24.10.1978
Sameinað þing: 7. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 121 í B-deild Alþingistíðinda. (134)

324. mál, varnir gegn mengun af völdum bandaríska hersins

Fyrirspyrjandi (Ólafur Ragnar Grímsson):

Herra forseti. Eins og þessi umr. hefur þegar leitt í ljós, þá verð ég því miður að lýsa miklum vonbrigðum mínum með svar hæstv. utanrrh. Það er skóladæmi um hvernig á ekki að svara fsp. á Alþingi Íslendinga með því að treysta algerlega á umsagnir þess embættismanns sem greinilega hefur ekki reynst vanda sínum vaxinn á þessu sviði. Þau svör, sem utanrrh. gaf hér áðan, eru í reynd engin svör, heldur hreint og klárt yfirklór, tilraun til þess að færa þetta mál eins og marga fyrirrennara þess í þann fjársjóð gleymskunnar sem einkennt hefur kannanir íslenskra stjórnvalda á afbrotum bandaríska hersins af þessu tagi. Ég hafði vænst þess, að þegar formaður hinna ungu rannsóknariddara settist í sæti utanrrh., þá yrði tekið öðruvísi á þessum málum, þá yrði ekki færð hér fram sama gamla lumman sem forstöðumaður varnarmáladeildar hefur matreitt í almenning á Íslandi og íslensk stjórnvöld á undanförnum árum. Og ég vona satt að segja að hæstv. utanrrh. taki sér samþm. sína, Gunnlaug Stefánsson og Karl Steinar Guðnason, til fyrirmyndar í þessum efnum frekar en embættismanninn í rn. Það er ekki sæmandi af fyrrv. utanrrh., hv. þm. Einar Ágústssyni, að fara háðsorðum um þá kjörnu fulltrúa sveitarstjórna á Suðurnesjum sem hann kallaði hér „þrjá vitringa“, vegna þess að þeir héldu vöku sinni og vöruðu stjórnvöld og embættismenn við þeirri olíumengun og annarri skaðsemisstarfsemi sem fram færi af völdum bandaríska hersins. Það sýnir kannske viðhorfin, sem hafa verið ríkjandi í rn., að kjörnir fulltrúar sveitarfélaganna á þessu svæði og aðrir íslenskir áhugamenn, sem hafa viljað benda á mengunarhættu af völdum bandaríska hersins, skuli vera kallaðir hér þrír vitringar, en síðan skuli vera í boði sérfræðingur sem er væntanlegur frá bandaríska hernum til þess að fjalla um það mál sem herinn hefur greinilega sýnt að hann miðar fyrst og fremst afskipti sín af til þess að klóra yfir, en ekki til þess að upplýsa eða bæta úr. Í raun og veru eru þær upplýsingar, sem hér hafa komið fram frá þeim hv. þm. sem til máls hafa tekið, frásagnir af því nefndarstarfi sem hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson lýsti hér, frásagnir hv. þm. Karls Steinars Guðnasonar af ítrekuðum samþykktum bæjarstjórnarinnar í Keflavík og í Njarðvíkum um afbrot á þessu sviði, um vanefndir loforða hvað úrbætur snertir, um þá fullyrðingu sem hér kom fram af þeirra hálfu, og vænti ég að þeir viti vel hvað þeir eru að segja, að það sé aðeins tímaspursmál — og ég ítreka það: það sé aðeins tímaspursmál hvenær olíumengunarhætta af völdum bandaríska hersins sé orðin slík að hún ógni fiskiðnaði á Suðurnesjum. Þessar fullyrðingar, sem þessir tveir ágætu þm. settu hér fram, samflokksmenn hæstv. utanrrh., gefa tilefni til miklu ítarlegri og rækilegri könnunar en hér hefur verið gerð grein fyrir af hálfu rn.

Það er alveg ljóst, að þetta mál sýnir enn einu sinni að það embættismannakerfi, sem íslenska ríkið hefur komið sér upp til þess að sinna þessum málum, er ekki vanda sínum vaxið. Aðalstarfsorka þess fer í að láta málin týnast, passa að ekki sé kafað til botns í þeim, hindra að þau fái nægilega ítarlega meðferð, og taka síðan nýjan utanrrh. og — mér liggur við að segja: mata hann á frásögn af meðferð þessara mála sem greinilega er í engu samræmi við þann veruleika sem hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson og Karl Steinar Guðnason upplýstu hér áðan. Þegar embættiskerfi ríkisins bregst þannig þeim skyldum sem því er ætlað að sinna, þá á Alþingi Íslendinga engan annan kost heldur en að taka málið sjálft í sínar hendur. Og í ljósi þeirrar umr., sem hér hefur farið fram, og þeirra upplýsinga um mjög svo alvarlegt ástand þessara mála, margendurteknar sögufalsanir og svik hvað snertir gefin loforð og tilraunir til yfirbreiðslna af hálfu bandaríska hersins á þessum vettvangi, þá mun ég flytja till. hér á Alþingi um kjör sérstakrar rannsóknarnefndar þm. til þess að rannsaka mengunarhættu af völdum bandaríska hersins. Ég mun þá jafnvel taka einnig til könnunar spurninguna um það, hvort kjarnorkuvopn eru geymd á Keflavíkurflugvelli, vegna þess að sá sami embættismaður og hér hefur verið til umr. í dag hefur orðið frægur að endemum fyrir að lýsa því yfir, að hann hafi sjálfur gengið úr skugga um að það séu ekki geymd kjarnorkuvopn á Keflavíkurflugvelli. Hitt er svo athyglisvert, að fulltrúar bandaríska hersins, herforingjarnir sjálfir, hafa ekki þrátt fyrir ítrekaðar fsp. fengist til að játa eða neita, hvort kjarnorkuvopn séu geymd á Keflavíkurflugvelli. Þarna þykist þessi embættismaður greinilega vita meira en herforingjarnir sjálfir eru reiðubúnir að láta í té. Og það er vissulega alvarlegt fyrir íslenska þjóð, ef kjarnorkuvopn eru geymd á Keflavíkurflugvelli, og í þessu skyni eins og öðrum verður Alþingi að rækja skyldu sína við þjóðina.

Þessar umr., herra forseti, hafa greinilega sýnt það, að þetta mál er hvergi nærri rætt né kannað til botns. Þau svör, sem hér hafa komið fram, og lýsingar á meðferð skyldra mála á undanförnum árum sýna að embættiskerfið á Íslandi er ekki vanda sínum vaxið hvað þetta snertir. Alþ. verður sjálft að grípa þarna í taumana með því að framkvæma sjálfstæða rannsókn í þessu skyni. Ég mun beita mér fyrir tillöguflutningi hér á Alþ. um skipun sérstakrar rannsóknarnefndar sem beinist að vörnum íslensku þjóðarinnar gagnvart veru bandaríska hersins hér.