15.12.1978
Neðri deild: 34. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1624 í B-deild Alþingistíðinda. (1171)

137. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Ég kem hingað í ræðustólinn til þess að segja það í fyrsta lagi, að mér falla þessar umr. vel, því að nærri því hver einasti ræðumaður tekur undir þá stefnu, sem mótuð hefur verið af Rafmagnsveitum ríkisins, að fjármagna félagslega þætti í framkvæmdum fyrirtækisins og nokkurn hluta af skuldabyrðum þess með framlögum úr ríkissjóði. Þetta er gleðilegur ávinningur fyrir þá stefnu sem mótuð hefur verið hjá þessari stofnun. Þess vegna vil ég beina því til hæstv. ríkisstj. að ganga á lagið og skipta á þessu frv. um 700 millj. verðjöfnunargjald og svo sem 500–550 millj. framlagi úr ríkissjóði. Það mundi koma sér betur eða a.m.k. jafnvel fyrir RARIK og Orkubú Vestfjarða og vera, eins og ég hef lýst í fyrri ræðu minni, til muna heppilegri og betri leið.

Annað vil ég taka fram, að ég vil allt gott segja um Helga Bergs fyrrv. formann Rafmagnsveitna ríkisins og vænti þess að svo verði alla tíð framvegis. En út af því sem hv. 1. þm. Reykv. sagði, að hann hefði varað við gjaldtöku með verðjöfnunargjaldi, þá lagði nefndin, sem Helgi Bergs sat í fyrir hönd Rafmagnsveitna ríkisins, til á s.l. vetri að verðjöfnunargjaldið yrði hækkað upp í 20%.

Í þriðja lagi vildi ég með örfáum orðum skýra marktaxtann, sem hér hefur verið gagnrýndur og talinn allt of lágur. Marktaxti er byggður upp á þann hátt, að hægt sé að sameina alla almenna notkun á sveitabýli á einn orkumæli, þ.e. raforku til heimilisnota, súgþurrkunar og hitunar. Við margendurskoðun á samsetningu notkunar hans kemur í ljós, að sé reiknað með heimilisnotkun á heimilistaxta, súgþurrkun á súgþurrkunartaxta og afgangurinn af notkuninni fari til hitunar, þá er verðið til hitunar ca. 7–8% lægra en á almennum hitunartaxta. Hagkvæmni Rafmagnsveitnanna að selja samkv. marktaxtanum er hins vegar margföld miðað við þennan mismun vegna hagkvæmari nýtingartíma og þar af leiðandi hagstæðari innkaupa á raforkunni í heildsölu, fækkun orkumæla hjá notanda, einfaldara dreifikerfis hjá notanda o.fl., o.fl. Með þessu móti, sem felur í sér að vísu 7–8% mun á einum þætti marktaxtans notandanum í vil, er verið að vinna að hagkvæmni ekki einasta fyrir notandann, heldur einnig fyrir Rafmagnsveitur ríkisins sem fyrirtæki og fyrir þjóðarheildina. — Þessu taldi ég nauðsynlegt að koma á framfæri.