24.10.1978
Sameinað þing: 7. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 107 í B-deild Alþingistíðinda. (117)

320. mál, ráðstafanir vegna riðuveiki í sauðfé

Dómsmrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Eins og fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda, hefur riðuveikin breiðst mikið út á síðustu árum, og upp á síðkastið einnig í fjölmiðlum þessa lands mikið um hana rætt.

Ég ætla að byrja mál mitt með því að rekja aðeins stuttlega greinargerð, sem reyndar birtist í ýmsum blöðum, um útbreiðslu riðuveiki, en skal þar stikla mjög á stóru.

Riðuveiki er talin hafa borist hingað til lands fyrir u.þ.b. 100 árum í Skagafjörð og hefur síðan verið landlæg, má segja, á miðhluta Norðurlands allt frá þeim tíma og þá sérstaklega undanfarin 40–50 ár eða svo. Þar virðist hún hafa að vísu náð mikilli úfbreiðslu, en virðist þó ekki hafa á síðari árum valdið mjög miklu tjóni og útbreiðsla hennar hægari en orðið hefur á þeim svæðum sem síðar hafa fengið þennan vágest.

Frá Mið-Norðurlandi barst veikin vestur til Vestfjarða, á Barðaströndina, 1953, og hefur þar haldið þessum sömu einkennum, breiðst hægt út og ekki farist úr henni mjög mikið sauðfé á ári hverju þótt tjón hafi víða verið tilfinnanlegt. Síðan berst hún til Austfjarða 1970 og um svipað leyti hingað til Suðvesturlandsins. Á Austfjörðum einkum hefur hún haft allt aðra eiginleika, breiðst út mjög hratt og valdið verulegu tjóni, einkum árið 1975 og upp úr því. Skýringar á þessu eru kannske ekki öruggar, en menn telja þó þær líklegastar, að sauðfé þarna sé ekki ónæmt fyrir þessari veiki, eins og þar sem hún hefur lengur verið, og svo mun einnig vera hér á Suð-vesturlandi. Eins og ég sagði, ætla ég ekki að rekja þennan aðdraganda nema í örfáum orðum, enda hefur hann verið þegar birtur.

Sauðfjárveikivarnir hafa fjallað um þetta mál og gert tillögur til landbrn. sem eru nú í meðferð hjá ríkisstj. Áður en ég greini frá þeim vil ég hins vegar geta þess, að mjög eru skiptar skoðanir um meðferð á þessum sjúkdómi. Honum er talin valda veira sem ekki hefur tekist að einangra. Hins vegar hefur tekist að einangra sóttkveikjuna. Hún virðist vera ákaflega lífseig, meira að segja þolir suðu einhvern tíma. Hins vegar er talið að hún sé mjög hægsmitandi og ekki talið að hún sé hættuleg öðrum en sauðfé og geitfé.

Um allan heim, þar sem riðuveiki er, — og hún er útbreidd mjög víða, þó að vísu ekki t.d. á Norðurlöndum og Ástralíu og Nýja-Sjálandi, — er lögð mjög mikil vinna í að skoða þennan sjúkdóm og finna lækningu við honum, en það hefur ekki tekist. Engin bólusetning hefur tekist. Og sömuleiðis er deilt um varnarráðstafanir.

Ég hygg að segja megi, að með merkari rannsóknum á þessu sviði hafa verið framkvæmdar hér einmitt að Keldum.

Með þetta í huga er mönnum væntanlega ljóst, að varnarráðstafanir eru ýmsum erfiðleikum háðar. Þó má segja, að menn eru sammála um að sjálfsagt sé að einangra sjúkt fé eins og frekast er unnt og eru girðingar að sjálfsögðu það tæki sem til þess er notað. Menn eru sem sagt sammála um að riðuveikin berst auðveldast með sjúku fé. Menn telja hins vegar einnig nú orðið að hún berist með heyflutningum og jafnvel geti borist með öðrum skepnum, eins og t.d. hrossum. Menn eru einnig nú orðið nokkuð sannfærðir um það, að alls ekki sé öruggt að skera niður, jafnvel þótt sauðfjárlaust sé um 1–2 ár, og þurfi svo jafnvel að vera um lengri tíma. Sóttkveikjan kann að lifa í húsum jafnvel lengri tíma en það.

Með þetta í huga eru þær tillögur gerðar sem ég ætla að rekja, með leyfi forseta.

