16.12.1978
Sameinað þing: 36. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1665 í B-deild Alþingistíðinda. (1187)

54. mál, fjárlög 1979

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Um fjárlagafrv. sjálft, meðferð þess hér á hv. Alþ. og afgreiðslu þá sem nú hillir undir, mætti segja mörg orð. Allt virðist enn á huldu nm tekjuöflunarfrv. þau sem loks hafa verið lögð fram af ráðandi öflum í ríkisstj. og Alþingi. Þó hefur einn hluti af meiri hl. fjvn. látið liggja að því, að hann muni ekki bregða fæti fyrir hin svokölluðu tekjuöflunarfrv. að því er snertir hina þinglegu meðferð þeirra mála. Þegar þar við bætist, að þm. hafa orðið vitni að margháttuðum sviptingum og sundurlyndi á stjórnarheimilinu undanfarin dægur, er síst að furða þó margir séu nú óvenjulega uggandi um afdrif þessara mála á síðustu dögum fyrir jól. Enginn virðist enn geta gert sér grein fyrir því, hvernig fjárlagafrv. kann að hallast um það er lýkur, né heldur hvernig frv. það um jafnvægi í efnahagsmálum verður sem boðað hefur verið af hálfu eins stjórnarflokkanna, hvað þá hvernig því muni reiða af þegar þar að kemur.

Það er því ekki ofsögum sagt af þeirri óvissu sem nú ríkir á vettvangi opinberra mála og efnahagsframvindu allri á Íslandi nú í skammdeginu. En ég mun ekki ræða fjárlagafrv. ítarlega lið fyrir lið, en víkja nokkrum orðum að brtt. þeim sem ég hef leyft mér að flytja, annaðhvort einn eða ásamt öðrum á þskj. 210.

Um fyrstu brtt., sem ég flyt ásamt hv. 7. landsk. þm., er það að segja, að hann mun gera grein fyrir því máli, en ég mun víkja nokkrum orðum að rómverskum liðum III og IV á þskj. 210.

Undir rómverskum lið III er till. sem ég flyt ásamt hv. 7. landsk. þm. og snertir sjúkrahús St. Franciscusarreglunnar í Stykkishólmi. Þar er gert ráð fyrir að byggingarstyrkur sá, er í fjárlagafrv. greinir og nemur 5 millj. kr., verði hækkaður upp í 10 millj. kr. St. Franciscusystur byggðu 1934 sjúkrahús í Stykkishólmi sem þær hafa rekið síðan með miklum myndarbrag. Að sjálfsögðu hafa þær með þessari starfsemi veitt íbúum Breiðafjarðarbyggða og fleiri héraða ómetanlega þjónustu, enda hafa þær verið studdar í þessu mikilvæga starfi af viðkomandi sveitar- og sýslufélögum svo og hinu opinbera og sjálfar hafa þær lagt mjög mikið af mörkum, bæði í vinnu og fjárframlögum.

Fyrir nokkrum árum var ákveðið að í Stykkishólmi skyldi stofnsetja heilsugæslustöð 2. Samkv. lögum á að reisa slíkar stöðvar við sjúkrahús þar sem þau eru fyrir hendi. Svo verður og gert á þessum stað. Systurnar hafa sýnt mikinn áhuga á að hrinda þessu máli í framkvæmd sem allra fyrst í samvinnu við þá aðila heima fyrir sem boðið er að vinna að þessum málum, sveitarfélög, og svo að sjálfsögðu ríkisvald.

Nú er svo komið að heilsugæslustöð þessi hefur fengið grænt ljós, ef svo má segja, fékk það raunar á fjárl. 1978. Allir heimamenn eru sammála um allt sem máli skiptir varðandi þessa framkvæmd, en smátt er féð skammtað til þessa verkefnis í fjárlagafrv., aðeins 10 millj. kr.

Til heilsugæslustöðvar í Ólafsvík er veitt svipuð fjárhæð. Ber að þakka þessar væntanlegu fjárveitingar, þó ekki séu þær háar. Af mörgum heimamönnum hefur jafnan verið lögð áhersla á að þessar tvær stöðvar yrðu látnar fylgjast að í byggingu, enda þessi tvö verkefni óleyst á þessu sviði í Vesturlandskjördæmi utan Akraness.

Ekki mun að vænta árangurs á þessu þingi þó till. yrðu fluttar til hækkunar á þessum fjárlagafrumvarpsliðum. En ég leyfi mér að vænta þess, að hv. alþm. sjái ástæðu til að hækka nokkuð þann fjárstyrk, sem systurnar hafa notið á fjárl., með hliðsjón af því mikla starfi sem þær inna af hendi í þágu lands og lýðs á sviði heilbrigðis- og mannúðarmála og hafa greinilega sýnt í verki á umliðnum árum.

Þá er það liður nr. IV á þskj. 210. Það er brtt. frá mér þess efnis, að við fjárlagaliðinn Hafnarmannvirki og lendingarbætur, í þeirri upptalningu, sem þar greinir, komi nýr liður: Stykkishólmur 65 millj. Samtala liðarins breytist skv. því.

Um þetta mál er það að segja, að hér er um verkefni að ræða sem hafnamálastjóri og verkfræðingar hans töldu nauðsynlegt, að unnið væri á næsta ári að hafnarframkvæmdum í Stykkishólmi. Þar eru hafnarskilyrði góð, en höfnin sjálf svo gömul og léleg að brýna nauðsyn ber til að ráða þar bót á sem allra fyrst svo að neyðarástand skapist ekki á þeim stað. Í þessu efni er því alveg farið að till. þeirra sérfræðinga sem fjvn. hafði samvinnu við í þessum málum. En ekki náði þessi till. þó fram að ganga, a.m.k. ekki til þessa.

Mér er fyllilega ljóst, að aðhald og aðgæslu verður að sýna við afgreiðslu þessa fjárlagafrv. svo sem oft áður. Þó er það svo, að mjög margar fleiri aths. mætti gera við frv. og gagnrýna eitt og annað, bæði að því er lýtur að undirbúningi þess og allri gerð, en þessi atriði læt ég nægja að sinni.