18.12.1978
Neðri deild: 35. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1720 í B-deild Alþingistíðinda. (1249)

139. mál, nýbyggingagjald

Fjmrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Þegar ég í morgun gerði grein fyrir frv. um breyt. á l. um tekju- og eignarskatt, þá gerði ég þetta frv. einnig að umræðuefni almennt séð. Ég vil þó leyfa mér að bæta hér við örfáum orðum og fara fáum orðum um einstakar greinar þessa frv. til l. um nýbyggingagjald.

Um 1. gr. er það að segja, að þar er gjaldskylda miðuð við skilgreiningu laga nr. 91 frá 1976, um skráningu og mat fasteigna, á þeim mannvirkjum sem meta skal fasteignamati, sbr. einnig reglugerðir sem settar hafa verið samkv. þeim lögum.

Í 2. gr. er fjmrh. heimilað með reglugerð að undanþiggja ákveðnar tegundir fasteigna gjaldskyldu. Sérstaklega skal tekið fram að gjaldið leggist ekki á sumarbústaði og bifreiðageymslur.

Um 3. gr. Samkv. 3, og 4, mgr. er Fasteignamati ríkisins ætlað það verkefni að áætla byggingarkostnað þeirra mannvirkja sem eru svo sérstæð að ekki verði miðað við þær meðaltalsreglur er greinir í 2. mgr. Á þetta m.a. við um öll mannvirki sem eru þess eðlis að rúmmetramáli verður ekki við komið, auk ýmiss konar annarra mannvirkja.

Um 4. gr. vil ég aðeins segja það, að eindagi gjaldsins miðast við útgáfu byggingarleyfis eða upphaf framkvæmda. Gert er ráð fyrir að teikningar að mannvirkjum verði lagðar fyrir innheimtumann ríkissjóðs vegna ákvörðunar gjaldsins auk annarra upplýsinga sem hann kann að telja nauðsynlegar í þessu skyni.

Heildarframkvæmdir við húsbyggingar eru áætlaðar um það bil 78.2 milljarðar á árinu 1979. Þar af eru íbúðarhús 43.6 milljarðar, en aðrar byggingar um 35 milljarðar. Erfitt er að áætla gjaldstofn nýbyggingagjalds út frá þessum heildartölum, en ætla má að stofninn sé 17–18 milljarðar kr. og mundi þá 2% gjaldtaka af þessari upphæð nema 350 millj. kr., og er áætlað að 300 millj. innheimtist á næsta ári.

Þar sem hér er um að ræða nýjan skatt er ástæða til að nefna það, að ekkert einsdæmi er að svona skattar séu lagðir á. Þeir hafa verið lagðir á í ýmsum löndum. Þeir hafa verið lagðir á svæðisbundið sums staðar, eins og t.d. í Bretlandi og e.t.v. víðar, þannig að þetta er ekki neitt einsdæmi, að lagður sé á sérstakur skattur þegar um er að ræða að reisa nýbyggingar.

Eins og ég tók fram í morgun, er annar höfuðtilgangur þessarar ákvörðunar að stuðla að því, að hægt verði á fjárfestingu í þeim tilgangi að draga úr þeirri miklu spennu sem hefur ríkt í þjóðfélaginu vegna of mikilla framkvæmda þegar á heildina er lítið.

Ég legg svo til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.