18.12.1978
Neðri deild: 35. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1703 í B-deild Alþingistíðinda. (1230)

140. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Áður en ég ræði nánar um frv. til l. um breyt. á l. um tekju- og eignarskatt, þskj. 190, vil ég gefa stutt yfirlit yfir þau mál sem lögð eru fram hér á hv. Alþ. í tengslum við afgreiðslu fjárl. Þau eru ýmist lagafrv. eða brtt. við lög.

Í fyrsta lagi er um að ræða breytingu á lögum um sérstakt tímabundið vörugjald, að lægri gjaldflokkur hækki úr 16% upp í 18%. Þetta eykur tekjur ríkissjóðs um 1150 millj. kr. á næsta ári. 30% gjaldflokkurinn verður óbreyttur, en málið í heild tekið til endurskoðunar á næsta ári. Þetta mál verður flutt af meiri hl. fjh.- og viðskn. Ed.

Breyting á frv. til l. um kjaramál um það að V. kafli, um sérstakt tímabundið vörugjald, falli brott, en sá kafli fjallar um 16% gjaldið. Verður þetta mál, eins og ég sagði áður, flutt af meiri hl. fjh.- og viðskn. Ed.

Frv. til l. um breyt. á l. nr. 8 frá 27. febr. 1976, um flugvallagjald, sem fjallar um það, að gjaldið hækki úr 3000 kr. í 5500 kr. fyrir fullorðna og úr 1500 kr. í 2750 kr. fyrir börn. Þetta mál verður einnig flutt af meiri hl. fjh.- og viðskn. Ed.

Frv. til l. um sérstakan skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði er á dagskrá þessarar hv. d., og mun ég gera nánar grein fyrir því síðar.

Fjvn. mun flytja brtt. um skattvísitöluna, að hún hækki úr 143 upp í 150 stig. Þetta þýðir um 2500 millj. kr. tekjurýrnun fyrir ríkissjóð á næsta ári og verður flutt af meiri hl. fjvn. eða e.t.v. af allri nefndinni.

Frv. til l. um breyt. á l. um tekjuskatt og eignarskatt er það mál sem hér er á dagskrá og kem ég að því hér á eftir. Frv. til l. um breyt. á l. um almannatryggingar. Breyting verður á sjúkratryggingagjaldi sem nú er 2% af gjaldstofni útsvara. Verður gjaldið 1.5% á gjaldstofn af fyrstu 3 millj. 450 þús, kr. tekjum hjá einstaklingum og 2% af því sem umfram er. Hjá samsköttuðum hjónum verður gjaldið 1.5% á gjaldstofn af fyrstu 4.6 millj. kr. og 2% af því sem umfram er. Þetta skerðir tekjur ríkissjóðs um 1450 millj. kr. Málið verður flutt af hæstv. félmrh. í Ed.

Frv. til l. um nýbyggingagjald er á dagskrá þessarar hv. d. og kemur nánar að því síðar.

Herra forseti. Frv. því til breyt. á l. um tekjuskatt og eignarskatt, sem hér er lagt fram til 1. umr. á þskj. 190, er ætlað að vera liður í þeim ráðstöfunum sem ríkisstj. beitir sér fyrir til að ná jafnvægi í ríkisbúskapnum á árinu 1979. Er megintilgangur þess að afla ríkissjóði aukinna tekna til að standa undir þeirri niðurfærslu verðlags, sem fólst í ráðstöfunum ríkisstj. í sept. s.l., og til að jafna það tekjutap, sem ríkissjóður verður fyrir vegna lækkunar skatta lágtekjufólks í framhaldi af fyrirheitum um það efni í 2. gr. laga nr. 103 frá 1978. Þar að auki felast í frv. þessu till. um nokkra skattalækkun til handa þeim er minnst mega sín í þjóðfélaginu í formi hækkunar skattfrelsismarka eignarskatts elli- og örorkulífeyrisþega og nýtingu ónýtts persónuafsláttar upp í sjúkratryggingagjald.

Við setningu brbl. nr. 96 frá 1978 voru lagðir tímabundnir skattar á eignir og tekjur, og í fjárlagafrv. fyrir árið 1979 var gert ráð fyrir ígildi þeirra á næsta ári. Það var hins vegar ljóst, að þeir yrðu vart lagðir á í óbreyttu formi á næsta ári, enda gafst svigrúm til að fella ígildi þeirrar skattlagningar inn í hið almenna skattakerfi.

