18.12.1978
Neðri deild: 35. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1701 í B-deild Alþingistíðinda. (1224)

39. mál, kjaramál

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Við 2. umr. þessa máls lá fyrir á þskj. 57 brtt, frá Jóhönnu Sigurðardóttur. Efni hennar var að draga nokkuð úr þessum nýju álögum, eignarskattsauka, á lágtekjufólk. Stjórnarliðið treystist ekki til að samþykkja þessa till. Þm. Sjálfstfl. greiddu henni atkv. og töldu leiðréttingu sem væri nokkurs virði. Svo fór um þingflokk Alþfl., að hann kom ekki fram í þessu máli sem 9 þingflokkar, það munu vera 9 þm. Alþfl. sem eiga sæti hér, hann skiptist aðeins í 4 hluta í þessu máli. Það voru tveir þm. Alþfl., einn auk flm., sem greiddu brtt. atkv., nokkrir sögðu nei, einhverjir greiddu ekki atkv. og einhverjir voru fjarstaddir, að því er fróðir menn töldu af því að þeir höfðu ekki áhuga á að vera viðstaddir afgreiðslu þessarar tillögu.

Einhverja bakþanka hafa menn fengið af þessari afgreiðslu, e.t.v. samviskubit. Ég skal ekkert um það segja, hvað gerst hefur hið innra með þeim, nema niðurstaðan varð sú, að mikill meiri hl. Alþfl. tók þátt í því ásamt hinum stjórnarflokkunum að fella svo sjálfsagða leiðréttingu fyrir lágtekjufólkið sem í þessari till. fólst. Sú till., sem nú hefur verið lýst, frá meiri hl. fjhn. er nokkuð í áttina við það sem till. Jóhönnu Sigurðardóttur fól í sér, gengur þó engan veginn eins langt, en má segja að hún sé til nokkurra bóta.

Ég mun ekki, vegna þess hve mál þetta hefur verið rætt hér ítarlega áður, ræða það frekar, en aðeins undirstrika það, að með þessu frv. er um verulegar nýjar skattaálögur að ræða með afturverkun í ríkara mæli en þekkst hefur áður hér á landi.