16.12.1978
Sameinað þing: 36. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1656 í B-deild Alþingistíðinda. (1183)

54. mál, fjárlög 1979

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Ég ætla að leyfa mér að taka örlítinn þátt í þessari umr. um fjárlagafrv., og ég geri það í þeirri trú að hér sé raunverulega verið að tefla um fjárlagafrv., en ekki eitthvert millistig, eins og mér virðist að sumir hv. stjórnarþm. telji að hér sé um að tefla, — millistig sem eigi eftir að taka óteljandi breytingum, kannske svo miklum breytingum að lítið standi eftir af því sem hér er til umr., og má þá segja að til lítils sé að ræða þau mál.

Ég verð að segja það, að ég varð býsna undrandi á ræðu hv. 4. þm. Vestf., Sighvats Björgvinssonar, og skildi ekki alls kostar hvað hann var að fara. Má vera að það sé mér að kenna, að ég sé ekki nógu skarpur til þess að skilja þessa afstöðu, sem sé þá að samþykkja til bráðabirgða fjárlagafrv. við 2. umr., en með öllum fyrirvörum um að það, sem búið er að skrifa undir, sé þó til athugunar framvegis eins og endurskoðunarmenn ríkisreikninga gjarnan segja.

Það, sem ég ætlaði að minnast á, eru aðeins tvö atriði og ég kem að þeim síðar. En ég vil fyrst segja það, að auðvitað er ég ekkert himinlífandi yfir því fjárlagafrv. sem hér er til umr. Auðvitað þykir mér alls ekki ákjósanlegt að þurfa að leggja á þvílík gjöld eins og hér stendur til að leggja á fólk. En mér virðist að það vanti í málflutning þeirra, sem mæla þessum skattaálögum í gegn, ábendingar um það, með hvaða hætti þeir vilja mæta þeim útgjöldum sem fyrirsjáanleg eru á næsta ári. Og nú hafa hv. fjvn.- menn setið nánast dag og nótt yfir fjárlagafrv., yfir útgjaldatill. hinna einstöku rn., og þeim hefur ekki tekist, úr hvaða flokki sem þeir eru, að benda á neinar verulegar lækkanir á útgjöldum og engar nýjar tekjuöflunarleiðir aðrar en þær sem frv. eru nú komin fram um. Meðan þannig er ástatt sýnist mér eins og löngum áður, að það sé ekki annars úrkosta en að ganga með til þessa leiks einu sinni enn og auka þá álögur á þjóðina.

Hér er talað um það, að skattaprósenta til ríkis og sveitarfélaga sé óheyrilega há. Það má vel til sanns vegar færa, að þegar skattgjöld eru komin upp í 70% af tekjum verði menn að fara að gæta sín, þá vakni freistingar til að stinga undan sköttum kannske frekar en ella mundi vera og það kunni að draga úr vilja fólks til að vinna og afla sér og þjóðfélaginu þar með aukinna tekna. En ég vil benda á það, að það er í sjálfu sér ekkert úrskurðaratriði hver skattaprósentan er. Það, sem hlýtur að ráða úrslitum að mínu mati, er hverju menn halda eftir, hvað það er sem menn hafa til þess að lifa af þegar skattar hafa verið dregnir frá. Og ég fæ ekki betur séð en í þeim skattafrv., sem hér hafa verið lögð fram, sé þó gerð tilraun til þess að leggja skattinn fremur á þá sem betur mega sín þannig að þeir hafi þó nægilegt eftir til lífsframfæris, og dregið úr skattheimtu á þá sem sjáanlega geta ekki greitt gjöldin af sínum tekjum.

Ég vil gjarnan taka það fram, að ég sé ekki ofsjónum yfir því, þó menn hafi góðar tekjur, og tel mjög æskilegt að það geti verið í sem flestum starfsgreinum. En meðan svo hagar til að í landinu er fólk sem ekki hefur nægilegar tekjur, mannsæmandi tekjur eins og stundum hefur verið að orði komist, þá sé ég ekki aðra leið skárri heldur en jafna á milli, taka af þeim, sem meira hafa, og færa yfir til þeirra, sem minna hafa. Og það sýnist mér að verið sé að reyna að gera með því fjárlagafrv., sem hér er til umr., og þeim fylgifrv., sem því eru samfara.

