15.12.1978
Neðri deild: 34. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1624 í B-deild Alþingistíðinda. (1172)

137. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Ég skal vera stuttorður. Það er álit mitt á þessu frv., að það sé í áttina, en að mínum dómi ekki nærri því nógu langt gengið. Það er skoðun mín, að það hefði átt að fella niður verðjöfnunargjald af raforku hjá viðskiptavinum Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða og hækka verðjöfnunargjaldið hjá viðskiptavinum Landsvirkjunar meira en lagt er til hér. Sannleikur málsins er sá, að ríkið og ríkisstofnanir selja vöru og þjónustu — þarna rafmagn — til landsbúa á mjög mismunandi verði, þannig að viðskiptavinir Rafmagnsveitna ríkisins þurfa að borga allt að því og yfir helmingi hærra verð fyrir orkuna en þeir sem búa á Landsvirkjunarsvæðinu. Þetta er ójöfnuður af versta tagi. Ég undrast að menn, sem vilja kalla sig jafnaðarmenn, svo að ég tali nú ekki um þá sem þykjast vera í orði stundum heldur róttækari, eru að verja slíkan ójöfnuð út af hlutum sem eru svona smáir eins og hér hefur raunverulega verið bent á og m.a.s. af þessum ræðumönnum sjálfum.

Þeir hv. þm. Reykv., sem talað hafa hérna, hafa látið sér margt ákaflega óskynsamlegt um munn fara og það er margar rósir hægt að tína út úr ræðum þeirra, eins og þegar hv. þm. Ellert Schram segir að þetta hafi veruleg áhrif á framfærslukostnað — veruleg áhrif. Og hver eru nú þessi áhrif?

Það vildi svo til, að ég var að fá rafmagnsreikninginn minn í hendurnar, og eyði ég ábyggilega talsvert miklu rafmagni miðað við það sem gerist hér á heimilum. Það þarf mikið að þvo o.fl. þess háttar hjá mönnum sem eiga jafnmikið af krökkum og ég. Og ég sá það á þessum rafmagnsreikningi, þegar ég var að skoða hann áðan, að af yfir 9000 kr. rafmagnsreikningi þurfti ég að borga 793 kr. í verðjöfnunargjald. Það er háskalegt! Þetta eru 13%. 6%, sem eiga að bætast við, mundu verða 360 kr. á tveimur mánuðum. Þetta, sem hefur svona mikil áhrif á framfærslukostnaðinn, er 180 kr. á mánuði og er að setja íbúa Reykjavíkur gersamlega á hausinn. Á sama tíma borga viðskiptavinir Rafmagnsveitna ríkisins hvorki meira né minna en 37 kr. og þar yfir fyrir hverja kwst. Það er ótrúlegt að fólk skuli geta komið hér upp svona háalvarlegt og reyna að fá kjósendur til fylgis við sig út af þessu hneyksli að reyna að jafna raforkuverð í landinu með því að hækka verðjöfnunargjald um 180 kr. á mánuði hjá nokkuð stórum heimilisneytanda. Venjuleg heimili sem eyða minna rafmagni, eins og gerist hér í Reykjavík, borga einn hundraðkari á mánuði til viðbótar, ef þetta gjald yrði samþykkt. Og um þetta rífast þau hv. þm. Albert Guðmundsson, hv. þm. Svava Jakobsdóttir og aðrir úr þeim flokki, flokki ójafnaðarmanna. Þegar ríki og ríkisstofnanir eru að selja vöru og þjónustu til landsmanna, þá ber skylda til að selja öllum landsmönnum sömu þjónustuna og sömu vöruna á sama verði, annað er hrópandi ranglæti.

Þegar hv. 1. þm. Reykv., sem oft flytur mjög skemmtilegar og eftirtektarverðar ræður, segir hér að það megi ekki gera Reykjavík að skattlandi þjóðarinnar, þá blöskrar manni. Allir vita að Reykjavík fær sinn skerf af öllum vörum sem koma til landsins og allir landsmenn neyta. Verð á öllum vörum er miklu hærra að sjálfsögðu úti á landsbyggðinni vegna mikils flutningskostnaðar. Reykjavík tekur sinn skammt af því og hefur atvinnu af því, tugir þúsunda manna í Reykjavík hafa atvinnu af því. Sannleikurinn er sá, að það, sem Reykvíkingar borga og aðrir á Suðvesturlandinu fyrir rafmagnið, er eins og ég sagði áðan, helmingi lægra en hinir borga úti á landi. En víða úti á landi borgum við ekki aðeins allar vörur dýrara verði en Reykvíkingar, heldur er orkukostnaður landsbyggðarinnar miklu hærri en hér gerist. Ég vil benda á það, að við úti á landi, sem kyndum með olíu, borgum fyrir þá orku 5–7 sinnum hærra verð en gengur hér. Það þýðir að fólkið úti á landi er með 5–10% lægra kaup en gerist hér í Reykjavík.

Ég minnist þess, að hitareikningur fyrir blokkaríbúð, sem ég bjó í hér í fyrra, var innan við 50 þús. kr. fyrir allt árið. Það er sami peningur og menn borga í olíukyndingu úti á landi fyrir hálfan annan til tvo mánuði. Og þá sjá menn hver ójöfnuðurinn er þar: Sama er náttúrlega að segja um þá sem kynda hús sín með rafmagni úti á landi á þessum óheyrilegu prísum. Og hv. þm. Ellert Schram leyfði sér að stinga upp á því að þessa taxta ætti að hækka! Skyldi hann vera gráðugur í það og verða fljótur til að leggja þá till. fram í þinginu að hækka taxta Hitaveitu Reykjavíkur á kyndingarkostnaði hér í Reykjavík, þannig að hann yrði jafnmikill og hjá þeim sem kynda með raforku úti á landi? Það mundi hann að sjálfsögðu aldrei gera, því að það er hundrað sinnum stærra mál en hér er á ferðinni.

Herra forseti. Ég lofaði að tala ekki lengi og skal nú senn ljúka máli mínu. En ég undrast að fólk úr þessum ójafnaðarmannahópi leyfir sér að gera mikið veður út af þessum smámunum, sem þó geta orðið til þess að jafna aðeins raforkuverðið í landinu, ganga skref, þó að lítið sé að þessu sinni, í jafnaðarátt. Ég vona að sem flestir hv. alþm. átti sig á því að hér er gott mál, jafnréttismál á ferðinni. Ég vona einnig, að hæstv. ríkisstj. eða þær aðrar ríkisstj., sem eiga að koma til valda, líti á þetta mál sem aðeins fyrsta skref til þess að leiðrétta það misræmi sem hér er verið að fjalla um.