18.12.1978
Neðri deild: 35. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1699 í B-deild Alþingistíðinda. (1219)

39. mál, kjaramál

Frsm, meiri hl. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Við 2. umr. um þetta mál kom fram brtt. við 8. gr. frv. frá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur þar sem gert var ráð fyrir því, að eignarskattsauki yrði nokkuð lækkaður á þeim sem lágar höfðu haft tekjur. Við atkvgr. var ekki fallist á þessa till., heldur var önnur till. samþ. til breytinga á þessari grein, þar sem gert var ráð fyrir að þessi eignarskattsaukalækkun næði eingöngu til gamals fólks og öryrkja. Það hefur verið til athugunar í n., hvort hægt væri að mæta því sjónarmiði að nokkru leyti sem fram kom hjá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, og nú flytur meiri hl. fjh.- og viðskn. brtt. í þá átt. Þessari brtt. hefur ekki enn þá verið útbýtt, hún mun koma á borð hv. þm. innan stundar, en ég legg hana hér með fram og vil lesa hana upp, með leyfi hæstv. forseta. Brtt. er þannig:

„Við 8. gr. Við 2. mgr. bætist:

Eignarskattsauki samkv. þessari grein skal einnig lækkaður um sömu fjárhæð hjá þeim einstaklingum, sem á skattárinu 1977 höfðu lægri vergar tekjur til skatts en 1 400 000 kr. miðað við einstakling og 1 800 000 kr. miðað við samsköttuð hjón, eða sambúðarfólk, enda hafi skattþegn ekki átt yfir 12 millj. kr. skuldlausa eign, ef um einstakling er að ræða, eða 18 millj. kr. skuldlausa eign, ef um samsköttuð hjón eða sambúðarfólk er að ræða.“

Efni þessarar till. er því það, að þessi skattlækkun, sem samþ, var í sambandi við eignarskattsaukann að skyldi ná til gamals fólks og öryrkja, nær einnig samkv. þessu til tekjulágra aðila, enda eru þá sett sömu eignarmörk hjá báðum aðilum, þ.e.a.s. að þessum lágtekjuhópum. Er þá gert ráð fyrir því, að einstaklingurinn eigi ekki meira en 12 millj. kr. skuldlausa eign, og ef um hjón er að ræða, þá eigi þau ekki meira en 18 millj. kr. skuldlausa eign, ef þau eiga að njóta þessarar skattlækkunar sem samþ. var við 2. umr. að ætti að ná til gamals fólks. En af því að þessi brtt. kemur þetta seint fram, þá verður að óska eftir afbrigðum um hana, og vil ég afhenda hæstv. forseta þessa tillögu.