að verðjöfnunargjaldið komi til aðstoðar og hversu hár sem kostnaðurinn sé, þá verði bara verðjöfnunargjaldið hækkað og vandinn leystur hjá viðkomandi aðilum. Þess vegna er þetta engin lausn til frambúðar og ég vara mjög við henni, ég tel hana hvorki skynsamlega né sanngjarna, og ég er algerlega andvígur þessu frv.

Ég treysti því, að hæstv. iðnrh. taki tillit til þessara sjónarmiða, sem ég hef sett fram, til hagsmuna og viðhorfa þeirra sem búa t.d. í Reykjavík og eru andvígir þessu frv. Borgarstjórn Reykjavíkur hefur einróma samþykkt mótmæli við þessu frv. Samband ísl. rafveitna er því einnig algerlega andvígt þó að það komi um skamman tíma til hjálpar einstökum landshlutum, þá er það ekki nein lausn til langframa og kemur aftur hingað sem vandamál áður en langt um líður.