18.12.1978
Efri deild: 34. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1679 í B-deild Alþingistíðinda. (1195)

95. mál, leiklistarlög

Frsm. meiri hl. (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Eins og fram kemur í nál. á þskj. 175, höfum við í menntmn. lagt til að frv. á þskj. 106, um breyt. á leiklistarlögum, verði samþ., en eins og fram kemur í því nál. frá meiri hl. þá mun hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir skila séráliti.

Á þessu frv. hafði orðið nokkur formgalli, en við bættum úr því með því að flytja brtt. á þskj. 212 um að við frv. bættist ný grein, sem yrði 2. gr., þ.e.a.s. að lög þessi öðlist þegar gildi, en það hafði fallið niður í frv. eins og það lá fyrir okkur.

Ég vil spara tíma með því að fjalla um þær brtt. sem lagðar hafa verið fram af hv. minni hl. nefndarinnar. Ég vil taka það fram, að þessi lög fengu á sínum tíma mikla umfjöllun í nefnd og síðar í rn. Það var haft samráð við flesta þá aðila, sem þessi mál varða, og ýmislegt var fært til þess vegar sem helst náðist þá samkomulag um. Ég vil taka það fram, að frá því að ég kom nálægt þessu frv. í nefndarstarfi tók það miklum breytingum í meðförum nýrrar nefndar og eins í meðförum rn. Einmitt í þessum meðförum, þegar haft var samband við hina mörgu aðila, þá kom leiklistarráðið upp sem umræðuhópur um leiklist almennt. Þetta leiklistarráð er og á að vera ólaunað. Það hefur heldur enga fjárveitingu fengið enn þá á fjárl. og það hefur engin ástæða verið fyrir því reyndar, því að leiklistarráðið er tiltölulega nýskipað. Ég álit einnig að það þarfnist ekki mikillar fjárveitingar, þó að framkvæmdaráðið verði virkt. Talið var að hér væri kominn kjörinn samstarfs- og samráðsvettvangur fyrir þá aðila sem að þessum málum starfa. Þetta leiklistarráð hefur sem sagt verið skipað, en það hefur ekki enn komið saman. Ég vil sjá hvernig það reynist áður en við förum að fella það niður. Ég óttast ekki kostnað sem neinu nemur af þessu, því að ráðinu sjálfu, eins og ég sagði, er ætlað að starfa ólaunuðu og framkvæmdastjórnin á ekki að koma það oft saman að ég álíti að þarna verði mikill kostnaður af, en hins vegar mikið gagn ef vel tekst til.

Aðaltilgangurinn með þessu leiklistarráði var af hálfu okkar, sem höfum starfað í áhugaleikfélögunum, að skapa nánari tengsl milli áhugafélaga og atvinnuleikhúsa. Það er mjög brýnt að koma því samstarfi á. Ég sé kannske ekki annan heppilegri vettvang til slíks. A.m.k. var þetta leiklistarráð til þess hugsað beint. Fyrstu till. nefndarinnar voru um fámennara leiklistarráð, en miklu valdameira en það leiklistarráð sem nú er í lögum. M.a. átti það að gera till. og í raun og veru ráða úthlutun alls þess fjár sem til leiklistar rynni. Þá var ætlunin sú, að fjvn. setti aðeins eina upphæð á fjárlög til leiklistarstarfsemi og leiklistarráðið úthlutaði svo þessu fé til hinna einstöku aðila. Frá þessu var horfið og ég tel til réttara horfs, þess sem nú gildir. Ég vil þess vegna ekki og get ekki mælt með því á þessu stigi, hvað sem síðar verður lagt til, að þetta leiklistarráð verði fellt niður meðan engin reynsla er á það komin.

Ég veit að um það urðu nokkrar deilur á sínum tíma, hvað við væri átt með þessari stefnumótun. Þegar um málið var rætt upphaflega kom það alveg glögglega í ljós. Ég vil skýra frá því hér, hvað þessu olli.

Það var ekki ætlunin að reyra stefnuna í neina fjötra, eins og raddir heyrðust um. Því síður var um neina pólitíska markandi stefnumótun að ræða. Hugmyndin var í raun og veru komin frá áhugaleikfélögunum og ástæðan var sú, að við, sem vorum þá í forsvari fyrir áhugaleikfélögunum, vildum beina leikstarfsemi þeirra frá þeim försum og um margt lélegu leikritum, sem valin voru áður, að betri verkum og vandaðri. Ég vil greina frá því hér, að þannig var frumhugsunin að þessari stefnumótun, sem hér er: „stuðla að stefnumótun á því sviði á hverjum tíma“, sú var frumhugsunin, og þetta er sem sagt komið frá áhugaleikfélögunum á sínum tíma til þess að reyna að beina leikstarfseminni í annan farveg.

