19.12.1978
Efri deild: 37. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1774 í B-deild Alþingistíðinda. (1334)

145. mál, almannatryggingar

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Við tveir nm. skrifuðum undir nál. með fyrirvara, eins og fram kom í ræðu frsm. n. Ég vil með örfáum orðum skýra þann fyrirvara. Hann felst í því, að sú tekjutilfærsla, sem á sér stað með þessari ráðstöfun ásamt öðrum ráðstöfunum hæstv. ríkisstj., er ekki þess eðlis að við getum fallist á hana, þ.e. við getum ekki fallist á þær tekjuöflunarleiðir sem farnar eru til þess að bæta ríkissjóði upp þann tekjumissi sem verður að því að lækka sjúkratryggingagjaldið.

Það kemur fram í grg. fyrir frv., að það eru 1450 millj. sem ríkissjóður verður af sökum lækkunar sjúkratryggingagjaldsins. Það kemur einnig fram, að af þeim verði 1250 millj. kr. lækkun á gjöldum tekjulágs fólks og enn fremur nýtist ónýttur persónuafsláttur sem svarar 200 millj. Hins er aftur á móti ekki getið, hvaðan peningarnir koma sem vega eiga upp þennan tekjumissi. Á það má benda, að gert er ráð fyrir því í fjárlagafrv. nú, að gjald sjúklinga af meðulum og sérfræðilæknishjálp hækki í þeim mæli að samtals nemi það 960 millj. kr. Menn sjá því að álögurnar, sem ríkisvaldið segist létta af almenningi, eða þær tekjur sem skattarnir lækka enn með þessu formi, eru að þessu leyti til teknar af sjúklingunum. Ég fæ ekki betur séð en að þarna séu liðlega 2/3 af þessum tekjum innheimtir beint af sjúklingum.

Ég get ekki fallist á að það sé nein sérstök lausn í þessu fólgin, það liggur ekki sérstaklega fyrir, og mér er ekki alveg ljóst hvaðan hinar 500 millj. koma. En aðalatriðið er, að þó að við hv. 4. þm. Reykn. viljum ekki ganga gegn samþykkt þessa frv., þá viljum við ekki fallast á þær leiðir sem farnar eru til tekjuöflunar í staðinn.