En það, sem ég ætlaði að víkja að í örstuttu máli, er annars vegar lítið mál, en mér nokkuð skylt. Við fluttum hér fyrir nokkrum þingum fjórir þm. tillögu um fjárhagslegan stuðning við sundlaugarbyggingu við Grensássjúkrahúsið, og ég vil færa fram viðurkenningu og þakklæti til höfunda fjárlagafrv. að þessu sinni fyrir það, að þeir hafa nú fallist á það sjálfsagða sjónarmið, að sundlaug við þetta sjúkrahús sé eðlilegur og sjálfsagður þáttur þess, þannig að kostnaðarskipting til sundlaugarbyggingar lúti sömu reglum og til sjúkrahúsa að öðru leyti. Ég er sá eini af flm. þessarar tillögu sem enn á sæti hér á hv. Alþ. Þess vegna fannst mér ekki óviðeigandi að ég léti þessi orð koma fram, um leið og ég auðvitað treysti því, að það framlag, sem er á fjárl. þessa árs og óeytt er, sé geymt fé og til ráðstöfunar til þessarar byggingar.

Þessi sundlaugarbygging er höfuðnauðsyn. Það er viðurkennt af öllum sem nálægt heilbrigðismálum koma hér í borginni. Auðvitað vitum við að þessa aðstöðu vantar miklu víðar. Hana vantar við Landsspítalann og hana vantar við Öryrkjabandalagshúsin við Hátún, eins og við höfum séð rækilega minnst á í blaðagreinum að undanförnu, og á ég þó einkum þar við grein sem María Skagan skrifaði í blöðin ekki alls fyrir löngu. Ég geri mér vonir um að þjóðfélagið verði fljótlega svo efnum búið og svo velviljað í garð þess fólks sem orðið hefur að lúta þessum örlögum að fjármagn verði einnig veitt til þessara framkvæmda áður en langt um líður. En ef maður hugsar ævinlega þannig, að það þurfi að gera allt í einu, þá gerist ekki neitt. Sé tekinn einn sérstakur afmarkaður þáttur úr þessum málaflokki, þá er von til þess, að honum verði komið í framkvæmd, og sú von tel ég nú að sé að rætast við endurhæfingarstöðina við Grensásveg hér í borg og ég fagna því.

Hitt atriðið, sem mig langar að minnast á, herra forseti, er framlag Íslands til aðstoðar við þróunarlöndin eða þróunaraðstoðin sem svo er kölluð. Síðast þegar ég flutti hv. Alþingi skýrslu um utanríkismál, það var í vor, minntist ég nokkuð á þessa þróunaraðstoð og þá sagði ég, með leyfi hæstv. forseta:

„Samkvæmt bráðabirgðayfirliti, sem tekið var saman á s.l. ári, námu áætluð framlög hins opinbera til aðstoðar þróunarlöndum á árinu 1977 samtals 205.2 millj. kr. eða tæplega 0.07% af áætlaðri þjóðarframleiðslu. Þetta er því miður ekki nema um það bil 1/10 hluti af því hlutfalli þjóðarframleiðslu sem ætlast er til að iðnvædd ríki leggi fram. Þarf því að huga vandlega að möguleikum á að gera hér á umtalsverða bragarbót á allra næstu árum, ekki síst þar sem grannríki okkar, er búa við svipaða velsæld og við, leggja mun meira af mörkum. Raunar má sem betur fer segja að stefnt hafi í rétta átt upp á síðkastið, því að framlögin á fjárl. til stofnunarinnar Aðstoðar Íslands við þróunarlöndin hafa aukist verulega undanfarin 3 ár, eða úr 12.5 millj. kr. 1976 í 25 millj. kr. 1977 og 40 millj. kr. á þessu ári.“

Á skrá, sem hv. fjvn. hefur undir höndum og e.t.v. fleiri hv. alþm., er tafla um hlutfall af þjóðarframleiðslu viðkomandi árs. Og hún er svona: Árið 1973 0.032, 1974 0.029, 1975 0.044, 1976 0.030, en svo koma þessi ár, sem ég var áðan að minnast á: 1977 0.056, 1978 0.058. En á fjárlfrv. þessa árs er prósentan aftur lækkuð og nú í 0.043. Þetta er víðs fjarri því markmiði, sem Íslendingar hafa sett sér og felst í löggjöf frá 1971 um að 0.7% þjóðartekna gangi til þróunaraðstoðar í einni eða annarri mynd, að við svo búið getur ekki staðið. Við getum ekki að mínu mati samþ. fjárl. sem svona eru úr garði gerð.

