18.12.1978
Efri deild: 35. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1754 í B-deild Alþingistíðinda. (1298)

39. mál, kjaramál

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Það gerist stundum að mikill reykur stigur upp af litlum eldi — ég veit ekki hvort það er ímyndun eða hvort fleiri hv. þm. hafa fundið dularfulla lykt hér inni í salnum. Hún var einna líkust lykt af sprunginni hvellhettu eða púðurkerlingu. En mér er sagt að einhver hv, þm. úr Nd. hafi púað pípu af svona miklum móð inni í hliðarherbergi. Ekki veit ég hvort er réttara. En svo mikið er víst, að niðurstaða þessara umr. virðist vera sú, að öll sú fyrirhöfn, sem Alþfl. hafði af smíði hugverksins umrædda, virðist eiginlega vera unnin fyrir gýg eða a.m.k. ekki ná þeim tilgangi sem fram gengur af ræðum Alþfl.-manna sumum að fyrir þeim hafi vakað, og þá hlýtur manni að detta í hug að Alþfl.-mönnum sé farið eins og fjöllunum sem tóku jóðsótt með alkunnum árangri.

Hv. 3. þm. Norðurl. e. sagði í ræðu sinni áðan, að afgreiðsla frv. þessa efnis hlyti að vera krafa Alþfl. og Alþfl. biði eftir því, að stjórnarflokkarnir tækju afstöðu og létu vita áður en fjárlagafrv. væri afgreitt. M.ö.o.: ef afstaða til þessa frv. eða hugverks Alþfl.-manna liggur ekki fyrir, þá verður engin fjárlagafrumvarpsafgreiðsla. Mér sýnist þetta liggja í augum uppi af orðum þess hv. þm.

Ég verð nú, þótt það sé einkennilegt hlutskipti, að taka að mér að bera sáttarorð á milli hv. 3. landsk. þm., Ólafs Ragnars Grímssonar, og hv. 5. þm. Reykn., Karls Steinars Guðnasonar, því að ég skildi orð hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar alls ekki svo, að hann teldi þetta hugverk ekki koma sér neitt við eða kæmi það alveg í opna skjöldu, heldur þvert á móti sagði hann, eins og góðum, grandvörum og íhaldssömum borgara sæmdi: Við verðum auðvitað að sýna þessu hugverki þá virðingu að það fái ítarlega, grandgæfilega skoðun. Það gæti tekið margar vikur. — Og það gæti vel verið að athugun á því liggi fyrir einhvern tíma á árinu 1980, ég veit það ekki. (ÓRG: Skilningur hv, þm. er réttur, en forsendurnar rangar.) En niðurstaðan og inntakið í ræðu hv. 3. landsk. þm. var hið sama og í orðum frægs bónda hér á fyrri tíð sem sagði: Allt orkar tvímælis þá gert er. — Og það var fyrst og fremst þetta sem hv. þm. þótti um hugverk þeirra Alþfl.-manna. Hann vildi láta það fá grandgæfilega skoðun og öllu grandgæfilegri en þau frv. sem hann vill sem óðast afgreiða frá Alþ. fyrir jól. Hefur e.t.v. gefist skemmri tími til að athuga þau sum hver en hann ætlar til athugunar á frv. Alþfl.-manna. Ég get því miður ekki fjallað um það mál, enda hef ég ekki þskj. í höndum, það fer svo mikið fyrir Alþýðublaðsmöppunni, svo að um það tel ég ekki fært að fjalla málefnalega.

Hins vegar tel ég að það hefði fyllilega verið viðeigandi þegar rætt er um stjfrv. um þessi mál, — frv. sem snertir allan efnahagspakkann — að ræða líka um þessar till. Alþfl. Ég er þeirrar skoðunar, að margt sé í þeim mjög nýtilegt og skynsamlegt. Ég hef hins vegar ekki haft forsendur til þess fremur en stjórnarstuðningsmenn að skoða þetta nægilega gaumgæfileg til þess að geta tekið afstöðu alfarið með því eða alfarið móti því. En vissulega er þetta svo samanslungið allt saman, að mér þykir ekki ósanngjarnt að þetta geti fengið skoðun samtímis.

Fyrst eindrægnin er svona mikil í stjórnarliðinu, þá skil ég ekki hvers vegna einn stjórnarflokkurinn er settur í þessa erfiðu aðstöðu. Þeir hafa með skringilegum hætti og ærinni fyrirhöfn birt þetta frv. alþjóð, en að þurfa svo að klingja því öllu saman í heilu lagi svona rétt fyrir jólin — það finnst mér ill meðferð á samstarfsflokki. Að öllu samanlögðu er þó a.m.k. ljóst, að nú veit stjórnarandstaðan hve fast stjórnarflokkarnir standa saman og að á þeim er greinilega enginn bilbugur og næstum enginn skoðanamismunur í liði þeirra.