16.12.1978
Sameinað þing: 36. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1673 í B-deild Alþingistíðinda. (1193)

54. mál, fjárlög 1979

Fjmrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Ég tel að þær umr., sem hafa farið fram um fjárlögin við 2. umr., hafi verið efnislegar og fróðlegar. Það er ljóst öllum hv. þm., að við núverandi aðstæður í efnahags- og fjármálum er mikið vandaverk fyrir Alþ. og ríkisstj. að vinna að fjárlagagerð þar sem svo margir þættir þeirra mála og framvinda eru í óvissu.

Að venju mun ég gera grein fyrir því við 3. umr. fjárl., hvernig heildarstefna þeirra verður, og mun ekki við þessa umr. ræða það nánar. Ég vil aðeins láta það koma fram, að það er stefnt að því af hálfu ríkisstj. að endanleg afgreiðsla fjárlagafrv. verði í öllum aðalatriðum í samræmi við þá meginstefnu, sem kemur fram í 1. gr. fjárlagafrv.

Þó eru nokkur atriði sem ég vil aðeins minnast á og þó raunar fyrst og fremst tvö. Í fyrsta lagi er Byggðasjóður sem hv. þm. Matthías Bjarnason minntist á. Það er gert ráð fyrir því í fjárlagafrv., að framlag til Byggðasjóðs nemi um 2 milljörðum 458 millj. kr. Ég hygg að ekki sé fjarri lagi að gera ráð fyrir því, að þegar eigið ráðstöfunarfé Byggðasjóðs bætist við þessa upphæð muni ráðstöfunarfé sjóðsins á næsta ári verða einhvers staðar á milli 2.9 milljarða og 3 milljarða. Nú er það svo, að byggðalínurnar vestur og austur frá aðalraforkukerfi þjóðarinnar til þeirra landshluta, sem afskekktastir eru, eru mikið vandamál vegna þess að enginn aðili hefur tekið að sér rekstur þeirra. En við höfum fleiri vandamál á sviði orkumála og á ég þar sérstaklega við Kröflumálið, þar sem nú verður að taka á fjárl. alveg nýjan útgjaldalið, stóran útgjaldalið, sem kemur til með að nema, að því er ég hygg, einhvers staðar á milli 2.4 og 2.5 milljarða kr. Það er því of á lagt ríkissjóð á einu ári að hann geti í raun og veru staðið undir frekari framlögum á þessu sviði, vegna þess að þau eru óvenjuleg. Þess vegna hefur ríkisstj. markað þá stefnu, að að þessu sinni verði Byggðasjóði heimilað að taka lán sem ekki er alveg nákvæmlega tiltekið hvað sé mikið. Það er gert ráð fyrir því í fjárlagafrv., að það verði 1130 millj. kr., en það gæti orðið eitthvað hærra, vegna þess að gengið hefur breyst síðan endanlega var gengið frá fjárlagafrv., en það var horfið að því ráði, að Byggðasjóður tæki lán og endurlánaði það til Orkusjóðs og það yrði síðan greitt til baka þegar ábyrgur aðili hefur tekið við rekstri byggðalínanna. Að sjálfsögðu hlýtur það að verða framtíðin, að byggðalínurnar verði hluti af raforkukerfinu og neytendur raforkunnar greiði kostnað af rekstri þeirra og byggingu.

Það er auðvitað álitamál í þessum efnum, hvort sú stefna, sem hér hefur verið mörkuð, sé æskileg. Hún er nauðsynleg eins og á stendur. Ég minni á að það kom fram till. af hálfu Sjálfstfl. fyrir kosningarnar í vor um að Byggðasjóður legði fram sérstakt framlag til vegamála, 1 milljarð, ef ég man rétt. Auðvitað má um það deila, hvort eru meiri byggðamál, vegamál eða orkumál. Um það getum við sjálfsagt deilt fram og til baka. (Gripið fram í: Er ekki hér um að ræða yfirstandandi skuldir?) Hér er um að ræða að standa undir kostnaði, afborgunum og vöxtum við þessar byggðalínur til Vesturlands og Austurlands.

Varðandi heimild Byggðasjóðs til lántöku þá vildi ég upplýsa það, að frá því að Byggðasjóður tók til starfa hefur það verið skoðun ráðamanna, að sjóðurinn hefði heimild til þess að safna saman frá ári til árs heimildum til lántöku, þó að það sé orðað svo í lögum, að heimildin sé miðuð við ákveðna upphæð á ári 600 millj. í 5 ár. Til þess að taka af allan vafa í þessu efni er gert ráð fyrir því, að í frv., sem mun fylgja lánsfjáráætluninni, þ.e.a.s. þar sem um er að ræða heimild til lántöku, verði sérstakt heimildarákvæði í þessu skyni, til þess að taka af allan vafa um lögmæti þessa atriðis.

Hv. þm. Friðrik Sophusson gerði fsp. um Lánasjóð ísl. námsmanna. Lánasjóður ísl. námsmanna er að verða stór stofnun. Gert er ráð fyrir í fjárlagafrv. að leggja fram til hans á næsta ári af ríkisfé 2 milljarða 234 millj. 861 þús. kr. Enn fremur er gert ráð fyrir því í fjárlagafrv., að heimilt sé að taka að láni 400 millj. til viðbótar. Til viðbótar við þetta er svo fyrirhugað að inn á lánsfjáráætlun ríkisstj. komi 700 millj. kr. heimild til lántöku, þannig að á næsta ári nemi framlög úr ríkissjóði til Lánasjóðs ísl. námsmanna 2 milljörðum 234 millj. kr. en sjóðnum verði aflað lánsfjár að upphæð 1100 millj. Það er augljóst mál, að Lánasjóðurinn er, eins og ég sagði áðan, orðin svo stór stofnun að hann verður að starfa sem hver annar lánasjóður. Það verður því ákvörðunaratriði hverju sinni með tilliti til stöðu sjóðsins hversu mikið Alþ. telur ástæðu til að leggja fram til sjóðsins árlega. Hann verður að hafa bolmagn til þess að taka lán, vegna þess að hann lánar út eins og hver annar lánasjóður sem gerir ráð fyrir að fá til baka lánin eftir tilteknum reglum. Ég álít að það þurfi að fara fram sams konar athugun á rekstri Lánasjóðs ísl. námsmanna eins og hjá hverjum öðrum lánasjóði, Fiskveiðasjóði, Stofnlánadeild landbúnaðarins o.s.frv. Það fer fram rækileg athugun á því á hverju ári, hvernig þessir sjóðir standa og hvernig þeir koma til með að standa um talsvert langa framtíð. Sama verður að eiga sér stað með Lánasjóð ísl. námsmanna, vegna þess að um miklar upphæðir er að tefla. Sú stefna, sem kemur fram í fjárlagafrv. og lánsfjáráætlun ríkisstj. varðandi Lánasjóð ísl. námsmanna, er um það, að staðið verði við þessa svokölluðu 85% reglu.

Ég vil svo að lokum flytja fjvn. þakkir fyrir störf hennar fram að þessu, sem hafa verið unnin af kostgæfni á stuttum tíma, og vil vonast til þess, að Alþ. auðnist að afgreiða fjárl. fyrir jólin og það tímanlega að menn hafi svigrúm til þess að gleðjast heima hjá sér um jólahátíðina.