19.12.1978
Efri deild: 37. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1768 í B-deild Alþingistíðinda. (1326)

23. mál, tímabundið vörugjald

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Það er auðvitað ljóst, þrátt fyrir orð hv. 6. þm. Suðurl., að það er ekkert því til fyrirstöðu að unnt sé að samþ. þá brtt. sem þm. Sjálfstfl. hafa borið fram við þetta frv.

Ég hafði, herra forseti, kvatt mér hljóðs í sambandi við tilgang þessa máls þegar það var til umr. fyrst fyrir helgina, en eins og kunnugt er, þá er tilgangurinn með þessari fjáröflun að vega upp á móti þeim tekjumissi sem ríkið verður fyrir vegna niðurfellingar tolla af vörum frá EFTA-ríkjum. Í því sambandi er alveg ljóst að lausn verður líka að liggja fyrir á þeim vanda sem þessi breyting skapar íslenskum iðnaði, ekki síst íslenskum útflutningsiðnaði. Þess vegna spurði ég um það, og líka að gefnu tilefni í sjálfum samstarfssamningi ríkisstj. að gefnu tilefni í yfirlýsingum ýmissa ráðh. og að gefnu tilefni í yfirlýsingu formanns Alþb.: Hverjar eru þær aðgerðir sem ríkisstj. ætlaði samkv. þessum yfirlýsingum að grípa til til þess að leysa þann vanda sem nú hlýtur að rísa fyrir íslenskan iðnað til viðbótar þeim vanda sem aukist hefur vegna stóraukinnar álagningar skatta á hinar ýmsu atvinnugreinar í þjóðlífinu?

Hæstv. iðnrh. svaraði þessari fsp. minni, eða öllu heldur ég vonaðist til að hann svaraði fsp. minni, en efnislega fólst í raun og veru ekki svar við spurningu minni í ræðu hans. Hæstv. ráðh. skýrði á ýmsan hátt umfjöllun um þetta mál í vetur. Hann gat þess m.a., að sú nefnd manna á vegum þriggja rn., sem skipuð hefði verið til þess að gera till. til lausnar þessu máli, hefði nú skilað tillögum. Hæstv. ráðh. gat þess hins vegar ekki hverjar þær tillögur væru. Nú er kominn 19. desember. Ljóst er að til aðgerða hlýtur að verða að grípa fyrir áramót eða samhliða og samtímis því sem það gerist að þessi áfangi í tollaniðurfellingu á EFTA-vörum kemur til framkvæmda.

Það hefur verið ljóst, að ekki hafa allir verið á einu máli innan hæstv. ríkisstj. um það, með hverjum hætti skuli staðið að lausn þessa vanda. Sumir hæstv. ráðh. voru eindregið þeirrar skoðunar, að fresta bæri tollalækkuninni. Ég skil vel að ekki gátu allir innan ríkisstj. fallist á þá lausn. Hún er hvorki eins einföld né æskileg og ætla mætti við fljótlega athugun, gæti jafnvel orðið þeim til skaða sem henni væri ætlað að styðja. Þess vegna var það mjög skiljanlegt að fram kæmi hjá stuðningsmönnum hæstv. ríkisstj., og raunar hverjum öðrum þm. sem væri, að æskilegra væri að láta koma til framkvæmda einhvers konar ígildi þessara núverandi tolla — eða öllu heldur það sem styddi iðnaðinn með nokkrum hætti að því marki sem þessir tollar óneitanlega gerðu. Nú er það svo, að hvorki er ég né aðrir þm. í Sjálfstfl. talsmenn verndartolla almennt. Hitt er annað mál, að svo rækilega hefur verið saumað að ekki síst iðnaðinum í þessu landi sem og ýmsum öðrum atvinnurekstri, að honum hefur ekki gefist það tækifæri, sem ætlunin var að hann fengi þegar við gengum í EFTA, til að laga sig að breyttum aðstæðum sem vænst var þá og æskilegt hefði verið. Þess vegna er það ómótmælanlega verkefni ríkisvaldsins nú að koma til móts við iðnreksturinn í landinu til þess að leysa þennan vanda. Þar er líka um mikið atvinnuspursmál að ræða. 12 þús. manns vinna í framleiðsluiðnaðinum. 16.3% þjóðarinnar starfa við iðnað í landinu. Þetta er ekki síst mikill vandi hér á þéttbýlissvæðinu, og því er það ekki neitt hégómamál að fá að vita, nú þegar við afgreiðum þetta mál, hver er ætlunin á næstu dögum.

Hæstv. ráðh. hefur sagt að það megi vænta aðgerða í þessum efnum fyrir áramót. Það hlýtur þá annaðhvort að mega vænta þess að nú í dag eða á morgun verði lagt á borð okkar frv. þessa efnis, — eða hugsar ríkisstj. sér að leysa þetta mál með brbl. eða hvernig er ætlunin að standa að þessu máli?

