18.12.1978
Efri deild: 35. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1737 í B-deild Alþingistíðinda. (1288)

39. mál, kjaramál

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Það frv., sem hér liggur fyrir, er til staðfestingar á brbl. um kjaramál sem út voru gefin 8. sept. s.l. Frv. hefur gengið í gegnum hv. Nd. og hefur tekið þar tveimur meginbreytingum, sýnist mér. Koma þær brtt. fram á þskj. 221, ef það þskj. er borið saman við upphaflega frv. Sé ég ekki ástæðu til þess að víkja að þeim brtt. sérstaklega nema þá um leið og að þeim kemur.

Það er öllum kunnugt, að þegar núv. ríkisstj. var mynduð um mánaðamótin ágúst–sept., þá blasti við fjölþættur vandi í efnahags- og atvinnumálum sem dregist hafði að leysa þar sem stjórn sat hér við völd sem þegar hafði sagt af sér og aðeins gat sinnt nauðsynlegum afgreiðslustörfum, en ekki markað pólitíska stefnu. Rekstri og afkomu fyrirtækja, einkum í sjávarútvegi, var ógnað og hafa mörg þeirra þegar stöðvað rekstur og sagt upp starfsfólki, en önnur hugðust leggja niður rekstur í lok ágústmánaðar. Þannig blasti við stöðvun atvinnurekstrar og atvinnuleysi hafði þegar gert vart við sig og var þannig vegið að undirstöðum þjóðarbúsins. Samtímis var ókyrrð á vinnumarkaði. Bar því brýna nauðsyn til að ríkisstj. gripi þegar í stað til ráðstafana er tryggt gætu áframhaldandi rekstur atvinnuvega, atvinnuöryggi og frið á vinnumarkaði. Jafnframt var nauðsynlegt að fyrstu aðgerðir stjórnvalda á sviði efnahags- og kjaramála veittu nokkurt svigrúm til að hrinda í framkvæmd nýrri efnahagsstefnu og öðrum langtímamarkmiðum ríkisstj., eins og gert var ráð fyrir í samstarfsyfirlýsingu ríkisstj.

Fyrsta skrefið var stigið með útgáfu brbl. 1. sept. um tilhögun verðbótagreiðslna á laun í septembermánuði, til þess að ríkisstj. hefði ráðrúm til þess að undirbúa frekari ráðstafanir í efnahagsmálum. Hefur hv. d. þegar fjallað um það mál. Hinn 5. sept. var síðan tekin ákvörðun um nýja gengisskráningu, ráðstöfun gengishagnaðar o.fl. Hefur hv. d. sömuleiðis afgreitt það mál. Síðasta skrefið í þessum fyrsta áfanga var svo stigið með útgáfu brbl. um kjaramál 8. sept. s.l., en í þeim lögum er að finna flestar þeirra ráðstafana sem getið var um í samstarfsyfirlýsingu flokkanna þriggja og töldust til fyrstu og brýnustu aðgerða ríkisstj.

Þessar ráðstafanir, sem ríkisstj. varð að grípa til á fyrstu starfsdögum sínum, verður vitaskuld fyrst og fremst að líta á sem bráðabirgðaráðstafanir til þess ætlaðar að mæta bráðum vanda í atvinnumálum þjóðarinnar. Með þessum aðgerðum hefur skapast tóm til undirbúnings nýrrar stefnu í efnahagsmálum, þar sem horft er til lengri tíma í senn en fárra mánaða. Ríkisstj. hefur frá upphafi lagt á það ríka áherslu að hafa náið samráð við aðila vinnumarkaðarins um skipun launa- og kjaramála, og brbl. um kjaramál voru einmitt sett eftir að slíkt samráð hafði átt sér stað.

Í stuttu máli er meginefni þeirra brbl., sem hér er leitað staðfestingar á, eftirfarandi: Í I. kafla laganna eru kaupgjaldsákvæði laga um ráðstafanir í efnahagsmálum frá í febr. og brbl, frá í maí 1978 felld niður, en í lögum þessum var greiðsla verðbóta á laun almennra launþega skert. Brbl. kveða hins vegar á um að greiða skuli fullar verðbætur samkv. kjarasamningum á þau mánaðarlaun sem námu allt að 200 þús. kr. í des. 1978, en það svarar til u.þ.b. 235 þús. kr. í ágúst s.l. Á mánaðarlaun, sem eru hærri, komi síðan sama krónutala og á 235 þús kr. launin. Með þessum ákvæðum taka kjarasamningar að nýju gildi fyrir allan þorra launþega, en það þýðir m.a. að umsamin hlutföll yfirvinnu og dagvinnu, bónusgreiðslna, kauptaxta o.fl. taka yfirleitt aftur gildi.

