18.12.1978
Efri deild: 35. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1743 í B-deild Alþingistíðinda. (1291)

39. mál, kjaramál

Jón G. Sólnes:

Herra forseti. Ég skal ekki verða til þess að tefja meðferð þessa frv. við þessa umr., en mig langar þó til þess við 1. umr. að láta koma fram nokkrar aths.

Meginmál þessa frv. felst í 1. gr., þar sem felld eru úr gildi lög um efnahagsráðstafanir frá því í febrúar. Til þess að létta störf fjh.- og viðskn., sem fær væntanlega þetta mál til meðferðar og ég á sæti í, vildi ég gjarnan beina þeim tilmælum til hæstv. forsrh., að okkur í fjh.- og viðskn. yrðu útveguð einhver gögn um það, hvernig þessi mál stæðu hjá þjóðinni ef sú stefna hefði fengið að ráða sem sett var í febrúarlögunum og breytt var með brbl. frá því í maí. Ég er nefnilega enn þeirrar skoðunar, að með þeim ráðstöfunum, sem gerðar voru, þeim tvennum lögum sem ég hef minnst á, hafi verið framkvæmdar mildustu aðgerðir gagnvart launþegum landsins, en um leið árangursríkustu, til þess að bæta efnahagsástand þjóðarinnar og þá umfram allt til þess að stemma stigu við hinni ógnlegu verðbólgu. Ég er þeirrar skoðunar, að ef þessum ráðstöfunum, sem gerðar voru af fyrrv. stjórn, hefði verið mætt með jafnmiklum skilningi og jafnmikilli velvild og stjórnir launþegasamtakanna hafa tekið þeim ráðstöfunum sem gerðar voru af núv. hæstv. ríkisstj., þá hefði málið litið allt öðruvísi út.

Það er margt sem ástæða er til að gera að umræðuefni, sem vekur tortryggni og vekur efasemdir hjá manni um að verði til góðs í sambandi við þau margvíslegu ákvæði sem felast í þessu frv. Ég vil ekki tefja tíma hv. d. með því að fara nánar út í það. En það eru margir ágætir aðilar, sem eru þess umkomnir, vel umkomnir af fræðilegum ástæðum að láta í ljós álit sitt á þessum málum, sem hafa fundið ákvæðum þessa frv. margt til foráttu. Ég vil í þessu sambandi benda á að einn hæfasti fulltrúi Framsfl. í þessu máli hefur nú t.a.m. farið þeim orðum um eitt ákvæðið í væntanlegum aðgerðum ríkisstj. í skattamálum, að hann kallaði það „sullumall“. Ég held að það sé margt fleira þess háttar sem felist í þessu frv. og komi einnig til með að fljóta með í þeim frv. sem búið er að boða og leggja fram um fjáröflun til að standa undir þeim mismunandi aðgerðum sem þurft hefur að gera af hálfu ríkissjóðs í sambandi við niðurgreiðslurnar, og ég efast ekki um að við hefðum gjarnan þurft að athuga þessi mál betur.

Núv. hæstv. ríkisstj. hefur mjög hælt sér af því, hversu náið samráð hafi verið haft við aðila vinnumarkaðarins. Ég vil í tilefni af þeim margendurteknu ummælum og skoðunum, sem komið hafa fram, geta þess, að fyrrv. ríkisstj. hafði vissulega samráð við aðila vinnumarkaðarins. Ég vonast til að hæstv. núv. forsrh., sem átti sæti í fyrrv. ríkisstj., sé mér sammála um að gerð hafi verið mjög einlæg og heiðarleg tilraun af ríkisvaldsins hálfu, fyrrv. ríkisstj., til að hafa samráð við launþegasamtökin. Hitt er svo annað mál, að sú hugsun kemur mjög ofarlega í huga manns, að mismunur á fyrrv. og núv, ríkisstj. sé kannske sá, að núv. ríkisstj. hefur aðgang að þeim öflum sem geta haft í frammi pólitíska misnotkun á launþegasamtökunum. Það er kannske það sem núv. ríkisstj. hefur fram yfir hina fyrri, að það er nærri því sama hvað hún býður launþegasamtökunum, þá þykir þeim það ágætt af því að það fellur einhvern veginn í kramið hjá forustumönnum launþegasamtakanna, af því að þessi stjórn eigi að heita vinveitt launþegasamtökunum, þá megi hún nærri því bjóða fólki hvað sem er.

Herra forseti. Eins og ég tók fram í upphafi máls míns mun ég ekki verða til þess að tefja fyrir framgangi eða afgreiðslu þessa máls. En ég vil eindregið mælast til þess að okkur verði útveguð skýrsla eða skilagrein um það, hvernig þessi mál hefðu staðið hjá þjóðinni ef lögin og ráðstafanirnar, sem fólust í febrúar- og maílögunum, hefðu fengið að halda gildi sínu.