24.10.1978
Sameinað þing: 7. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 118 í B-deild Alþingistíðinda. (130)

324. mál, varnir gegn mengun af völdum bandaríska hersins

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Ég skal nú reyna að fylgja þingsköpum og vænti þess þá að aðrir geri það líka. Þó að sá tími sé nú liðinn sem ég á að svara fyrir utanrrn., þá finnst mér ég tæpast geta hlustað á jafnmikinn misskilning og fram kom í máli hv. síðasta ræðumanns án þess að reyna að gera tilraun til þess að benda honum á það rétta í þessum málum. Mér er auðvitað alveg ljóst að það, sem gert hefur verið síðan 1972, þarf miklu lengra mál en svo, að gerð verði grein fyrir því á tveim mínútum. Ég er fús til að eiga orðastað við þennan hv. þm. um það sem gert var á Keflavíkurflugvelli þann tíma sem ég var í utanrrn., en það verður auðvitað ekki hægt núna.

Þegar hv. þm. úr því kjördæmi þar sem málin, sem verið er að ræða, eiga heima, telur að ekki hafi verið gert neitt í öryggismálum frekar en öðrum málum á Keflavíkurflugvelli síðan 1972, að þrír vitringar úr Njarðvíkurhreppnum settu saman skýrslu, þá get ég ekki unað við þá upplýsingastarfsemi hans. Á þessum tíma hefur öryggi á Keflavíkurflugvelli verið aukið svo að hann er nú í hópi þeirra flugvalla sem öruggastir eru í veröldinni. Þetta ætti hv. þm. að vita. Þetta var gert með margvíslegu móti, fyrst og fremst kannske með því að lengja þverbraut sem var alger nauðsyn til þess að flugvélar gætu lent hér við viss veðurskilyrði. Í öðru lagi hefur öryggisútbúnaður á Keflavíkurflugvelli verið stórlega aukinn, bæði með ljósabúnaði og öðrum slíkum tækjum sem nauðsynleg teljast. Ég held að það væri ráð fyrir hv. þm. a.m.k. Reykjaneskjördæmis að gera sér ferð á Keflavíkurflugvöll til þess að kynnast því, hvað þar hefur verið gert á undanförnum árum. Sumir þeirra hafa gert það, það er mér kunnugt um, en aðrir bersýnilega ekki. Í þriðja lagi er verið að reisa hér nýtísku flugturn, sem er langt komið að byggja og mun enn auka öryggi á Keflavíkurflugvelli. Margt fleira mætti nefna.

Að því er snertir þau vatnsból, sem hér hafa verið nefnd og eru í Njarðvík eða á því svæði, þá var sett til að athuga þau þriggja manna nefnd, ekki þessara þriggja Njarðvíkinga, heldur sérfróðra manna sem skiluðu áliti, og það álit er til í utanrrn. Það álit tel ég sjálfsagt fyrir hv. síðasta ræðumann að verða sér úti um og kynna sér áður en hann tekur næst til máls á Alþingi um mengunarvarnir á þessu svæði.