Í I. kafla laganna er loks ákvæði um að grunnkaup og tilhögun verðbóta skuli haldast óbreytt eins og það er nú ákveðið frá 1. sept. þar til um annað verður samið. Ríkisstj. hefur í hyggju að leita eftir samkomulagi við samtök launafólks um skipan launamála fram til 1. des. 1979 á þeim grundvelli að samningarnir frá 1977 verði framlengdir til þess tíma án breytinga á grunnkaupi og í því sambandi verði samningsréttur opinberra starfsmanna tekinn til endurskoðunar. Að þessu hefur verið unnið, en ekki er hægt að segja að nein ákvörðun liggi enn fyrir í þessu efni.

Áhrif brbl. á hækkun launa 1. sept. voru þau, að eftir að allri hækkun verðbótavísitölu frá 1. júní hafði verið eytt með niðurgreiðslu vöruverðs og niðurfellingu söluskatts á matvælum hækkuðu laun að meðaltali um 9–9.5%. Þar af stafa 3–3.5% af grunnkaupshækkun, en um 6% stafa af gildistöku nýju samninganna. Þessi hækkun er nokkuð misjöfn og meiri til þeirra, sem höfðu meiri skerðingu verðbóta fyrir. Meðalhækkunin 1. sept. var svipuð í krónum og verið hefði samkv. brbl. sem fyrri ríkisstj. setti í maí, en hér munar því, að auk launahækkunar í krónum hefur verð á nauðsynjum nú verið greitt niður og söluskattur felldur niður af matvörum sem svarar 7.5% í verðbótavísitölu og kemur því launþegum til góða í lækkuðu vöruverði.

Í II. kafla laganna er ákveðið að bætur almannatrygginga skuli hækka í sama mæli og um leið og laun verkamanna í sept. og des. Hér er verið að tryggja að lífeyrisþegar njóti tafarlaust sömu hækkana á framfærslueyri og verkamenn hafa þegar samningar þeirra taka gildi að nýju.

Í III. kafla eru ákvæði um niðurfærslu og verðlagseftirlit. Ákvæði þessa kafla veita ríkisstj. heimild til aukningar niðurgreiðslna um 4.9% af verðbótavísitölu eins og hún var fyrir gildistöku laganna. Þessi heimild var þegar notuð. Áætlað er að þessi aukning niðurgreiðslna svo og auknar niðurgreiðslur 1. des. s.l. muni kosta ríkissjóð um 3 milljarða og 350 millj. kr. fram að áramótum og að öllu óbreyttu um 12 800 millj. kr. á næsta ári. Hér er, eins og menn vita, fyrst og fremst um að ræða auknar niðurgreiðslur á helstu nauðsynjavörum heimilanna, þ.e. á mjólk, kjöti, smjöri og fleiri landbúnaðarafurðum. Auk þessarar aukningar niðurgreiðslna er fjmrn. veitt heimild til niðurfellingar sölugjalds á matvælum, og var þessi heimild notuð, svo sem kunnugt er, og kom til framkvæmda 15. sept. s.l. Má heita nú að öll matvæli, að undanteknu sælgæti og gosdrykkjum, séu undanþegin sölugjaldi.

Niðurfelling sú, sem ákveðin var á sölugjaldi af matvælum, svarar til 2.6% lækkunar verðbótavísitölu og var talið að hún mundi kosta ríkissjóð um 1400 millj. kr. tekjutap til áramóta. Með þeirri niðurfærslu verðlags, sem lögin ákváðu, var verðbótavísitalan lækkuð til sama stigs og hún var í júní s.l.

Í þessum kafla laganna eru loks sett ákvæði um verðstöðvun og lagt bann við því, að verð vöru, þjónustu og leigu sé hækkað frá því sem það var 9. sept. s.l. nema samkv. leyfi verðlagsyfirvalda og sérstöku samþykki ríkisstj. Þetta ákvæði tekur jafnt til einkaaðila og opinberra aðila. Þá var og hundraðshluti verslunarálagningar lækkaður frá og með 11. sept. s.l. sem svarar því, að leyfð hefði verið álagning á 30% þeirrar hækkunar álagningarstofns sem leiddi af gengisbreytingunni 5. sept. s.l. Þessari reglu, þ.e. „30% reglunni“, hefur oft verið beitt áður við gengisbreytingar á undanförnum árum, enda þykir óeðlilegt að álagning kaupmanna í krónum aukist sjálfkrafa sem nemur allri gengislækkuninni.

Svo er í IV. kafla ákvæði um eignarskattsauka, sérstakan tekjuskatt og sérstakan skatt á tekjur af atvinnurekstri til þess að standa undir kostnaði af niðurfærslu vöruverðs samkv. III. kafla. Þessi ákvæði skýra sig nú nokkuð sjálf og ég sé ekki ástæðu til að fara mjög mörgum orðum um þau, en vil undirstrika að þessi álagning er aðeins gerð til þess að mæta og standa undir kostnaði til næstu áramóta af auknum niðurgreiðslum vöruverðs og tekjumissi vegna niðurfellingar söluskattsins.

Skattarnir eru sem sagt í fyrsta lagi eignarskattsauki, sem lagður er á álagðan eignarskatt gjaldársins 1978, og nemur hann 50% af eignarskatti einstaklinga, en 100% af eignarskatti innlendra félaga og erlendra. Við tekjuskattsálagningu er eignarskattsaukinn frádráttarbær frá tekjuskatti félaga eins og eignarskattar, m.a. þess vegna þótti rétt að hafa hann hálfu hærri á félög en einstaklinga.

