18.12.1978
Efri deild: 35. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1742 í B-deild Alþingistíðinda. (1290)

39. mál, kjaramál

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Það er auðvitað langt frá því, að það sé rétt hjá hv. síðasta ræðumanni, að það frv., sem hér er til meðferðar, sé eina sameiningartákn stjórnarflokkanna — þeirra flokka sem standa að núv. ríkisstj. Þeir flokkar eiga sér mörg sameiningartákn og eru tengdir traustum böndum. Þeir hafa skrifað undir mikla samstarfsyfirlýsingu, sem þeir ætla sér að koma í framkvæmd. Þeir hafa raunar þegar komið öllum þeim bráðabirgðaaðgerðum, sem um er talað í þessari samstarfsyfirlýsingu, í framkvæmd. En jafnframt er í þessari ítarlegu samstarfsyfirlýsingu gert ráð fyrir því, að upp verði tekin breytt efnahagsstefna. Það var fullt samkomulag um það í sambandi við afgreiðslu á lögum um tímabundnar ráðstafanir til viðnáms gegn verðbólgu að setja fram og undirstrika aftur þau meginmarkmið sem stefnt yrði að með þeirri breyttu efnahagsstefnu, og það gefur auga leið og er eðlilegt að hver og einn stjórnarflokkanna hafi hugleitt þessi mál að undanförnu. Í sjálfu sér er ekkert óeðlilegt við það og góðra gjalda vert að einn þeirra hafi verið svo duglegur að semja beinlínis frv. um þetta. Það frv. er og verður auðvitað til skoðunar hjá hinum samstarfsflokkunum.

Við í Framsfl. höfum hugleitt þessi mál mikið. Við höfum starfandi sérstaka efnahagsnefnd t.d. Auðvitað tekur hún þetta frv., sem hefur komið frá Alþfl., til ítarlegrar skoðunar. Eftir áramótin verða öll þessi mál tekin til úrvinnslu, auðvitað í samræmi við það grundvallaratriði samstarfsyfirlýsingarinnar að haft skuli samráð við aðila vinnumarkaðarins. Það dettur því engum í hug, að ég ætla í stjórnarflokkunum að frv. um efnahagsmál, sem inniheldur kjarnaatriði efnahagsmálanna, verði lagt fyrir hv. Alþ. og afgreitt þar af þessum flokkum án þess að aðilum vinnumarkaðarins hafi gefist kostur á að sjá það, tjá sig um það, lýsa skoðun sinni á því. Hitt höfum við að vísu aldrei sagt, að við mundum ekki gera neitt nema þessir aðilar samþykktu það. En við höfum lofað því að hafa samráð við þá og auðvitað stöndum við við það fyrirheit. Þess vegna er ekki hægt að fresta afgreiðslu fjárl. með tilliti til þess frv. sem flokksstjórn Alþfl. hefur samþykkt, enda hefur það ekki verið lagt þannig fram í ríkisstj. né heldur verið túlkað á neinn hátt í mín eyru að það væri á nokkurn hátt úrslitakostir. En hitt er það, að það er margt — ekki alveg allt kannske — í þessu frv. sem er í samræmi við það sem sagt er í grg. frv. til l. um tímabundnar ráðstafanir gegn verðbólgu.

Auðvitað er það svo, að t.d. ég hef lagt fram vissar till. í ríkisstj. varðandi framtíðina, og það er ekki víst að sumar till. í frv. Alþfl. gangi eins langt í sumum efnum og mín hugsun og mín bókun. En ég hef ekki þann sið að segja frá bókunum á ríkisstjórnarfundum vegna þess sem þar fer fram. Það er trúnaðarmál.

Ég held að ég geti svalað náttúrlegri kvenlegri forvitni hv. síðasta ræðumanns með því að segja, að mér sýnist núna allt vera í besta lagi með samstöðuna. Ég varð ekki annars var en fjárlagafrv. rynni ljúflega í gegn við 2. umr., og ég á ekki von á því, að því mæti óyfirstíganlegur þröskuldur fyrir 3. umr., enda er skammur tími til stefnu. Ég hef skilið og skil Alþfl. svo, að hann muni fylgja þessu fjárlagafrv. og muni ekki fara að efna til stjórnarslita út af ágreiningi um það, enda væri slíkt heldur óheillavænlegt, því að hvað sem að öðru leyti má segja um þessa stjórn, þá hefur hún haft samráð við aðila vinnumarkaðarins, og það má segja að eftir það samráð hafi hún sett löggjöfina um tímabundið viðnám gegn verðbólgu þar sem verðbótavísitala var færð niður mjög verulega. Það átti ekki að vera bótalaust. Launþegar áttu að fá bætur fyrir það. Þeir hafa fengið þær sumar, en þeir hafa ekki enn fengið þær allar. Það væri bjarnargreiði, vil ég segja, ef einhver af samstarfsflokkunum ætlaði sér að fara frá málinu hálfkláruðu, eftir að hafa þannig fengið launþegasamtökin til þess að þota þá skerðingu sem þau hafa þolað. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á að slíkir menn finnist innan stjórnarflokkanna, því að það vil ég segja, að það jaðraði við blekkingu gagnvart þeim samtökum sem við hefur verið talað.

Mér sýnist ekki vera nein ástæða til þess að halda að það sé brotalöm á þessu samstarfi eins og stendur. Hitt veit hv. síðasti ræðumaður mætavel, að mey skal að morgni lofa, en veður að kvöldi, og auðvitað getur alltaf viljað til að veður breytist fljótt. En eins og er siglum við áfram hraðbyri og gerum ráð fyrir því að ljúka þingstörfum fyrir jólin, í síðasta lagi á Þorláksmessu, kannske fyrr ef allt leikur í lyndi, sem ég vona að verði. Ég held þess vegna að hv. síðasti ræðumaður þurfi ekki að hafa sérstakar áhyggjur af því að það komi nein uppstytta í þetta stjórnarsamstarf að svo stöddu.