Hinn 29. sept. s.l. skipaði ég n. þriggja þm. til að endurskoða tekjuskattslögin, og var lögð á það áhersla af minni hálfu að það yrði að vera meginverkefni n. í upphafi að gera till. um tekjuöflun til þess að ná jafnvægi í ríkisfjármálunum. Enn fremur fólst í erindisbréfi n. að þau markmið yrðu sett, að herða skuli skatteftirlit, þyngja skuli viðurlög við skattsvikum, gera verði sérstakar ráðstafanir til að koma í veg fyrir, að einkaneysla sé færð á reikning fyrirtæk ja og að skattleggja skuli gróða af sölu lands, sem ekki stafi af aðgerðum eiganda. Enn fremur verði stefnt að því, að sérstakur verðbólguskattur verði lagður á í þeim tilgangi að jafna tekju- og eignaskiptinguna í þjóðfélaginu. N. þessi vann ágætt starf á skömmum tíma og skilaði áfangaskýrslu hinn 11. des. s.l. Voru í þeirri skýrslu gerðar till. um ýmsar breytingar á tekjuöflun ríkissjóðs, og má segja að frv. þetta sé að verulegu leyti í samræmi við till. n. að'því er varðar þau markmið að ná jafnvægi í ríkisfjármálum.

Skýrsla skattalaganefndar er dags. hinn 11. des. s.l. Hefur því ekki unnist tími til þess að vinna úr fjölmörgum hugmyndum og till., sem fram koma í þessari skýrslu um aukið skattaeftirlit og skilvirkni í rannsókn og dómsmeðferð skattaafbrota, framkvæmd skattalaga, áhrif skattalaga á hagstjórn, hagræðingu og sparnað í ríkisrekstri og margt fleira sem fram kemur í skýrslunni. Ég vil flytja nm. þakkir fyrir störf þeirra og vonast til að hægt verði að halda áfram undirbúningi að bættri og betri skattalöggjöf, en framkvæmd skattalaganna er e.t.v. það sem mest ríður á.

Með frv. þessu er að því stefnt, að tekjuþörf ríkissjóðs vegna lækkunar skatta lágtekjufólks og vegna niðurfærslu verðlags verði mætt með álögum á þá aðila sem mesta greiðslugetu hafa í þjóðfélaginu. Greiðslubyrði þessara aðila þó ekki aukin verulega í reynd frá því sem nú er, þar eð álögum í frv. þessu er fyrst og fremst ætlað að koma í stað aðgerða í skattamálum á síðasta ári, þó að þær komi nú fram í öðru formi. Þannig kemur skerðing á fyrningarheimildum í stað skatts á hreinar tekjur og fyrningar í atvinnurekstri samkv. 10. gr. brbl. nr. 96 frá 1978. Nýtt 50% skattþrep einstaklinga og hækkun skatthlutfalls félaga kemur í stað skyldusparnaðar sem lagður var á svipaðan stofn á árinu 1978. Hækkun eignarskattshlutfalls kemur í stað eignarskattsauka í 8. gr. brbl. nr. 96 frá 1978. Þá er þess gætt, að aukin skattbyrði lendi einungis á þeim sem mesta greiðslugetu hafa. Skerðing á fyrningarheimildum og hækkun tekjuskattshlutfalls félaga eykur þannig einungis greiðslugetu þeirra rekstraraðila er besta afkomu hafa, og hið nýja 50% skattþrep leggst einungis á hátekjur. Skattbyrði almenns launafólks mun hins vegar verða mun minni en orðið hefði samkv. þeirri tekjuöflun sem ráðgerð var í fjárlagafrv., og munar þar mest um hækkun skattvísitölu og lækkun sjúkratryggingagjalds, en ákvæði 4. og 6. gr. frv. um lækkaðan útsvarsstofn og léttari eignarskatt á elli- og örorkulífeyrisþegum stefna í sömu átt.

