18.12.1978
Efri deild: 35. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1746 í B-deild Alþingistíðinda. (1294)

39. mál, kjaramál

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. hefur tamið sér í seinni tíð að tala í orðskviðum. Hann gat þess að vísu ekki, að á skammri stund skipast veður í lofti, en það er a.m.k. mjög ljóst, ef rétt er það sem hæstv. forsrh. sagði sem ég hef vitaskuld ekki ástæðu til að efa, að stjórnarflokkarnir hafi mörg sameiningartákn og séu tengdir traustum böndum. Að vísu er ekki þar með sagt að sambúðin sé mjög góð eða þessi bönd veiti mikla hamingju, því að — svo að ég tali í stíl hæstv. forsrh.: „Sá bindur hlekkur harðast, er höndin frjáls sér bjó.“ Hæstv. forsrh. gekk ekki tilneyddur til þessa leiks, en samt finnst mér nú af ræðu hv. 3. þm. Norðurl. e. að það muni líka vera rétt sem segir, að „guð mun ráða hvar við dönsum næstu jól“. Ég mun nú láta þessum orðskviðum og tilvitnunum lokið í bili, en hins vegar vitna til nokkurra atriða sem hæstv. forsrh. gat um í ræðu sinni.

Hæstv. forsrh. gat þess, að þessi ríkisstj. boðaði breytta efnahagsstefnu, í till. Alþfl. væri boðuð breytt efnahagsstefna, Framsfl. hefði efnahagsnefnd og þar mundi frv. Alþfl.-manna verða athugað. Ég verð að segja það, að mér finnst umfjöllun þessa frv. vera einstaklega furðuleg. Um frv. er að ræða sem hefur verið gert opinbert fyrir landslýð, en þó ekki lagt fram á Alþ. Það hefur verið lagt fram í Alþýðublaðinu og síðan er því vísað til nefndar í Framsfl. Og svo kemur hv. 3. þm. Norðurl. e. og segist bíða eftir að stjórnarflokkarnir skýri frá því, hver afstaða þeirra sé. Ég hélt að það þyrfti ekki að kenna selnum að synda — mig langar svo mikið til að nota einhver „orðsprok“ í ræðu minni. Ég hélt ekki að það þyrfti að segja hv. Alþfl.-þm. að einfaldasta leiðin til að komast að raun um þetta allt saman er einungis að leggja frv. fram á Alþ. Þeir hljóta að geta komið frv. fram sem mikilvægur flokkur í stjórnarstuðningi — í stjórnarandstöðu reyndar líka ef svo heldur sem horfir. Þeir hljóta að geta komið því fram, að frv. verði rætt og því vísað til n. Þingnefnd verður þá að taka afstöðu og stjórnarflokkarnir komast ekki hjá því að gera afstöðu sína opinbera. Þetta er hin einfalda og þinglega meðferð. En miklu seinlegra er að leggja frv. fram í Alþýðublaðinu, vísa því til nefndar í Framsfl. og sitja svo hér og bíða fram yfir jól eftir að einhver afstaða kunni að koma fram frá hinum flokkunum.

Það er að vísu önnur ástæða fyrir þessu, fólgin í því sem allir stjórnarflokkarnir eiga greinilega sammerkt. Það gekk fram af ræðu hæstv. forsrh., að stjórnarflokkunum finnst ekki aðeins óeðlileg aðferð, heldur algerlega óviðeigandi að leggja sum lagafrv. fram á Alþ. áður en aðrir fjalla um þau. Þannig er nú stjórnarfarinu komið í landi okkar. Hæstv. forsrh. sagði, þegar hann fór orðum um samráð ríkisstjórnarflokkanna um aðild vinnumarkaðarins, að enginn skyldi láta sér detta í hug að þessir flokkar færu að leggja frv. um kjarnaatriði efnahagsmálanna fyrir Alþingi, án þess að það yrði lagt fyrir aðila vinnumarkaðarins fyrst. Það er ágætt að hafa samráð við aðila vinnumarkaðarins, sjálfsagt og gott, en þegar hæstv. forsrh. landsins talar um það eins og hverja aðra fjarstæðu að láta sér detta í hug að leggja fyrir Alþ. fyrst allra aðila frv. um kjarnaatriði efnahagsmálanna, þá finnst mér að við verðum að staldra dálítið við og hugsa um stöðu Alþingis í ríkinu, hvaða hlutverk er Alþingi ætlað.

