18.12.1978
Efri deild: 36. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1761 í B-deild Alþingistíðinda. (1313)

91. mál, biðlaun alþingismanna

Frsm. 3. minni hl. (Ólafur Ragnar Grímsson):

Herra forseti. Það hefur komið hér fram, eins og flutningur þriggja álita úr n. ber með sér, að hún hefur klofnað í afstöðunni til þessa máls.

Það hefði vissulega verið æskilegra með tilliti til þeirrar gagnrýni, sem víða verður vart við, bæði utan og innan þings, á kjörum þm. og samanburði á þeim við kjör annars staðar í þjóðfélaginu, að þetta mál hefði verið betur undirbúið. Það má færa að því ýmis rök, að það hefði kannske verið annar tími betur til þess kjörinn að gera þessar breytingar heldur en þessi. Það eru í sjálfu sér ekki sérstakar ástæður nú til þess að gera í þessu efni breytingar. Hins vegar mun þetta mál hafa verið rætt innan þings á síðasta kjörtímabili, a.m.k. í þfkn., og þar myndast sá skilningur sem að nokkru leyti mótar þetta frv. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar, að í þessu frv., eins og það liggur fyrir, sé of langt gengið. Ég tel að sú sex mánaða regla, sem þar er sett fram, sé óeðlileg, bæði í sjálfu sér og kannske einkum og sér í lagi í samanburði við þær reglur sem gilda annars staðar í þjóðfélaginu. Jafnframt tel ég að sá formgalli sé á frv., að þar er ekki tekið skýrt fram, að greiðsla þessara biðlauna eigi að miðast við reglur um þingfararkaup. Það væri hugsanlegt að leggja þann skilning í frv., eins og það liggur nú fyrir, að menn gætu fengið laun greidd annars staðar, eins og ýmsir fyrrv. þm. fá nú, og jafnframt fengið greitt fullt þingfararkaup. Ég tel aftur á móti eðlilegt og rétt í alla staði, að ef biðlaun eru á annað borð greidd, þá sé tekið tillit til þess, líkt og gert er nú, hvort þm. eru í öðrum launuðum störfum, þótt það sé nú látið í hlut þeirra sem greiða þau laun, — þannig sé komið í veg fyrir þann möguleika að menn geti verið á fullum tvöföldum launum við það að fá biðlaunin.

Ég ætla ekki að ræða þær skoðanir sem hv. þm. Eyjólfur K. Jónsson setti fram. Það er hvorki staður né stund til þess að ræða þær hér. Ég tel þó að ekki megi vera sú skipan á þessum málum að útilokað sé að menn helgi sig þingstörfum eingöngu. Það má ekki setja þessi mál þannig upp, að þeir menn, sem kjósa að helga sig þingstörfum eingöngu, geti ekki gert það og hafi til þess launakjör að geta framfylgt þeirri ákvörðun sinni. Ég tel hins vegar eðlilegt að mönnum sé veitt viss aðstaða til þess að nýta þann umþóttunartíma, sem hæstv. fyrrv. forsrh. Bjarni Benediktsson kallaði svo, þegar menn láta af þingstörfum og áður en þeir taka til fullra starfa á öðrum vettvangi. Ég hef þess vegna kosið að flytja brtt. sem taki mið af þessum tveimur sjónarmiðum sem ég hef lýst, brtt. á þskj. 219, sem annars vegar kveður á um að biðlaunin skuli miðast við 3 mánuði eingöngu, en jafnframt miðist þau við almennar reglur um þingfararkaup.