18.12.1978
Efri deild: 35. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1751 í B-deild Alþingistíðinda. (1296)

39. mál, kjaramál

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Í upphafi vil ég víkja að spurningu hv. þm. Ragnhildar Helgadóttur um kjaramálafrv. það sem liggur hér fyrir. Hún spurði beinnar spurningar, hvaða afstöðu Alþfl. hefði til þess, og nefndi þetta eitt af sameiningartáknum þessarar ríkisstj. Þessi ríkisstj. hefur, eins og hæstv. forsrh. benti á, mörg sameiningartákn og Alþfl. mun s já til þess, að þetta frv. fái eins fljóta afgreiðslu og unnt er.

Hins vegar kvartaði hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir yfir því, að frv. Alþfl. til l. um jafnvægisstefnu hefði ekki verið lagt fram á Alþ., og furðaði sig á því. Það er óþarfi að furða sig á því. Við erum aðilar að ríkisstj. og það eru sjálfsögð vinnubrögð og sjálfsögð kurteisi við samstarfsflokka okkar að gefa þeim tækifæri til að kynna sér hugmyndir okkar í efnahagsmálum. Við stöndum með þessari ríkisstj. og styðjum hana. Það frv., sem hér hefur orðið tíðrætt um, er lagt fram innan ríkisstj. til að hinir flokkarnir geti tekið afstöðu til þess og út úr því komi sameiginleg heildarstefna.

Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson nefndi áðan að hann tryði því ekki, að flokkarnir mundu ekki standa við gefin loforð gagnvart verkalýðsforustunni. Ég get fullvissað hv. þm. um að Alþfl. stendur við sín loforð. Einnig má geta þess, að ekki er ágreiningur um tekjuöflunarfrv., eins og hann réttilega benti á. Hins vegar, og það er aðalatriðið í þessu máli, liggja ekki fyrir nein loforð frá hæstv. ríkisstj. um að afgreiða fjárl. fyrir jól.

Hæstv. forsrh. Ólafur Jóhannesson tók vel í þetta frv. okkar Alþfl.-manna, drap á nokkur atriði, en sagði, eins og við vissum fyrir, að þetta þyrfti að kanna ítarlega af hinum flokkunum áður en af yrði.

Fjárl. eru ekki aðalatriðið hjá okkur í þessu máli. Það hefur verið drepið á það hér í þingsölum, að unnt væri að aðlaga fjárl. þessum svokallaða „pakka“ okkar og með því mundi Alþfl. gera sig ánægðan með þetta og samþykkja fjárl. fyrir jól. Það eru hins vegar ekki fjárl. sem skipta höfuðmáli. Það, sem við erum að fara fram á, er að það verði mótuð heildarstefna í fleiri málum. Þar eru mörg atriði, sem skipta máli, eins og fjárfestingar, peningamál og kjaramál.

Þessi ríkisstj. hefur tvívegis áður í efnahagsaðgerðum sínum verið í miklu tímahraki. 1. sept. vofði atvinnuleysi yfir og það varð að taka mjög skjótar ákvarðanir. 1. des. voru stórfelldar verðlagshækkanir fram undan og þá þurfti líka að taka skjótar ákvarðanir, svo að ekki vannst þá tími til að leggja þá grundvallarstefnu sem við höfum reyndar verið að tala um frá því í sumar. Það, sem við höfum gert, er að við unnum upp úr grg. með frv. frá 1. des. og leggjum niðurstöðurnar fram innan ríkisstj. í þeirri von og í þeirri fullvissu, að það komi heilsteypt stefna út úr þessu, því að við setjum ekki fram þetta frv. sem neina úrslitakosti.

Efni frv. þarf að fara, eins og hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson benti á, gegnum margar stofnanir innan flokks hans. Hæstv. forsrh. Ólafur Jóhannesson gat þess, að sérstök nefnd væri að fjalla um þetta mál innan Framsfl., og það er vel. Við vonum að það verði hafin strax viðræða við Alþfl. og þessir þrír flokkar komi saman og ræði um þessi mál á grundvelli þessa frv. Það er mat okkar, að þetta frv. okkar sé góður grundvöllur fyrir þessa ríkisstj.

Ég vil benda á það, og sagði það reyndar áðan, að það er ekki heilagt boðorð, að fjárlög verði afgreidd fyrir jól, enda hefur enginn úr hæstv. ríkisstj., að ég held, sagt berum orðum á Alþ. að fjárlög ætti að afgreiða fyrir jól. Hæstv. forsrh. nefndi áðan að við mundum ljúka þingstörfum fyrir jól, en hann sagði ekki að fjárlög ætti að afgreiða fyrir jól, enda eru mörg dæmi þess að fjárlög séu afgreidd eftir jól.

Í sambandi við fjárl. má einnig nefna það, að lánsfjáráætlunin er ekki tilbúin og stendur hvort sem er ekki til að afgreiða hana fyrr en eftir jól, þannig að það eru nokkuð margir endar enn þá lausir í því efni.

Það, sem við erum að fara fram á, er að þessi ríkisstj. taki sér tíma í þrjár vikur, — það er ekki mikið sem við erum að fara fram á, — taki sér tíma í 3–4 vikur til að ræða efnahagsmálin á breiðum grundvelli með því markmiði að geta komið fram með stefnumörkun þegar þing kemur samari að loknu jólaleyfi.

Alþfl. stendur heils hugar í þessu samstarfi og það er hann að sýna með þessum aðgerðum. Þó svo að sjálfstæðismenn telji, að við séum kannske að hlaupa út undan okkur, og langi til að koma til hinna, þá fer því víðs fjarri. Við teljum að við séum að styrkja þessa ríkisstj. með þessum aðgerðum okkar, þær séu liður í því, að þessi ríkisstj. verði við völd vonandi nokkuð mörg ár í viðbót.

Það, sem við förum fram á með þessu frv., er að leggja góðan grundvöll að samstarfi um þessa stefnu. Það er ósk okkar að jólaleyfið verði notað til þess. Það tekur 3–4 vikur að fjalla um þetta í öllum stofnunum innan flokkanna. Eins og hæstv. forsrh. hefur bent á, eru fjölmörg atriði sem framsóknarmenn hafa við þetta frv. að athuga, finnst í einhverjum atriðum ekki gengið nógu langt. Þetta eru atriði sem sjálfsagt þarf að ræða milli allra flokkanna. En það er skoðun okkar, að að loknu jólaleyfi gefist tækifæri til að afgreiða fjárlög við 3. umr. samhliða stefnumótun fyrir árið 1979 og lengur. Við vonum að sú leið verði farin nú síðustu dagana fyrir jól. Þessi ríkisstj. er ekki undir sömu tímapressunni og hún var 1. sept. og 1. des. Það er skoðun okkar, að við getum tekið okkur eilítið meiri tíma en áður til ráðagerða. Það hefur komið fyrir, að fjárlög hafi ekki verið afgreidd fyrir jól. Við mundum telja það æskilegt í þessari stöðu.