18.12.1978
Neðri deild: 35. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1714 í B-deild Alþingistíðinda. (1232)

140. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Þau frv. til l., sem hér hafa verið kynnt, eru auðvitað í tengslum við fjárlagafrv. Alþfl. vill ekki tefja þinglega meðferð þessara mála. Hins vegar er ljóst að við höfum kynnt samstarfsflokkum okkar í ríkisstj. svo og öllum almenningi frv. til l. um jafnvægisstefnu í efnahagsmálum og samræmdar aðgerðir gegn verðbólgu. Flokksstjórn Alþfl. hefur samþykkt að fjárlagafrv. verði ekki afgreitt fyrr en frv. þessa efnis hafi verið samþ. Þm. Alþfl. mælast því til þess, að þessi tekjuöflunarfrv. verði ekki tekin til endanlegrar afgreiðslu fyrr en stefnan í efnahagsmálum til tveggja næstu ára hefur verið mörkuð og við höfum ákveðna stefnu og heildarmynd fyrir framan okkur.

Í frv. um jafnvægisstefnu í efnahagsmálum og samræmdar aðgerðir gegn verðbólgu er gert ráð fyrir allnokkurri hjöðnun fjárl. Það er stefna, sem er svo þekkt að vart þarf að lýsa, og vilji okkar er að allverulega verði dregið úr skattheimtu. Af þessum ástæðum m.a. og af ástæðum, sem oft hefur verið lýst og óþarfi er að tíunda, mælumst við til við samstarfsflokka okkar að þessi málsmeðferð verði viðhöfð.