15.12.1978
Neðri deild: 34. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1623 í B-deild Alþingistíðinda. (1170)

137. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Um það mál, sem hér er til umr., frv. til l. um verðjöfnunargjald af raforku, munu vera skiptar skoðanir í öllum stjórnmálaflokkunum og svo er einnig um okkar flokk, Alþfl.

Ég hygg að þm. Reykv., fyrir því sé allnokkur hefð, hafi ekki verið mjög harðir talsmenn síns byggðarlags og kannske að annars staðar hafi verið meiri harka í þeim efnum. En hins vegar er það svo með það frv., sem hér liggur fyrir, að hér er auðvitað efnislega um að ræða aukinn skatt á suðvesturhornið til frekari framkvæmda annars staðar á landinu. Þetta er efnislega kjarni málsins. Ég er þeirrar skoðunar, að það sé ekki rétt að standa að þessu með þessum hætti. þar sem ekki er um neina almenna stefnubreytingu í raforkumálum að ræða. Ég mun því standa gegn þessu frv. og geri það vegna þess að ég tel óréttmætt að vera að skattleggja suðvesturhornið með þeim sérstaka hætti sem hér er lagt til. Jöfnuður á raforkuverði er réttlætismál út af fyrir sig, en slíkum markmiðum eigum við að ná með öðrum hætti — ná með því að beita sameiginlegum sjóðum landsmanna allra. Hér hefur verið gerð grein fyrir ályktun borgarráðs Reykjavíkur um þetta og hún skýrir sig auðvitað sjálf, en ég fyrir mitt leyti er andvígur þessari tegund af skattheimtu að þessu sinni.