Í ræðu hæstv. iðnrh. kom fram, að hann hefði áhyggjur af verðhækkunaráhrifum sem hækkun jöfnunargjaldsins, sem rætt hefur verið um, hefði í för með sér. Ráðh. vék að því, að hvert prósentustig í hækkun jöfnunargjalds iðnaðar samsvaraði 0.1% í verðbótavísitölu. Hins vegar minntist hæstv. ráðh. ekki á það, hvaða áhrif á almennt verðlag í landinu slíkar aðgerðir sem eru ætlaðar til fjáröflunar fyrir ríkissjóð, hafa. Þessara verðhækkunaráhrifa, sem hæstv. ráðh. gat um, gætir hins vegar ekki ef til aðgerða er gripið samtímis því sem tollalækkunin kemur til framkvæmda.

Hugleiðingar hafa komið fram um það, að hugsanlegt væri að fresta síðasta þrepi tollalækkunarinnar. Á það er að líta, að þá er svo lítill hluti eftir af allri tollalækkuninni, sem hefur komið fram í áföngum, og sú breyting og sú frestun yrði svo flókin aðgerð að það má telja mjög vafasamt og raunar ekki ráðlegt að fara þá leið. Miklu einfaldara er að grípa til þeirra aðgerða sem viðurkennt er að eru heimilar innan EFTA-samningsins. Það eru vissar aðgerðir sem eru heimilar til stuðnings atvinnugreinum og atvinnujöfnun í landinu: Eins og slíkt telst heimilt vegna röskunar á byggðajafnvægi t.d. og er óspart notað af ýmsum löndum innan EFTA, þá hlýtur slíkt einnig að vera heimilt þegar um er að ræða að atvinnuröskun verði mjög mikil í þjóðlífinu, er vinnuafl kynni annars að flytjast frá einni fjölmennustu atvinnugrein landsins og ýmsir hreinlega missa vinnu sína. Það, sem mestum deilum hefur e.t.v. valdið, er hvort grípa skuli til sérstaks innflutningsgjalds, hvað sem það yrði kallað, sem einungis legðist á tilteknar vörur frá greinum er taldar hafa átt erfitt uppdráttar. Við því er það að segja, að í slíkum aðgerðum felst ekki mat á aðstöðunni sem hægt er að segja að raunverulega komi við áhrifunum frá EFTA-ríkjum sérstaklega. Ef um væri að ræða sérstaka aðstoð við iðngreinar, sem fyrir liggur samkv. athugunum fagmanna að mjög hafi orðið fyrir barðinu á ólögmætri samkeppni annars staðar frá, þá kæmu slíkar aðgerðir til greina. Þegar slíkir útreikningar liggja ekki fyrir er ekki hægt að fallast á að það séu skynsamlegar aðgerðir að taka eina eða tvær greinar iðnaðarins út úr og veita þeim sérstakan stuðning af ríkisins hálfu. Það kann að verða sagt, að það sé erfitt að finna út hvaða greinar sérstaklega það ættu þá að vera sem ættu að njóta stuðnings, ef til þess kæmi að það væri vefengt að erfiðleikarnir bitnuðu ekki á öllum iðnaðinum almennt. En þá mætti aftur spyrja hvort Íslendingar hafi í raun og veru notfært sér sem skyldi þá möguleika sem þeir hafa innan stofnana eins og EFTA og OECD til þess að færa sér í nyt þá fagþekkingu sem þar stendur til boða. Ég hef orð embættismanna á þessum stöðum fyrir því, að þar séu menn tilbúnir til þess og hafi aðstöðu til þess að rannsaka þessi mál sérstaklega, þannig að Íslendingar stæðu fyllilega þannig að vígi að ekki væri unnt að segja að þeir hefðu á nokkurn hátt gengið á svig við samningana sem við höfum gert við EFTA og EBE, hvað þá að þeir brytu þá samninga.

Heyrst hefur, þótt það sé einungis á skotspónum. að þær hugleiðingar, sem nú séu uppi af hálfu ríkisstj., séu sérstakt innborgunargjald á húsgögn og sérstakt innflutningsgjald á sælgæti. Ég veit ekki hvað rétt er í þessu, en þetta ber óneitanlega svip af afar gamaldags haftakerfi sem við höfum prísað okkur sæl fyrir að vera löngu laus við. Ég vona að þessar „skotspónafregnir“ séu ekki neitt í samræmi við það sem koma skal. Þess vegna ítreka ég þessar tvær fsp., sem eru eðlilegar í framhaldi af ræðu hæstv. iðnrh., og með því að ég sé að hæstv. iðnrh. er ekki hér í d. og ég hef ekki tilhneigingu til að tefja afgreiðslu málsins frekar með því að biðja um að frestað verði og beðið eftir nærveru hans, þá leyfi ég mér að æskja þess, að hæstv. forsrh. gefi þær upplýsingar sem hér er um beðið og snerta óneitanlega bæði eina mikilvægustu og vaxandi atvinnugrein hér í landinu svo og fjölda manna sem hafa atvinnu sína og lífsframfæri af þeirri atvinnugrein. Ég vona að hæstv. forsrh. misvirði ekki forvitni mína þótt ég beri fram þessar spurningar, en svo að ég ítreki þær, þá voru þær: Hvert er þetta ígildi tollalækkana sem gert var ráð fyrir að gripið yrði til íslenskum iðnaði til stuðnings? Ef gripið verður til ráðstafana, verður það þá fyrir áramótin nú? Og loks: Verða aðgerðirnar fólgnar í innborgunargjaldi á tilteknar greinar?