Hitt er svo annað mál, að það, sem hæstv. forsrh. sagði um samráð við aðila vinnumarkaðarins, er þess eðlis að ekki munu allir þeir, sem teljast til aðila vinnumarkaðarins eða eru forvígismenn launþega, geta á það fallist að við þá hafi verið haft samráð. Ég man ekki betur en það hafi komið fram, að mikilvægur aðili vinnumarkaðarins hafi aðeins einu sinni setið fund samstarfsnefndar ríkisstj. Sá fundur fjallaði eingöngu um það, hvernig þessu margnefnda samráði skyldi hagað. Þessi aðili var Vinnuveitendasamband Íslands. Nú nýlega má segja að þetta samráð hafi verið með nokkrum hætti framkvæmt, því að þá voru fulltrúar Vinnuveitendasambands Íslands og Vinnumálasambands samvinnufélaganna boðaðir á fund hæstv. félmrh. Þar voru þeim afhent sex frv. um félagslegar umbætur sem búið var að kynna í ríkisstj. Ég veit ekki hvort þetta er almennt í samræmi við þær hugmyndir sem hv. stjórnarflokkar hafa um samráð við aðila vinnumarkaðarins, en ég efast um að sá sé skilningurinn í þeim hópum.

Ég hlýt að segja það annars um mál hæstv. forsrh., að það var ágætt að heyra það skýrt og skorinort af hans munni, að það væri mikil eindrægni og ákveðin stefna innan hæstv. ríkisstj. og ákveðið alveg hvernig yrði að málum staðið nú á næstunni. Enn fremur var gott að heyra að þingi yrði ekki frestað seinna en á Þorláksmessu. Má þó segja að síðast talda atriðið sé í samræmi við það sem við bjuggumst við. Alla vega er ljóst að hæstv. forsrh. hefur náð saman hópnum sínum, svo sundurleitur sem hann er, og það má teljast afrek út af fyrir sig. Og það er ágætt fyrir okkur í stjórnarandstöðunni a.m.k. að vita um það. Þá vitum við nokkurn veginn hvað Alþ. er að fara með störfum sínum þessa dagana, en það var ekki ljóst í upphafi fundar og þess vegna spurði ég.

Hins vegar virðist dálítið annað uppi á teningnum eftir ræðu hv. 3. þm. Norðurl. e. Hann hafði skilið það, sem fram hafði komið hjá Alþfl., með sama hætti og ég og ýmsir fleiri, hafði nánar tiltekið skilið þessa afstöðu þeirra gagnvart fjárlagafrv. núna annars vegar og spurningar þeirra um afstöðu samstarfsflokka þeirra til tillagna — ég kann ekki við að kalla það frv., — tillagna Alþfl. um efnahagsmál. Hann hafði í raun skilið þessar tillögur sem úrslitakosti að því er varðaði fylgi við fjárlagafrv. Ljóst er því, að það var mjög mikil þörf á skýringu hæstv. forsrh., og það er í raun og veru þörf enn frekari skýringar, virðist mér, eftir mál hv. 3. þm. Norðurl. e. En það kann að vera misskilningur. Um það segja auðvitað Alþfl.-menn sjálfir fremur en ég. Hitt er svo annað mál, að ég get ekki annað en tekið undir visst sjónarmið sem hv. 3. þm. Norðurl. e. setti fram, og ég tek fram eins og hann, að þar er vissulega um persónulegt sjónarmið að ræða og kann vel að vera að aðrir séu á allt annarri skoðun. En ég tel eins og hann að það væri miklu skikkanlegri máti á þingstörfum að reyna að ná betur saman þeim endum, sem menn virðast vera ráðnir í að hafa lausa fram yfir jól, og koma sér saman um ákveðnari og röggsamari afgreiðslu mála, þótt ekki yrði fyrr en í janúar. Mér sýnist af orðum hv. 3. þm. Norðurl. e., að það sé í raun svo að ógert sé ýmislegt sem er alveg nauðsynlegt til þess að geta með sæmilegu móti staðið að afgreiðslu fjárl. hér á Alþ. og annarra mikilvægra efnahagsmála eins og nú stendur. Fyrir mitt leyti tel ég ekki ámælisvert, eins og á stendur, þótt afgreiðslan dragist fram yfir áramót. Við eðlilegar aðstæður er það ámælisvert, en ég tel það skiljanlegt nú og þó heldur skárra en það sem við horfum fram á.