Með 1. og 2. gr. er lagt til að fyrningarheimildir atvinnurekstrar verði skertar allverulega frá því sem nú er. Með 1. gr. er lagt til að heimild til verðstuðulsfyrningar verði felld niður. Heimild til verðstuðulsfyrningar, sem lögfest var 1972, var ætlað að stuðla að því, að afskriftir héldust nær raungildi hins upphaflega kostnaðarverðs fyrnanlegra eigna í verðbólgu. Að margra mati náði þessi heimild ekki tilgangi sínum, þar sem verðstuðulsfyrningin reiknast sem hlutfall af öðrum fyrningum og er því hæst á þeim árum sem reglulegar fyrningar eru næst því að vera á raungildi kostnaðarverðs, en fer lækkandi að raungildi eftir því sem eignir eldast og reglulegar afskriftir verða fjær raungildi. Þá er það verulegur galli á þessari fyrningu, að hún hefur engin áhrif á fyrningarstofn eigna og skerðir því ekki heimildir til fyrninga í framtíðinni eða hefur nein áhrif á útreikning söluhagnaðar.

Á árinu 1978 námu verðstuðulsfyrningar félaga samtals tæpum 4 millj. kr., en þar af voru verðstuðulsfyrningar félaga, er sýndu hreinar tekjur af atvinnurekstri, aðeins tæplega 1.5 milljarðar kr. Einstaklingar í atvinnurekstri notuðu samtals tæpar 900 millj. kr. til verðstuðulsfyrningar, og gera má ráð fyrir að hærra hlutfall þeirra hafi gengið á móti hreinum tekjum hjá einstaklingum en félögum. Miðað við þessar forsendur má ætla lauslega að niðurfelling verðstuðulsfyrningarheimildar gefi ríkissjóði um 1300 millj. kr. í auknar tekjur í formi hækkaðs tekjuskatts af atvinnurekstri á árinu 1979.

Með 2. gr. frv. er lagt til að heimild til flýtifyrningar verði með öllu felld niður að því er mannvirki varðar, en flýtifyrningarheimildin varðandi aðrar eignir, sem fyrna hefur mátt flýtifyrningu, lækki úr 30% í 10%, þannig að aldrei megi þó nota meira en 2% flýtifyrningu á einu ári. Heildarupphæð flýtifyrningar félaga nam á árinu 1968 tæpum 2 milljörðum 78 millj. kr., en hjá einstaklingum í atvinnurekstri nam hún rúmlega 810 millj. kr. Þar sem ekki má mynda rekstrarhalla með flýtifyrningu eða nota hana til frestunar yfirfærslutapa frá fyrra ári nýtist öll lækkun þessarar heimildar ríkissjóði til tekjuauka. Sú skerðing flýtifyrningar, sem lögð er til í 2. gr. frv., mun að líkindum færa ríkissjóði um 1060 millj. í auknar tekjur á árinu 1979, þannig að samtals ættu skerðingar fyrningarheimilda að leiða til hækkunar á tekjuskatti atvinnurekstrar um 2360 millj. kr. á næsta ári eða 400 millj. umfram þá tekjuöflun sem gert var ráð fyrir í fjárlagafrv. sem ígildi 10. gr. brbl, nr. 96 frá 1978.

Í 3. gr. frv. er lögð til tekjuöflun í stað þess 10% skyldusparnaðar sem lagður var á á þessu ári. Eins og kunnugt er á skyldusparnaðurinn að falla niður við n.k. áramót. Samkv. þessu bætist nýtt skattþrep við tekjuskattsstigann og er það 50% sem leggst á skattgjaldstekjur einhleypinga yfir 3 millj. 848 þús. kr., en á skattgjaldstekjur hjóna yfir 5 millj. 63 þús. kr. Miðað við meðaltalsnýtingu frádráttarheimilda felst í þessu að hið nýja skattþrep leggst að meðaltali á einhleypinga, sem hafa yfir 4 millj. 527 þús kr. í brúttótekjur, og á hjón, sem hafa yfir 6 millj. 751 þús. kr. í brúttótekjur. Er þá miðað við að skattgjaldstekjur einhleypinga séu að meðaltali 85% af brúttótekjum, en skattgjaldstekjur hjóna 75% af brúttótekjum. Í hinu nýja skattþrepi verða því einungis þeir sem betur mega sín í þjóðfélaginu. Er áætlað að tekjuauki ríkissjóðs af þessari breytingu verði um það bil 1850 millj. kr. á árinu 1979.

Í 4. gr. frv. er lagt til að ónýttur persónuafsláttur gangi til greiðslu sjúkratryggingagjalds áður en hann gengur til greiðslu útsvars. Þetta þýðir í reynd að sjúkratryggingagjald hinna allra tekjulægstu fellur niður. Þess ber þó að geta, að samkv. úrskurði ríkisskattanefndar nú í haust skyldi sjúkratryggingagjald ekki lagt á þá sem ríkissjóður greiðir útsvar að fullu fyrir með ónýttum persónuafslætti, og hefur sá úrskurður, sem reyndar er mjög umdeildur, svipaða þýðingu og þetta ákvæði.

