24.10.1978
Sameinað þing: 7. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 119 í B-deild Alþingistíðinda. (132)

324. mál, varnir gegn mengun af völdum bandaríska hersins

Gunnlaugur Stefánsson:

Forseti. Örstutt aths. vegna ummæla fyrrv. utanrrh., hv. þm. Einars Ágústssonar. Það, sem ég var að leggja áherslu á í ræðu minni, var að svar utanrrh., sem líklega er byggt á skýrslu Páls Ásgeirs Tryggvasonar, sýndi að það hefði ekki verið haldið á þessu máli á þann hátt sem æskilegt væri. Ég lýsti því með því að vitna í skýrslu frá 1972 sem Ytri-Njarðvíkurhreppur lét gera um þetta mál og vakti þá sérstaka athygli á málinu. Síðan kemur deildarstjóri varnarmáladeildar fram í fjölmiðlum og segir að þetta sé nýtt mál og nánast hafi engan grunað að til væri nokkuð sem héti olíumengun nema í þessu eina tilfelli. Það er þetta sem ég var að leggja áherslu á, að það þyrfti að kanna þessi mál frá öllum hliðum og hafa samráð við sveitarfélögin. Mér er einnig kunnugt um það, að varnarmátadeild hefur ekki haft samráð við sveitarfélögin á Suðurnesjum varðandi málefni, er snerta Keflavíkurflugvöll, á þann hátt sem æskilegt er, og e.t.v. er það ástæðan til þess að komið er eins og komið er nú þessa dagana. Það er ófremdarástand ríkjandi hvað varðar þessa mengun, og fulltrúar sveitarfélaganna geta sagt fyrrv. utanrrh. það, að það er eingöngu spurning um tíma, hvenær mengunin í vatnsbólunum verður slík að þau verði ónothæf. Hvað verður þá um fiskiðnað á Suðurnesjum? Þá verður ekki lengur rætt um að auka hagræðingu og nýtingu. Það verður því annars konar vandi sem þá verður við að glíma, þegar svo verður komið að olíumengun er komin í vatnsbólin. Þetta er kjarni málsins, og það má alls ekki láta við svo búið standa með því að hætta þessari umr. hér, heldur skora ég á hæstv. utanrrh. og ég veit að hann hefur kraft og getu til þess að taka þessi mál föstum tökum.