18.12.1978
Efri deild: 34. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1692 í B-deild Alþingistíðinda. (1209)

23. mál, tímabundið vörugjald

Bragi Sigurjónsson:

Herra forseti. Ég vek athygli á að hér er komin fram brtt. sem hv. fjh.- og viðskn. hefur ekki haft tækifæri til þess að fjalla um, en í ljós hefur komið að t.d. hæstv. menntmrh. virðist meðmæltur þessari till., en telur sig þó ekki að svo stöddu geta fylgt henni. Ugglaust kunna að vera fleiri menn hér í d. sem ekki eru búnir að gera upp hug sinn varðandi þessa till. Í öllu falli fyndist mér æskilegt að viðkomandi n. gæfist tími til þess að líta á till., ekki síst eftir þá yfirlýsingu hæstv. fjmrh. að hann telji margt í þessu frv. þurfa endurskoðunar við og vera kunni að þetta verði endurskoðað en þó gaf hann engar upplýsingar um það eða bindandi loforð hvort svo yrði eða ekki.

Það eru því tilmæli mín við d. og forseta, að þessi till. gangi til fjh.- og viðskn. til athugunar áður en d. taki afstöðu til hennar.