Tillaga er gerð um það að skera niður allt fé á Brú á Jökuldal. Um þetta eru sérfræðingar að öllu leyti sammála. Þetta er einangrað tilfelli og hefur ekki fundist annað þar á mjög stóru svæði. Mjög gott samstarf er við ábúendur á Brú sem vilja fara þessa leið og vilja jafnvel leggja það á sig að vera sauðfjárlausir nokkurn tíma. Loks er tiltölulega auðvelt að einangra það svæði betur með hliðum á brýr á Jökulsá á Brú.

Þá er í öðru lagi í tillögum n. gert ráð fyrir að skera niður fé á sýktum bæjum í Fáskrúðsfjarðarhreppi. En ég vil geta þess strax, að eftir fund, sem var haldinn á Austfjörðum nú fyrir fáeinum dögum, eru orðnar skiptar skoðanir um þetta. Veikin virðist langtum útbreiddari þar en áður var talið, og a.m.k. sumir sérfræðingar draga í efa, að niðurskurður þar á 2–3 bæjum muni duga, og hafa lagt til að aðrar leiðir í niðurskurði verði farnar, þ.e.a.s. fyrst og fremst að skera niður það fé sem örugglega er orðið sýkt á stærra svæði, en það er sú leið sem sums staðar virðist hafa gefið sæmilega raun.

Hins vegar vil ég geta þess í þessu sambandi, að fé á bæjum á Austfjörðum, þar sem sýkin er, er talið vera um 10 þús. samtals svo að niðurskurður á því öllu er mikið í ráðist.

Þá er lagt til í þriðja lagi að skera niður allt fé í fjárhjörðum í Ölfusi, Hveragerði, Reykjavík, Kópavogi, Seltjarnarnesi og Akranesi þar sem riða hefur verið staðfest. Þarna er sem sagt hugmyndin að velja úr þau fjárhús nánast þar sem riða hefur fundist.

Og í fjórða lagi er lagt til að efla varnir við Jökulsá á Brú og endurleggja varnarlínu við Ölfusá, Sog, Þjóðgarðinn, Bláskóga og Hvalfjarðarlínu.

Samtals er kostnaður við þessar aðgerðir áætlaður 70 millj. kr. og þar af í girðingar og hlið 37–40 millj. kr. Hitt eru bætur vegna niðurskurðarins, sem ég kem að hér á eftir.

Auk þessa er Sauðfjársjúkdómanefnd nú með í athugun strangari reglur en gilt hafa sem eiga að fyrirbyggja að riðuveiki berist á milli bæja. Og án þess að ég fari út í það í smáatriðum, þá eru þær fyrst og fremst fólgnar í því að gera fjáreigendum skylt að fara eftir ströngustu reglum um heyflutninga, flutninga á lifandi fé og annað sem við nánari athugun kann að koma í ljós að megi verða til þess að hindra útbreiðslu veikinnar. Að þessu er sem sagt mjög ötullega unnið, en verður að viðurkennast, að nokkuð stendur í vegi fyrir ákvörðunum að óvissa er því miður mjög mikil um þessa veiki.

Þó vil ég geta þess hér, að ég hef eindregið lagt til að þær girðingar, sem hér er lagt til að verði endurlagðar, verði endurlagðar að sumri. Allir virðast sammála um það sem sjálfsagða vörn og jafnframt að skorið verði niður a.m.k. á Brú. Um það eru einnig sérfræðingarnir sammála. Hitt er í nánari athugun, en töluverður niðurskurður tel ég að sé óhjákvæmilegur.

Þá var spurt um bætur.

Bætur eru þannig ákveðnar nú, að þær eru dálítið breytilegar eftir aldri kindarinnar. Fyrir gemlinga minnir mig að séu 6–7 þús. kr., en fer upp í 15 þús. kr. hæst. Síðan kemur það stóra vandamál, ef talið verður nauðsynlegt að hafa fjárlaust í lengri tíma en tíðkast hefur. Ljóst er að á einhvern máta verður að aðstoða bændur til að komast yfir það tímabil eða þá aðstoða þá til að taka upp aðra búgrein, ef um það getur verið að ræða. Þetta er jafnframt í nánari athugun, en ég geri ráð fyrir að ríkisstj. muni á næsta fundi sínum á fimmtudag ganga frá afgreiðslu sinni á þessu máli.