Til stofnunarinnar Aðstoðar Íslands við þróunarlöndin eru nú samkv. fjárlagafrv. aðeins ætlaðar 40 millj. kr. En í till. utanrrn., sem lagðar voru fyrir fjárlaga- og hagsýslustofnun á þessu hausti, var farið fram á 71 millj. kr. fjárveitingu. Það, sem skorið hefur verið niður, er fyrst og fremst aðstoð við Grænhöfðaeyjar eða Kap Verde upp á 25 millj. kr., sem langt var komið í land með að veita og undirbúið hefur verið að öllu leyti og ekkert vantar til annað en þessar 25 millj. kr. Enn fremur hafði utanrrn. og hefur áreiðanlega enn hug á því að taka þátt í norrænu samstarfi sem stuðli að uppbyggingu fjölmiðlastarfsemi í Afríku. Hlutur Íslands í því samstarfi er ekki hár, hann er 2 millj. kr., og þetta hefur einnig verið skorið niður. Þetta tel ég einnig að þurfi að lagfæra, og ég vil í fullri vinsemd beina því til hv. fjvn. nú á milli umr., hvort hún sjái sér ekki fært að taka þessa lagfæringu til greina. Hér er um sáralitla fjárveitingu að ræða í öllum þeim aragrúa fjármuna sem veittir eru til eins og annars, en ég tel að sómi Íslands á erlendum vettvangi liggi við.

Ég sé það mér til ánægju, að hv. fjvn. hefur tekið upp nýjan lið frá frv. í upphaflegri mynd sem heitir: Framlag til háskóla Sameinuðu þjóðanna og nemur 33 millj. 200 þús. kr. Þessari breytingu hlýt ég að fagna, því að svo mikil áhersla hefur verið lögð á það af íslenskum stjórnmálamönnum og háskólamönnum og menntamönnum að deild háskóla Sameinuðu þjóðanna fengi starfsaðstöðu hér á landi, og voru þá einkum hafðar í huga jarðhitarannsóknir og annað slíkt sem þykir henta einkar vel hér á landi. Ég hefði talið það mjög miður farið ef Alþingi Íslendinga hefði ekki séð sér fært að veita þessa fjármuni.

Til þess að undirstrika það, að hér er um atvarlegt mál að ræða, langar mig að lokum, herra forseti, að vitna til fréttabréfs frá Aðstoð Íslands við þróunarlöndin, 5. tbl., sem öllum alþm. hefur nú verið sent. Ég ætla ekki að tefja tíma þingsins með því að lesa þetta bréf þar sem það er í hvers þingmanns höndum og þeir geta lesið það hver um sig og hafa vafalaust gert, en aðeins vitna til þessara orða:

„Það hlýtur að koma að því einn góðan veðurdag, að Aðstoð Íslands við þróunarlöndin hrökkvi upp af vegna fjársveltis. Það fer því að verða fullkomin ástæða til þess að spyrja hvers vegna í ósköpunum hæstv. Alþingi var að samþ. lög um þessa stofnun fyrir rúmum 7 árum. En það er líkast til tilgangslaust að koma með svona spurningu, það fæst víst enginn til að svara henni.“

Mín ósk og tillaga er sú, að við látum þessi orð ekki rætast, heldur svörum við þessari spurningu á jákvæðan hátt með því að auka fjárframlög til þessarar mikilsverðu stofnunar, því að það er ekki vansalaust fyrir okkur, þó að við eigum kannske við einhverja tímabundna erfiðleika að ræða, að skorast undan því að aðstoða þær þjóðir sem enn verr eru settar heldur en við. Við höfum sannarlega vel efni á því, ef okkur tekst að ráða eigin málum til lykta og leggja af það sundurlyndi sem nú einkennir störf Alþingis allt of mikið.