18.12.1978
Efri deild: 35. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1757 í B-deild Alþingistíðinda. (1300)

39. mál, kjaramál

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Nokkrar örstuttar aths. út af ræðu hæstv. menntmrh. Það er prentvilla í 2. gr. Þar á að standa „1978“ og er eiginlega augljóst, þannig að við þurfum ekki að ræða mikið um það. Það er talað um í þeirri grein að skera framkvæmdafé niður um 10% miðað við árið á undan. Eins og dæmið lítur út núna þyrftum við að strekkja aðeins á lánsfjáráætluninni til að ná þessu markmiði.

Hins vegar er það ekki alveg rétt, sem kom fram í máli hæstv. ráðh., að Alþfl. heimti af samstarfsflokkum sínum að þeir taki afstöðu til þessa veigamikla pakka okkar á örfáum dögum fyrir jól. Það hefur ekki verið hugsað þannig, heldur að við gefum samstarfsflokkum okkar auðvitað eins langan tíma og þeir vilja. Það kom fram í umr. áðan, að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson áætlaði að þetta færi í gegnum stofnanir í flokki hans á 4–5 vikum. Það er alveg eftir okkar hugmyndum líka. Það tekur þessa málsmeðferð svo langan tíma að fara í gegnum marga flokka. Sjálfsagt kæmu þessir 14 punktar Alþb., sem hæstv. ráðh. drap á, inn í þá mynd, þegar rætt er um heildarstefnuna.

En ég vil benda á í sambandi við fjárl. og lánsfjáráætlun, að á fjárl. eru ákveðnar framkvæmdir upp á 17 milljarða, en í lánsfjáráætlun eru ákveðnar framkvæmdir upp á 25 milljarða. Enn þá hafa þm. ekki fengið að kanna lánsfjáráætlunina almennilega. Þannig er full ástæða til þess að þessi tvö atriði, lánsfjáráætlun og fjárlagafrv., fari saman og þá í víðara samhengi. Þetta er það sem við leggjum til með því að afgreiða fjárlög ekki í hasti rétt fyrir jólin. Hæstv. menntmrh. er það skynsamur maður, að hann er ekki að bíta í sig heilög boðorð eins og að fjárl. verði að afgreiða fyrir jól. Þau hafa, eins og ég benti áðan á, oft verið afgreidd seinna. Það segja mér þingreyndari menn hér, að komið hafi fyrir að slíkt hafi dregist fram í apríl í eitt skipti. (RA: Hvenær var það?) Ég hef ekki ártalið, en mér var sagt í hliðarherbergjum hússins að svo hafi verið eitt árið. En ég sel það ekki dýrara en ég keypti það, úr því að það koma fram mótmæli. Hins vegar breytir það ekki því, að það er ekkert höfuðatriði hvort fjárl. eru afgreidd núna síðustu vikurnar fyrir jól, þótt okkur langi öll í jólafrí, eða hvort það dragist fram yfir áramót, á meðan við erum að ná samstæðri stefnu, sem ég efast ekki um eftir undirtektum við einstök atriði, bæði hjá hæstv. forsrh. og einnig hæstv. menntmrh., þó að við vitanlega gerum okkur ljóst að þarna eru fjölmörg atriði sem við þurfum að ræða nánar um og við erum reiðubúnir til þess hvenær sem er.