Í öðru lagi er svo sérstakur hátekjuskattur lagður á einstaklinga. Skattur þessi leggst á þær skattgjaldstekjur manna af öðru en atvinnurekstri sem eru umfram ákveðin mörk, en þau eru mismunandi eftir fjölskyldustærð. Skatturinn er 6% af tekjum fyrir ofan þau mörk sem í lögunum greinir.

Í þriðja lagi er svo sérstakur skattur lagður á tekjur af atvinnurekstri. Skattur þessi er 6% eins og hátekjuskatturinn og leggst á hreinar tekjur af atvinnurekstri áður en fyrningar eru dregnar frá. Hafi skattaðili orðið fyrir rekstrartapi á liðnum árum, sem heimilt er að draga frá tekjum við álagningu á þessu ári, skal það tap einnig koma til frádráttar þessum tekjustofni. Tekjur af atvinnurekstri eru þannig skilgreindar í reglugerð, að sanngjarnt mat á eigin vinnu atvinnurekenda er fært til gjalda áður en skattur þessi er reiknaður. — Ég hygg að sú breyting hafi verið gerð á þessari grein við meðferð málsins í Nd., að tekjuskattur, sem nær ekki samkv. þessum tölul. laganna 15 þús. kr., fellur niður.

Um innheimtu þessara nýju skatta gilda að sjálfsögðu almennar reglur. Um álagningu og innheimtu skattanna, kærur og því um líkt, gilda sömu reglur og annars samkv. lögum um tekju- og eignarskatt.

Í V. kafla laganna eru ákvæði um breytingu á lögum um sérstakt tímabundið vörugjald.

Allt frá árinu 1975 hefur verið innheimt sérstakt tímabundið vörugjald af ýmsum vörum. Vörugjald þetta hefur verið mismunandi hátt frá einu tímabili til annars, lægst 12%, hæst 18%. Við gildistöku þessara brbl. var það 16%. Sú breyting er gerð með brbl. þessum, að vörugjaldinu er skipt í tvo gjaldflokka, annars vegar 16% eins og verið hefur að undanförnu og hins vegar 30% á nokkrum vörutegundum, og tók sú hækkun gildi þann 9. sept. s.l. Hér er í raun og veru ekki um nýtt gjald að ræða, heldur breytingu á gjaldi sem þegar hefur verið til. Eins og hv. þdm. vita, hefur verið gerð till. um breyt. á lögum um sérstakt tímabundið vörugjald, þar sem gert er ráð fyrir að almenna reglan, ef svo má segja, verði 18% í staðinn fyrir 16%. Mun sú breyting vera til meðferðar hér í deildinni.

Þegar lög þessi voru sett voru á kreiki ýmsar sögusagnir um það, á hvaða vörur þetta 30% gjald væri lagt. Þær hafa verið leiðréttar síðan. Ég sé því ekki ástæðu til þess að fara að gera grein fyrir því, að það var byggt á misskilningi að gjaldið legðist á sumar tilteknar vörur.

Í VI. kafla er um að ræða að það er lagt 10% gjald á ferðagjaldeyri, en jafnframt því var hámark ferðagjaldeyris hækkað til muna. Gjald þetta er ekki lagt á yfirfærslur námsmanna, sjúklinga eða áhafnagjaldeyri. Þessi skattlagning hefur nokkuð verið gagnrýnd, en ég sé ekki ástæðu til þess að fara að svara þeirri gagnrýni, a.m.k. ekki fyrir fram.

Svo er loks í VII. kafla ákvæði um heimild til lækkunar ríkisútgjalda 1978. Er heimilað að lækka þau um allt að 2 milljörðum. Það var fyrir heimild í lögum að lækka þau um 1 milljarð, en í lögum þessum var bætt við 1 milljarði. Hitt er svo annað mál, hvort þessi lækkunarheimild nýtist eða ekki. Ég hygg að ekki muni vera hægt að gera ráð fyrir því, að hún geti komið til framkvæmda á þessu ári, þar sem svo var langt liðið á árið þegar hún kom til greina og búið að ákveða framkvæmdir, gera samninga og annað því um líkt. Ég býst við því, að það verði af þeim sökum erfitt að ná þeirri fjárhæð sem þarna er þó veitt heimild til. En um það skal ég ekki fullyrða á þessu stigi, það mun koma í ljós síðar.

Í lokakaflanum, VIII. kaflanum, eru ákvæði um gildistöku o.fl. Ég sé ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um frv. sjálft, enda hafa lög þessi verið allmikið rædd opinberlega manna á milli og flestum mun ljóst efni þeirra. Ég skal ekki hafa þessa framsögu lengri, herra forseti, en mælist til þess, að frv. verði að lokinni þessari 1. umr. vísað til 2, umr. og hv. fjh.- og viðskn.