24.10.1978
Sameinað þing: 7. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 118 í B-deild Alþingistíðinda. (129)

324. mál, varnir gegn mengun af völdum bandaríska hersins

Forseti (Gils Guðmundsson):

Ég vil aðeins að gefnu tilefni rifja það upp sem e.t.v. er ekki við að búast að ungir þm. séu búnir að læra til fullnustu, en í þingsköpum eru ákveðnar reglur um fyrirspurnatíma, þann tíma sem mönnum er ætlaður sem hámark í fsp.-tíma. Það eru 5 mínútur tvisvar sinnum sem fyrirspyrjandi hefur, ráðh. hefur 10 mínútur í tveimur umferðum og aðrir ræðumenn, hvort sem eru þm. eða ráðh., aðrir en viðkomandi ráðh., hafa aðeins tvær mínútur tvisvar sinnum. Forsetar hafa, vegna þess hve fsp. eru margar og rúmfrekar, lagt nokkra áherslu á að ekki væri farið að ráði yfir þessi mörk. Sumir hv. þm., jafnvel hinir eldri, ég og fleiri, höfum staðið í þeirri meiningu, að því er mér finnst stundum, að það sé skylda þm. að nota þessar tvennar 5 mínútur t.d. sem fyrirspyrjendur hafa og skylda ráðh. að nota tvisvar sinnum 10 mínútur. Þetta er mesti misskilningur líka. Það er engin þörf á því. Ef menn geta orðið stuttorðari, þá er það áreiðanlega í mörgum tilvikum vel þegið. En ég vildi aðeins að gefnu tilefni rifja þetta upp í allri vinsemd, þar sem nú eru margir nýir þingmenn og engin von til að þeir séu búnir að læra öll þingsköpin á fyrstu dögum þings. Þetta er ekki mælt vegna næsta hv. ræðumanns, hann kann þau. Það er hv. 9. þm. Reykv. sem tekur til máls.