Í forsendum fjárlagafrv. var við það miðað, að sjúkratryggingagjald yrði lagt á alla þá sem útsvar er lagt á, og frá þeim forsendum kostar þessi breyting ríkissjóð um 200 millj. kr. á næsta ári. Á árinu 1978 var lagður 10% skyldusparnaður á skattgjaldstekjur félaga að viðbættum varasjóðstillögum. Í 5. gr. frv. þessa er lagt til að í stað þessa skyldusparnaðar verði skatthlutfall félaga hækkað um 12%, eða úr 53% í 65%, en þar sem félögum yrði samkv. þessum till. heimilt að draga varasjóðstillag frá hreinum tekjum áður en skatturinn er reiknaður, felst ekki í þessari breytingu aukin greiðslubyrði félaga frá því sem var við reglulega álagningu á s.l. sumri. Ef tekið er tillit til heimildar félaga til að leggja 25% af hreinum tekjum í varasjóð, felst í þessari breytingu að virkt skatthlutfall félaga hækkar úr 39.75% í 48.75%. Er áætlað að tekjuauki ríkissjóðs af þessari breytingu verði 1200 millj. kr. á árinu 1979.

Í 6. gr. frv. er lagt til að skattfrelsismörk eignarskatts hækki sem samsvarar hækkun fasteignamats. Að öðru leyti er gert ráð fyrir að eignarskattsauki 8. gr. brbl. nr. 96/1978 verði sameinaður reglulegum eignarskatti og eignarskattsálagning á árinu 1979 verði hliðstæð því sem var í heild á þessu ári, en í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir þessari tekjuöflun.

Loks er lagt til, að skattfrelsismörk elli- og örorkulífeyrisþega verði 50% hærri en annarra gjaldenda eignarskatts, þannig að hjá einhleypingum verði þau 17.1 millj. kr., en hjá hjónum 25 millj. 650 þús. kr. Ætti með þessu að vera tryggt að gamalt fólk lendi ekki í eignarskatti ef það býr ekki í óhóflega stóru eða íburðarmiklu húsnæði.

Í bráðabirgðaákvæði frv. er tekinn af vafi um það, hvaða lagaákvæði varðandi framkvæmd skattlagningar og innheimtu gildi á næsta ári. Gildistökuákvæði laga nr. 40 frá 1978 miðaðist við upptöku staðgreiðslukerfis á árinu 1979, en staðgreiðslufrv., sem fyrir þinginu lá í vor, varð ekki að lögum eins og kunnugt er.

Það er samdóma álit þeirra aðila, sem að skattframkvæmd vinna og leitað hefur verið til, að ekki sé ráðlegt að miða gildistöku framkvæmdakafla laga nr. 40 frá 1978 við 1. jan. n.k., þar sem slík breyting krefst meiri undirbúnings en unnt er að koma við á svo skömmum tíma. Hins vegar er æskilegt að marka stöðu skattrannsóknastjóra skýrar en nú er gert og fá honum svipaða stöðu við rannsókn skattafbrota og rannsóknarlögreglustjóri ríkisins hefur við rannsókn almennra brota. Er að því stefnt, að frv. um þetta atriði ásamt nokkrum öðrum nauðsynlegum breytingum á framkvæmdakafla tekjuskattslaganna verði flutt á næsta ári.

Hér eru einnig á dagskrá tvö frv. um tekjuöflun, mál nr. 5 og mál nr. 6. Ég ætla að leyfa mér að ræða nokkuð um þessi mál bæði, en mun hafa mjög stutta framsögu um þau þegar þau verða rædd.

