16.12.1978
Sameinað þing: 36. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1630 í B-deild Alþingistíðinda. (1176)

96. mál, þingsköp Alþingis

Frsm. (Páll Pétursson):

Herra forseti. Allshn. Sþ. fékk til athugunar till. til þál. á þskj. 107 um endurskoðun laga um þingsköp Alþingis. Flm. þessarar till. eru hæstv. forsetar Gils Guðmundsson, Ingvar Gíslason, Bragi Sigurjónsson og Friðjón Þórðarson. Tillögugreinin hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að kjósa nefnd 8 alþm., tveggja frá hverjum þingflokki, til að endurskoða gildandi lög um þingsköp Alþingis. Skal n. leggja niðurstöður sínar fyrir Alþingi svo fljótt sem við verður komið.“

Þessu fylgdi örstutt grg. sem mig langar til að lesa með leyfi forseta:

„Á undanförnum þingum, svo og á þessu þingi, hafa verið flutt frv. um breytingar á þingskapalögum. Þá segir og í samstarfsyfirlýsingu ríkisstj., að hún muni beita sér fyrir því að fram fari endurskoðun á þingsköpum Alþingis.

Heildarendurskoðun á þingsköpum var síðast framkvæmd af mþn. sem kosin var af Sþ. 1966. Gildandi þingskapalög voru síðan samþykkt 1972.

Samkomulag hefur orðið um það milli forseta Alþingis og formanna þingflokkanna að leggja til að n. alþm., tveggja frá hverjum þingflokki, verði falið að endurskoða gildandi lög um þingsköp. Er þess vænst, að sú endurskoðun þurfi ekki að taka langan tíma.“

Á þskj. 195 liggur fyrir nál. frá allshn., svo hljóðandi: „N. hefur athugað till. á fundum sínum og mælir með samþykkt hennar.

Alþingi, 15. des. 1978.“

Og undir þetta skrifa nm. Páll Pétursson, Vilmundur Gylfason, Ólafur Ragnar Grímsson, Skúli Alexandersson, Ellert B. Schram, Lárus Jónsson og Gunnlaugur Stefánsson.