Þessi stefnumótun var reyndar þegar komin fram í afstöðu áhugafélaganna til úthlutunar styrkja og mismunun þar. Ég vil greina frá því einnig, að þegar ég átti sæti í þessari úthlutunarnefnd ásamt þeim Knúti Hallssyni fulltrúa í menntmrn. og Sveini Einarssyni þjóðleikhússtjóra, þá beitti ég mér fyrir verulegri breytingu á úthlutun þessara styrkja, og ýmsir kunnu þessu illa og kunna þessu illa enn. Þessari stefnumótun var þann veg farið, að nú eru íslensk leikverk styrkt mest, þá koma barnaleikrit, þá erlend leikrit, sem í er veigur, og síðast farsarnir svokölluðu eða „kassastykkin“, sem hafa nú aðeins um 50% styrk á borð við íslensk verk. Og mér til mikillar ánægju a.m.k., hvað sem aðrir vilja um það segja, hefur stefnubreytingin hjá áhugafélögunum orðið gífurleg í þessu efni. Á síðasta ári voru íslensk leikverk í meiri hluta hjá áhugaleikfélögum í fyrsta skipti í sögu þeirra og sýningar barnaleikrita höfðu þá fjórfaldast frá því sem þær voru þegar þessari stefnumótun var á komið. Auðvitað eiga farsarnir sinn rétt, en þeir eru þó á hröðu undanhaldi. Ég hef ekkert á móti þeim sem slíkum, en ég vil engu að síður að það sé alveg ljóst, að hverju þessi stefnumótun beindist.

Um þetta orð stefnumótunina, má að vísu endalaust deila. En ég óttast ekki þetta ákvæði, og miðað við þá fjölbreyttu skipan, sem er í leiklistarráði í dag, tel ég alla vá í þessu efni nær óhugsandi, svo mörg mismunandi sjónarmið eru þar uppi. Ég vil a.m.k. lýsa því hér yfir, ef menn hafa einhvern ótta af þessu, að þrátt fyrir pólitískan áhuga minn í þessum efnum, þrátt fyrir það að ég hafi vissan áhuga fyrir þjóðfélagsverkum fram yfir önnur verk sem tekin eru til sýningar, þá mun ég a.m.k. beita áhrifum mínum í leiklistarráðinu, til þess, ef það fær að starfa áfram eða fær að starfa réttara sagt, að í enga einstefnu verði farið, þó að það fari auðvitað ekki á milli mála að ég setji íslensk leikverk efst á blað. Ég tel þess vegna þessa stefnumótun hafa verið mjög mikilvæga, þó að hún hafi ekki einu sinni komist í framkvæmd, nema í þessari úthlutun fyrir áhugafélögin.

Þetta vil ég að komi skýrt fram út af þessum brtt.: Ég vil sjá hvernig leiklistarráðið starfar. Ég óttast ekki þessa stefnumótun á þann hátt sem var rætt hér við setningu leiklistarlaganna. Hún er eingöngu til orðin vegna áhuga félaganna og stefnumótunar að því marki að þau sýni vandaðri verk, að þau sýni íslensk verk umfram önnur.

Ég vil hins vegar í sambandi við b-liðinn í fyrri brtt. frá hv. þm. Ragnhildi Helgadóttur, þ.e.a.s. að við 2. gr. laganna bætist nýr liður: Til óperustarfsemi, lýsa því yfir, að ég mun fylgja þeim nýja lið, enda var þessi liður á einu stigi í sambandi við umfjöllum þessara leiklistarlaga inni og ég studdi hann þá. Úr því að hann er kominn í brtt. mun ég styðja hann, þó að ég efist hins vegar um að við í fjvn. eða þeir, sem þar eiga eftir að starfa, verði örlátir á fé til þessa liðar. Þeir hafa t.d. ekki lagt krónu enn til þessa margfræga leiklistarráðs og ég óttast að við verðum ekki frekar en í sambandi við leiklistina yfirleitt, fyrr en þá rétt núna á tveim síðustu árum, örlátir á styrki til þessarar starfsemi, sem á sannarlega rétt á sér. Ég lýsi sem sagt hér með yfir stuðningi við þá brtt.