24.10.1978
Sameinað þing: 7. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 109 í B-deild Alþingistíðinda. (118)

320. mál, ráðstafanir vegna riðuveiki í sauðfé

Fyrirspyrjandi (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. landbrh. svör hans og einnig það, hvað í þessu máli hefur þegar verið gert og ég treysti að gert verði áfram. Ég vek sérstaka athygli á síðasta liðnum í samþykkt Búnaðarsambands Austurlands, þar sem sá fundur skorar á landbrh. að hlutast til um endurskoðun á reglugerð um varnaraðgerðir þar sem núverandi reglugerð sé allsendis ófullnægjandi. Ég bendi á það vegna þess að nú er komin upp deila á Austurlandi um það varðandi þessa tvo bæi á suðurströnd Reyðarfjarðar, hvort þar eigi að skera niður eða ekki. Í fyrra, hefði verið gripið nógu fljótt í taumana þá, var þetta einangrað við einn bæ þar og alveg ljóst hvað olli og aðvörun hafði borist um það, en henni hefur greinilega ekki verið sinnt, að því er ég best veit, og því hefur farið sem farið hefur þar. Ég held því að þarna þurfi strangari reglur, eins og hæstv. ráðh. var að segja að mundu verða settar, og það veiti ekki af því, þó að ég viti mætavel að varnarráðstafanir í þessum málum öllum séu erfiðar og ekkert eitt sé kannske einhlítt í þessu efni.

Varðandi bæturnar vil ég taka það fram, að auðvitað hafa bændur, sem hafa misst fé sitt úr þessari veiki, fengið nokkrar bætur úr Bjargráðasjóð. Mér er einnig kunnugt um það, veit ekki annað en það sé rétt, að bændur fái enn þá bætur fyrir ær sem farast úr garnaveiki, þar sem um vítaverðan trassaskap einan er að ræða þar sem hægt er að lækna þessa veiki og komast fyrir hana að fullu, — að enn þá séu veittar fullar bætur til bænda ef þeir verða fyrir tjóni af þessum beina trassaskap sínum. Þess vegna hefði ég talið eiri ástæðu til þess, að þeir bændur, sem hafa misst fé sitt úr þessari veiki, sem þeir ráða ekki við, hefðu fengið þessa aðstoð í staðinn fyrir þá sem hafa misst það af trassaskap einum fyrir það að þeir hafa ekki bólusett.

Ég fagna því sem sagt, að hér hefur verið rösklega á tekið, því að það er full ástæða til þess og einkum með tilliti til þess, hve þessi veiki hefur breiðst ört út eystra. Ég býst við því, að menn muni í fyrra eftir hörðum deilum milli sauðfjárveikivarna og formanns Dýralæknafélags Íslands, þess sem ég vitnaði í áðan, héraðsdýralæknisins á Egilsstöðum, um gagnsemi aðgerða Sauðfjársjúkdómanefndar og ráðstöfun á fjármagni hennar. Um réttmæti þeirra ásakana vil ég ekki og get ekki dæmt. En ekki gat ég varist því að finna margt athyglisvert í gagnrýni Jóns Péturssonar, sem ég held að fyllsta ástæða væri til að athuga gaumgæfilega, og mér sýnist hæstv. ráðh. hafa þegar gengið þar nokkuð rösklega til verks. En ég gæti vel trúað því, að þar mætti enn betur gera, þannig að þeim fjármunum, sem þarna er ráðstafað, verði enn bætur varið en gert hefur verið á undanförnum árum.