18.12.1978
Neðri deild: 35. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1718 í B-deild Alþingistíðinda. (1246)

138. mál, skattur á skrifstofu- og verslunarhúsnæði

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Fyrst örfá orð vegna þess sem hv. 1. þm. Reykv., Albert Guðmundsson, sagði.

Það, sem við höfum sagt, er þetta: Við höfum mælst til þess við hæstv, fjmrh., eins og þessi mál eru öll í pottinn búin, að það fari ekki fram endanleg afgreiðsla um tekjuöflunarfrv. ríkisstj. fyrr en afstaða hefur verið tekin til frv. til l. um jafnvægisstefnu í efnahagsmálum og samræmdar aðgerðir gegn verðbólgu sem við höfum kynnt samstarfsflokkum okkar í ríkisstj. Það segir sig sjálft, að þau frv., sem hér eru til umr., tengjast mjög öllu fjárlagadæminu og þess vegna er ekki hægt að taka tillit til heildarmyndarinnar fyrr en við höfum fyrir framan okkur hvernig þessi pakki lítur út í heild sinni.

Alþfl. er í stjórnarsamstarfi við Framsfl. og Alþb. Það er bæði eðlileg og sjálfsögð kurteisi að þrautreyna við núverandi samstarfsflokka okkar, hvort þeir fallist ekki á það sem maður við fyrstu sýn mundi telja að væri sjálfsagt, þ.e. að lögbinda stefnuna og stefnumörkunina í efnahagsmálum til næstu tveggja ára áður en gengið er frá fjárlagadæminu í heild sinni. Nú kynni þetta að hafa verið ókurteislegt ef hér væri verið að kynna eitthvað nýtt, en svo er ekki. Þetta eru hugmyndir sem við höfum á löngum og ströngum fundum allt frá því um mitt sumar rætt við samningaaðila okkar. Það er varla stafkrókur í þessu frv. sem í sjálfu sér kemur á óvart. Þess vegna er minnstur vandi að aðhafast skjótlega, ganga frá þessu áður en gengið er frá tekjuöflun og fjárlagadæminu í heild sinni.

Hv. þm. Sverrir Hermannsson og Albert Guðmundsson töluðu um að það kynni að verða meiri hl. á móti fjárl. og á móti tekjuöflunarfrv. ríkisstj. á Alþ. Ég er ekki viss um þetta. Flokkarnir, aðrir en Alþfl., Sjálfstfl., Framsfl. og Alþb., hafa staðið að alls konar vafasömum ævintýrum á undanförnum árum. Ég minni aðeins á eitt, Kröfluvirkjun. Í því fjárlagadæmi, sem við erum nú að ganga endanlega frá, er fjármagnskostnaðurinn einn vegna Kröfluvirkjunar 2.5 milljarðar kr. sem skattborgararnir eiga að borga. Krafla veitir engum birtu og yl, en hún yljar kannske einhverjum undir uggum, sem er sitt hvað. Þessir þrír flokkar, ævintýra- og verðbólguflokkar sem hér er um að ræða, hafa staðið saman að Kröflu. Þeir hafa skipt með sér framkvæmdastjórastöðum í Framkvæmdastofnun og dreift þar ódýru lánsfé, svo að ég er ekki viss um nema meiri hl. sé með öðrum hætti í þinginu en hv. þm. Albert Guðmundsson og Sverrir Hermannsson gáfu í skyn.

Kjarni málsins er einfaldlega þessi: Það, sem Alþfl. hefur verið að gera og undirbúa allt frá 1. des., er einasta alvarlega tilraunin sem gerð hefur verið í íslenskum efnahagsmálum nú um margra ára skeið til þess að koma efnahagsmálunum á rétta kjöl á ný. Við getum ekki haldið því áfram að semja okkur áfram viku eftir viku og mánuð eftir mánuð. Við getum ekki leyft okkur þann munað að ganga frá fjárlagadæmi án þess að vita hvað næsta vika og næsti mánuður ber í skauti sér. Þessar leiðir erum við að þrautreyna við núverandi samstarfsflokka okkar, Framsfl. og Alþb. Og ég þykist viss um að þeir muni bera gæfu til og hafa til þess vit, þor og þrek að ganga að þessum till. okkar, ganga frá fjárlagadæminu með hliðsjón af því sem þeir hafa sjálfir lagt til í grg, með frv. 1. des., og þegar við afgreiðum þetta dæmi í heild sinni, þá höfum við fyrir framan okkur markaða stefnuna til tveggja næstu ára í öllum meginþáttum efnahagsmála. Talsmenn Sjálfstfl, hér þykjast ekki skilja upp né niður í þessum vinnubrögðum. Sér er nú hvert skilningsleysið satt að segja, því að ég fæ ekki betur séð en þetta sé bæði hið sjálfsagða og eðlilega framhald af aðgerðunum sem framkvæmdar voru 1. des. og þeim ágreiningi um vinnuaðferðir sem þá var uppi og var lýst í smáatriðum í þessari hv, d. Þetta er allt hið sjálfsagða og eðlilega framhald. Það er hvergi verið að koma aftan að neinum og allra síst samstarfsflokkum okkar í ríkisstj., vegna þess að hér er um að ræða útfærða grg. með frv. sem við allir þrír stóðum að 1. des. Það er aðeins spurning um það, að þetta sé útfært til tveggja ára og frá gengið með tryggingum. Ef ekki er svo staðið að, þá þykjumst við vita og vitum öll hér inni í hvert óefni mundi stefna á launamarkaði og annars staðar.

Allt þetta hygg ég að sé svo skýrt, að það lætur nærri að ætla að þeir sjálfstæðismenn, sem lítt þykjast skilja í hvað hér er að gerast, geri sér upp slíkt skilningsleysi. Ég veit að vísu að það hefur margt vafist fyrir þeim góðu herrum. En engu að síður hygg ég að þetta séu svo einföld mál að jafnvel talsmenn Sjálfstfl. skilji til hlítar. Hér er verið að reyna að setja efnahagsstefnu til tveggja ára. Það er snúið sér til samstarfsflokka okkar í ríkisstj. Þetta er framhald af því sem fyrirheit hafa verið gefin um. Þetta er svo sjálfsagt og eðlilegt, þetta eru svo sjálfsögð vinnubrögð og svo eðlileg að engin spurning þarf um það að vera út af fyrir sig. Hitt er aftur rétt, að það reynir á kjark og þrek og þor þeirra sem með okkur hafa starfað. Við vonum vissulega að það samstarf muni halda áfram eftir þeim fyrirheitum sem þegar hafa verið gefin. Til þess er þessi leikur gerður. Þjóðin á það beinlínis skilið, að með þessum hætti sé leikið og fram haldið, og þá mun horfa til betri vegar.