18.12.1978
Efri deild: 34. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1691 í B-deild Alþingistíðinda. (1207)

23. mál, tímabundið vörugjald

Menntmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. 1. flm. þessarar brtt. á þskj. 220, hv. þm. Eyjólfi K. Jónssyni, að ég vakti athygli á því á fundi d. á föstudaginn var, að nauðsynlegt væri að endurskoða þau tollskrárnúmer, sem ættu að falla undir þetta sérstaka tímabundna vörugjald, og eðlilegt væri að hljóðfæri væru með öllu undanþegin þessum gjöldum. Ég hef rætt þetta mál við fjmrh. og vakið athygli á þessu í ríkisstj., og ég veit að það er fullur skilningur á því að þessu verði breytt. Ég benti jafnframt á það, að í frv., eins og það liggur fyrir, er heimild fyrir fjmrh. til þess að undanþiggja ákveðnar vörur gjaldinu. Ég sagðist reiðubúinn að samþykkja frv. í trausti þess að hæstv. fjmrh. tæki vörugjaldið til endurskoðunar í samræmi við þessa heimild og breytti því þannig að hljóðfæri yrðu almennt undanþegin þessu gjaldi.

Ég lýsti því yfir, að ég teldi að við hefðum ekki aðstöðu eða tíma til þess að framkvæma þá heildarendurskoðun á þessum löngu listum yfir tollvöruflokka sem þörf er á að gera. Ég er viss um að það eru fleiri atriði hér, sem lagfæra þarf, en þau sem snerta hljóðfærin. Ég hef enga tryggingu fyrir því, að þau númer, sem hv. flm. þessarar till. hafa fært hér á blað, séu nákvæmlega hin réttu. Ég tel að þetta mál þurfi að endurskoða í betra tómi og ég treysti hæstv. fjmrh. fullkomlega til þess að standa fyrir þeirri endurskoðun. (Gripið fram í.) Þess vegna mun ég ekki standa að samþykkt þessarar brtt.

Ég vil alveg Sérstaklega vekja á því athygli, að hv. flm. létu sér ekki til hugar koma að flytja brtt. af þessu tagi fyrr en ég vakti athygli á þessu atriði. Þeir höfðu þó tækifæri til þess við 2. umr. málsins og afgreiðslu úr n. að koma með brtt. af þessu tagi. En þeim kom ekki til hugar að gera það fyrr en vakin var athygli á þessu. Það er því bersýnilegt, að till. þessi er einungis flutt í því skyni að reyna að tefja afgreiðslu þessa máls og reyna að valda því að um það þurfi að fjalla nú á næstu dögum. Þá gæti afleiðingin hugsanlega orðið sú, vegna þess hve skammt er nú þar til gert verður jólahlé, að frv. næði ekki fram að ganga. Ég tel að ef hv. flm. hefðu raunverulega haft áhuga á því að fá fram breytingar á þessu sérstaka tímabundna vörugjaldi hvað snertir þetta atriði og fleiri atriði sem þarf að endurskoða og athuga, þá hefðu þeir að sjálfsögðu gert till. um það við 2. umr. málsins í framhaldi af afgreiðslu málsins úr fjh.- og viðskn: En það gera þeir ekki. Þeir koma fyrst með þessa till. þegar ég vek á því athygli, að það þurfi að endurskoða þessa tollvöruflokka sem nefndir eru í þessu frv., og óska eftir því, að sú endurskoðun fari nú fram á næstu vikum. Og ég tel að þessi síðbúna till, bendi eindregið til þess, að ekki hafi fylgt allt of mikill eða góður hugur máli, heldur sé hún flutt fyrst og fremst til þess að valda pólitískum vanda. Ég mun því ekki treysta mér til þess að styðja till., en lýsi því enn einu sinni yfir, að ég treysti hæstv. fjmrh. fullkomlega til þess að standa fyrir athugun á þessum tollvöruflokkum — athugun sem þarf vafalaust að snerta fleiri vöruflokka en hljóðfæri — og treysti því, að sú athugun fari fram á næstu vikum.