Vil ég víkja fyrst að frv. til l. um nýbyggingagjald á þskj. 189. Með því frv. er ætlað að leggja sérstakt gjald, nýbyggingagjald, á mannvirki sem meta skal fasteignamati samkv. lögum. Íbúðarhúsnæði er þó undanþegið gjaldskyldu. Svo og er ráðh. heimilað að undanþiggja ákveðnar tegundir mannvirkja gjaldskyldu. Tilgangur lagafrv. þessa er, eins og segir í aths. með því, tvíþættur. Í fyrsta lagi að afla tekna í ríkissjóð sem eru áætlaðar 300 millj. kr. á næsta ári. Í öðru lagi er að því stefnt að hamla gegn fjárfestingu í nýbyggingum og draga þar með úr þeim verðþensluáhrifum sem fylgja óheftri fjárfestingu. Í þessu sambandi er rétt að leggja áherslu á að það er stefna ríkisstj. að draga úr fjárfestingu á árinu 1979 og setja heildarfjármunamynduninni ákveðin takmörk. Það er nauðsynlegt, ef ná á árangri gegn verðbólgunni og tryggja jafnframt viðunandi lífskjör almennings, að draga úr þeirri geysilegu fjárfestingu og spennu sem hér hefur ríkt á undanförnum árum.

Lánsfjáráætlun ríkisstj., sem enn er til meðferðar, gerir ráð fyrir heildarfjármunamyndun á árinu 1979 sem nemur um 24.5% af þjóðartekjum.

Ég vil þá leyfa mér, herra forseti, að fara nokkrum orðum um 5. mál á dagskránni sem fjallar um sérstakan skatt á skrifstofu- og verslunarhúsnæði. Frv. þetta, sem er lagt fram á þskj. 188, er eitt af þeim mörgu málum sem flutt eru í tengslum við afgreiðslu fjárlagafrv. Með frv. er lagt til að á árinu 1979 verði lagður sérstakur skattur á skrifstofu- og verslunarhúsnæði er nemi 1.4% af fasteignamatsverði þessa húsnæðis, og er áætlað að tekjur ríkissjóðs af þessari skattlagningu nemi 550 millj. kr. á næsta ári.

Þegar núv. ríkisstj. tók við stjórnartaumum í sept. s.l. blasti við stórkostlegur vandi í efnahags- og atvinnumálum. Eitt af meginstefnumálum ríkisstj. í því sambandi var að marka breytta fjárfestingarstefnu. Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstj. er því lýst yfir, að fjárfestingunni skuli beint í tæknibúnað, endurskipulagningu og hagræðingu í þjóðfélagslega arðbærum atvinnurekstri. Sú gegndarlausa fjárfesting í skrifstofu- og verslunarhúsnæði, sem átt hefur sér stað á undanförnum árum, hefur ekki uppfyllt þessi markmið. Úr þessari fjárfestingu er þörf að draga. Sérstök skattlagning á verslunar- og skrifstofuhúsnæði mun að einhverju leyti sporna við þeirri þróun að menn verðtryggi fé sitt í slíkri fjárfestingu í stað þess að beina því í fjárfestingu hjá framleiðsluatvinnuvegunum. Að sjálfsögðu þurfa atvinnufyrirtækin á einhverri skrifstofuaðstöðu að halda. Þess vegna er í frv. gert ráð fyrir því, að sé sama eignin notuð undir skrifstofu eða verslun en einnig aðra starfsemi skuli hún einnig undanþegin þessum sérstaka skatti, ef 75% eða meira af rúmmáli hennar er notað undir aðra starfsemi en skrifstofu- og verslunarhúsnæði.

Stjórnarandstaðan hefur undanfarið lýst sig andsnúna hvers konar skattlagningu og sér þar á að hún þarf ekki að sjá fyrir fjármagni til að mæta nauðsynlegum ríkisútgjöldum á næsta ári. Þá hefur stjórnarandstaðan kvartað undan of lágum fjárveitingum til ýmiss konar þjónustu og framkvæmda. Ég hef marglýst því yfir, að ég vil ekki standa að því, að ríkissjóður verði rekinn með halla á næsta ári. En til þess að það markmið náist verður að afla tekna til að mæta útgjöldunum. Sú skattlagning, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, er því nauðsynleg m.a. af þessari ástæðu og hefur auk þess þá þjóðhagslegu kosti að stuðla að því, að menn beini fjármagni til uppbyggingar til nauðsynlegustu og þýðingarmestu framleiðslugreinanna.

Tölur um fasteignamat benda til þess, að gjaldstofn sé nálægt 50 eða 60 millj. kr., en 1.4% gjald mundi þá nema rúmlega 750 millj. kr. á ársgrundvelli. Ástæða er til að ætla að innheimta næsta árs gæti numið 550 millj. kr., eins og ég hef áður tekið fram.

Herra forseti. Ég vil svo leyfa mér að leggja til að frv. um breytingar á tekju- og eignarskatti verði vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.