18.12.1978
Neðri deild: 35. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1723 í B-deild Alþingistíðinda. (1251)

139. mál, nýbyggingagjald

Fjmrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Það hefur verið rætt nokkuð um skattheimtuna, og er rétt að ég geri í örfáum orðum grein fyrir þeim breytingum sem gerst hafa í sambandi við nýja skatta með þeim till. sem nú liggja fyrir.

Varðandi beina skatta er þetta þannig, að áður en brbl. ríkisstj. frá því í sept. voru sett voru þeir 40% tekjuskattur, 11% útsvar, 2% sjúkratryggingagjald, samtals 53%, og síðan var skyldusparnaðurinn, sem ekki er skattur, til viðbótar á þessu ári, þannig að greiðsluskyldan var samtals 63%. Síðan kom hátekjuskatturinn samkv. brbl. í sept., þannig að alls er greiðslubyrðin á hæstu jarðarsköttum því 69% á þessu ári.

Nú er gert ráð fyrir að fella niður hátekjuskattinn, 6%, en innleiða skyldusparnaðarstofninn sem skatt í staðinn, þannig að þetta lítur þá þannig út, að það verður 50% hæsti tekjuskattur, 11% útsvar og 2% sjúkratryggingagjald, samtals 63%. Nú er þess að gæta, að þetta nýja skattþrep, 10%, leggst á mjög háar tekjur. Það leggst á tekjur einhleypinga brúttó, ef meðaltal er dregið, um 4.5 millj. kr. og á tekjur hjóna, ef einnig er miðað við meðaltal, 6 millj. 751 þús. kr. Hér er því raunverulega um að ræða hátekjuskatt eins og tekjum er háttað hér á landi.

Ég gerði í umr. hér í haust talsverðan samanburð á skattþunga hér á landi og í ýmsum öðrum löndum og gerði grein fyrir því þá, að skattþungi hér á Íslandi er miklu minni en hann er hjá öllum þeim þjóðum sem við gjarnan viljum bera okkur saman við. Ég gerði t.d. grein fyrir hlutfalli beinna skatta af þjóðarframleiðslu, ef miðað er við árið 1976, og þeir eru ekki nema 7.3% hér á Íslandi, í Noregi 16.6%, í Bretlandi 16.1%, í Finnlandi 20.6%, í Svíþjóð 23.7%, í Danmörku 26.5%, Bandaríkjunum 14%. Hér er á geysilega mikill munur eins og öllum hlýtur að vera ljóst.

Varðandi hlutfall beinna skatta af brúttótekjum heimila hér á Íslandi var þetta hlutfall árið 1977 10.6%, en í Noregi 33.9%. Hlutfall beinna skatta heimilanna samkv. fjárlagafrv. verður um 14.3%, en er í Noregi um 34%. Eitthvað hækkar þetta, en þó lítið, þannig að það er ljóst að þrátt fyrir þá skattlagningu, sem nú er verið að efna til, er hlutfall beinna skatta af brúttótekjum heimila hér á Íslandi miklu lægra en í þeim löndum sem við gjarnan berum okkur saman við. Í Danmörku er þetta hlutfall 29.3%, í Svíþjóð 35.6%, í Noregi um 34%, Finnlandi 30%, Bretlandi 24% og í Bandaríkjunum yfir 20%, en hjá okkur sennilega í kringum 15% þegar sá skattþungi bætist við sem nú er verið að leggja á, og er ég þá að tala um beina skatta.

Ég geri mér auðvitað grein fyrir því, að það er ekki sanngjarnt að bera þetta alfarið saman, og ég ætlast auðvitað ekki til þess, að mál mitt sé skilið þannig, að þetta sé einhlítur samanburður, vegna þess að það kemur margt fleira inn í þessa mynd. Eigi að síður eru þetta staðreyndir, miðað við þær upplýsingar sem komið hafa fram við athugun í Þjóðhagsstofnuninni og gerð hefur verið grein fyrir opinberlega af starfsmanni hennar.

Það mætti benda á það, að á þeim árum þegar Sjálfstfl. var kannske hvað valdamestur um langa hríð á viðreisnarárunum, þá fóru toppskattarnir, hæstu jaðarskattar, upp milli 62–63%. Ég held að það hafi verið 1968.

Ég sé ekki ástæðu til að efna til deilna um þetta, en vil aðeins taka fram í tilefni af þeim umr., sem urðu hér á fundi í morgun, að þegar tekið er tillit til samdráttaráforma ríkisstj., endurskoðaðrar tekjuáætlunar sem er að berast, en eins og kunnugt er er jafnan höfð við tekjuáætlun næsta árs hliðsjón af tekjuinnstreymi til ríkissjóðs á allra seinustu mánuðum viðkomandi árs, og nú er að berast nýjasta og endanleg tekjuáætlun fjárlagafrv. á næsta ári, endurskoðuð, — þegar þetta er haft í huga, þá geri ég ráð fyrir að þeirri meginstefnu, sem kemur fram í 1. gr. fjárlagafrv., verði náð. Þar er gert ráð fyrir 7.2 milljörðum í tekjuafgang. Að vísu koma fram í 1. gr. 8 milljarðar 200 millj. kr., en gert er ráð fyrir að ráðstafa einum milljarði til framkvæmda, þannig að sú stefna, sem fjárlagafrv. boðar, er tekjuafgangur upp á 7.2 milljarða. Ég geri ráð fyrir því, eins og ég sagði, þegar höfð er hliðsjón af þeim samþykktum sem gerðar eru í ríkisstj. um heildarafgreiðslu fjárl., tekjuöflun í sambandi við þau, þá verði þessari stefnu náð í öllum megindráttum.

Hv. þm. Friðrik Sophusson beindi til mín spurningum varðandi 5. gr. í lögum um tekjustofna sveitarfélaga. Ég vil aðeins upplýsa í þessu sambandi, að það er að sjálfsögðu ætlunin að sett verði reglugerð um þessi mál öll og ég vil ekki gefa nú neinar yfirlýsingar um hvað verður undanþegið í þessum efnum. En ég geri ráð fyrir því, að það verði tekið eðlilegt og sanngjarnt tillit til stofnana eins og kirkna, sjúkrahúsa og fleiri stofnana af því tagi, eins og tilhneiging hefur verið til og venja í sambandi við lagasetningar um mál sem ber að eins og þetta mál.