18.12.1978
Neðri deild: 35. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1701 í B-deild Alþingistíðinda. (1223)

39. mál, kjaramál

Frsm. meiri hl. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Það var aðeins til þess að reyna að svara fsp. frá hv. þm. Matthíasi Bjarnasyni. Ég get ekki sagt nákvæmlega til um hvað þessi breyting mundi þýða mikla viðbótarskattalækkun. Hér voru gefnar upplýsingar um það, að fyrri till., sem hér var samþ., þar sem gert var ráð fyrir tiltekinni skattalækkun hjá þeim, sem eru 67 ára og eldri og öryrkjum, mundi lækka skattinn um 35 millj, kr. Talið var að ef till. frá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur yrði samþ. til viðbótar við þá till. mundi skattalækkunin verða í kringum 25–30 millj. þar að auki. Var því talið mjög líklegt þar sem þessir aðilar falla nokkuð saman, þessir lágtekjuhópar, að hér gæti verið um skattalækkun til viðbótar að ræða sem gæti verið 10–15, kannske upp í 20 millj. kr. En útreikningar liggja ekki fyrir um það og ekki auðvelt að sjá af þeim athugunum, sem fram hafa farið, hvað þarna væri um mikið að ræða. Þessir lágtekjuhópar falla skiljanlega talsvert mikið saman, þ.e.a.s. þeir, sem eru orðnir 67 ára og eldri, og þeir, sem eru í þessum tekjuflokki, sem tilgreindur er í tillögunni. Líklegt er talið að hér gæti verið um að ræða á milli 10 og 20 millj. kr. viðbótarlækkun við þær 35 millj. sem áður höfðu falist í lækkunartillögum nefndarinnar.